Ferill 854. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1842  —  854. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um sveigjanleika í námi og fjarnám á háskólastigi.

     1.      Hver er stefna háskólanna hvers um sig varðandi sveigjanleika í námi?
    Í svörum sem ráðuneytið aflaði frá háskólum kom eftirfarandi fram.
     Háskóli Íslands: Háskóli Íslands gegnir lykilhlutverki við uppbyggingu nútímalegs þekkingarsamfélags með því að búa nemendur undir störf á fjölmörgum sviðum samfélagsins, sem og fyrir frekara nám. Háskólinn leggur áherslu á gæði náms, þróun kennsluhátta og samþættingu kennslu. Í stefnu Háskóla Íslands um gæði náms og kennslu 2018–2021, má finna stefnu skólans í málefnum náms og kennslu sem byggir á heildarstefnunni HÍ21. Þar er að finna þrjú meginmarkmið:
     1.      Innan HÍ er öflugt námssamfélag nemenda og kennara.
     2.      Gæði náms og kennslu eru í öndvegi í starfi skólans.
     3.      HÍ þjónar fjölbreyttu samfélagi með því að bjóða upp á margvíslegar leiðir til náms.
    Í stefnunni er lögð rík áhersla á að bjóða uppi á fjölbreyttar leiðir til náms (til að mynda með sveigjanlegu námi) og þjóna þannig ólíkum hópi nemenda. Sem lið í því er mikilvægt að skilgreina viðmið um gæði fjarnáms og sveigjanlegs náms í Háskóla Íslands og að nám við skólann sé byggt upp í samræmi við þau viðmið.
    Ný stefna háskólans 2021–2026, HÍ 26, hefur verið samþykkt. Sérstök áhersla er lögð á að efla stafræna kennsluhætti og notkun upplýsingatækni við kennslu. Einnig verður leitast við að skilgreina, styðja við og efla fjarnám og sveigjanlegt nám við háskólann.
     Háskólinn á Akureyri: Háskólinn á Akureyri býður upp á allt sitt nám með rafrænum og sveigjanlegum hætti. Það þýðir að námsefni er miðlað með rafrænum hætti og nemendur geta stundað sitt nám úr sinni heimabyggð. Þessi stefna hefur verið í mótun frá árinu 2000 og endanleg ákvörðun um að allt nám skólans yrði með þessum hætti var tekin árið 2015.
     Landbúnaðarháskóli Íslands: Landbúnaðarháskóli Íslands hefur síðastliðin 15 ár boðið upp á fjarnámslausnir í BSc- og MSc-námi sem nýtast nemendum á öllum brautum. Sveigjanleiki í námshraða hefur verið mikill, en ný lög um Menntasjóð námsmanna styðja við að nemendur ljúki námi fyrr.
     Háskólinn á Hólum: Námsframboð Háskólans á Hólum hjá Ferðamáladeild og Fiskeldis- og fiskalíffræðideild er allt í fjarnámi með staðbundnum lotum. Nám við Hestafræðideild er alfarið staðnám og ekki er fyrirhugað að breyta því á næstunni.
     Listaháskóli Íslands: Listaháskólinn er eini háskólinn á fræðasviði lista á Íslandi og hefur því víðtæku hlutverki að gegna gagnvart landsmönnum. Eðli listnáms er slíkt að það krefst alla jafna kennslu í staðnámi. Er kennt á dagvinnutíma með undantekningum hjá einstaka brautum. Alla jafnan er miðað við að nemendur stundi fullt nám, 30 einingar á önn. Í sumum deildum býðst að taka námið á lengri tíma. Í tónlistardeild hefur verið þróað fjarnám fyrir starfandi tónlistarkennara, sérstaklega með þá í huga sem búa og starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Mætingarskylda er við LHÍ en var hún afnumin tímabundið sökum COVID-19. Um ástundun náms gildir það að nemendur taki fullan þátt í starfi námsbrautarinnar og séu virkir þátttakendur hvort sem er í hópa- eða einstaklingsstarfi. Umsækjendur um nám við Listaháskólann þreyta inntökupróf og/eða undirgangast viðtöl valnefnda. Inntökufjöldi er breytilegur eftir árum og inntökuhlutfall misjafnt milli deilda. Lægst er inntökuhlutfall í sviðslistadeild en í listkennsludeild (þar sem kennt er á meistarastigi, auk þess sem boðið er upp á diplómanám) hljóta allir umsækjendur inngöngu að uppfylltum skilyrðum er lúta að fyrri menntun. Um bakkalárnám gildir að nemendur þurfa að hafa lokið eigi færri en 105 einingum úr eldra kerfi framhaldsskólastigsins eða 150 framhaldsskólaeiningum samkvæmt nýja kerfinu til að fá inngöngu á undanþágu. Nemendur sem hafa fengið inngöngu geta óskað eftir að fá einingar metnar úr fyrra námi, hvort sem er sérnámi eða háskólanámi. Nemandi sem útskrifast frá LHÍ þarf að hafa tekið eigi minna en helming náms síns við skólann. Bakkalárnám er að jafnaði þrjú ár og hefur nemandi að hámarki fjögur ár til að ljúka bakkalárgráðu. Fjarvera vegna fæðingarorlofs er undanskilin. Þá er rektor heimilt, að tillögu viðkomandi deildarforseta, að veita undanþágur frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á. Nemendur geta tekið sér námshlé innan þess ramma sem reglur skólans setja um framvindu náms, og getur það varað að hámarki í eitt ár. Meistaranám er að jafnaði tvö ár. Almenn inntökuskilyrði eru að nemandi hafi hlotið bakkalárgráðu í faggrein. Umsækjendur sem ekki hafa lokið formlegu námi á bakkalárstigi geta óskað eftir að gangast undir raunfærnimat en slíkt ferli hefur verið í þróun innan skólans á síðustu árum. Deildir geta sett sérákvæði um að nemandi þurfi að ljúka tilteknum námskeiðum til að flytjast á milli námsára. Nemendur í meistaranámi í hönnun, myndlist og tónsmíðum þurfa að ljúka 48 einingum hið minnsta til að flytjast á milli námsára. Almennt gildir að nemandi hefur að hámarki þrjú ár til að ljúka við meistaragráðu. Í meistaranámi í tónlistar- og listkennsludeild má hámarkstíminn vera fjögur ár. Fjarvera vegna fæðingarorlofs er undanskilin og líkt og í námi á bakkalárstigi er rektor heimilt að tillögu viðkomandi deildarforseta að veita undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á.
    Háskólinn í Reykjavík: Tvö af meginstefnumiðum Háskólans í Reykjavík (HR) samkvæmt stefnu hans frá árinu 2018 er aukinn sveigjanleiki í námi, svo sem með auknu þverfaglegu námi, og að auka framboð á opnum og styttri námsbrautum.

     2.      Hefur verið gerð eða er áætlað að gera sérstaka greiningu á tækifærum til að auka aðgengi að námi með stafrænum hætti til framtíðar? Svar óskast sundurliðað eftir skólum.
    Í svörum sem ráðuneytið aflaði frá háskólum kom eftirfarandi fram.
     Háskóli Íslands: Háskóli Íslands leggur lykiláherslu á gott og framsækið staðnám fyrir nemendur skólans með aðstoð upplýsingatækni. Til að efla aðgengi að námi, bæði stað- og fjarnámi, hefur háskólinn tekið stór skref með innleiðingu nýs námsumsjónarkerfis, upptökukerfis fyrir kennslu og prófakerfis ásamt notkun edX í námi og kennslu. Stofnuð hefur verið sérstök deild til að mæta þessum nýja veruleika, deild rafrænna kennsluhátta, sem mun vinna náið með kennurum, nemendum og öðrum starfsmönnum skólans að því að greina þau tækifæri sem eru til staðar til þess að efla gæði og aðgengi að námi.
    Í nýrri stefnu háskólans, HÍ 26, er lögð sérstök áhersla á innleiðingu stafrænna lausna til að takast á við síbreytilegan veruleika og aukna alþjóðlega samkeppni.
    Dæmi um verkefni til að auka aðgengi með stafrænum hætti við HÍ:
    Innleiðing námsumsjónarkerfis (Canvas).
    Innleiðing prófakerfis (Inspera).
    Innleiðing edX-námskeiða í kennslu.
    Aukin áhersla á upptökumál við háskólann.
    Mótun stefnu fyrir fjarkennslu við háskólann.
     Háskólinn á Akureyri: Sjá svar við 1. lið fyrirspurnarinnar. Þessi ákvörðun lá í raun fyrir árið 2011 en var endanlega staðfest árið 2015 sem stefna skólans til framtíðar.
     Landbúnaðarháskóli Íslands: Aðgengi að námi með stafrænum hætti er nú þegar umtalsvert og hefur aukist mikið á tímum COVID. Nánast allir áfangar á flestum brautum eru kenndir í streymi og með upptökum sem hægt er að spila hvenær sem er innan þess tíma sem námskeiðið er í kennslu. Verkleg kennsla fer fram á kennslustað og er skipulögð inn á fyrirfram ákveðnar vikur sem að jafnaði eru tvær á hverri sjö vikna stuttri önn.
    Háskólinn á Hólum: Háskólinn á Hólum telur námsframboð sitt við Ferðamáladeild og Fiskeldis- og fiskalíffræðideild svara þörfum samfélagsins um fjarnám og þeim tæknilausnum sem háskólinn nýtir. Þróun fjarnáms er stöðug og mun háskólinn halda áfram að nýta sér nýjungar í þeim fræðum, hér eftir sem síðustu 20 árin.
     Listaháskóli Íslands: Ekki hefur verið gerð slík greining hjá LHÍ. Verið er að taka upp námsumsjónarkerfið Canvas sem mun stórbæta tækifæri til stafrænna kennsluhátta sem þó verður bundið staðnámi. Góð reynsla hefur verið af fjarnámi í fræðilegum námskeiðum á tímum COVID-19 og hyggst skólinn nýta þá reynslu og leggja áherslu á samspil stafrænna kennsluhátta sem leið til að efla gæði staðnáms í framtíðinni.
     Háskólinn í Reykjavík: Hér hefur HR sérstaklega horft til eftirfarandi:
     a.      Stafræn kennsla var innleidd hraðar í HR vegna COVID-heimsfaraldurs og sú þróun heldur áfram.
                  –      Nýtt kennslukerfi, Canvas, hefur verið innleitt sem er undirstaða stafrænnar miðlunar í HR.
                  –      Sérfræðingar í gerð stafræns kennsluefnis hafa verið ráðnir til starfa.
                  –      Öll þekkingaratriði verða aðgengileg á stafrænu formi frá hausti 2020.
                  –      Alþjóðlegt nám er stöðugt að aukast, til dæmis í samvinnu við MIT og USM.
    Meðal verkefna framundan sem þessu tengjast eru:
                  –      Nýting stafrænnar tækni í fleiru en miðlun þekkingar.
                  –      Þróun gæðakerfa fyrir stafrænt nám og verkefnadrifið nám.
     b.      Verið er að þróa opnari námsleiðir og nýja kennsluhætti.
                  –      Stafræn miðlun námsefnis hefur þróast hratt.
                  –      Styttri námsbrautir hafa verið settar af stað og fleiri eru á teikniborðinu.
                  –      Meðvitund um áhrif tæknibyltingar hefur aukist verulega.
        Verkefni framundan:
                  –      Fjölgun styttri námsbrauta og námskeiða.
                  –      Þróun stafræns náms fyrir menntun fólks á vinnumarkaði.
                  –      Tenging verkefnadrifins náms við viðfangsefni fyrirtækja.
                  –      Umgjörð og þjónusta við viðskiptavini HR á öllum æviskeiðum.

     3.      Hvaða námsleiðir var mögulegt að stunda í sveigjanlegu námi eða fjarnámi skólaárið 2019–2020? Svar óskast sundurliðað eftir skólum.
    Í svörum sem ráðuneytið aflaði frá háskólum kom eftirfarandi fram.
     Háskóli Íslands: Umfang fjarnáms innan skólans er töluvert og er mikilvægt að byggja á því starfi. Reynsla og þekking á fjarkennslu er t.d. mikil á Menntavísindasviði. Þar er lögð áhersla á að bjóða sem mest af námskeiðum bakkalárnáms (grunnnáms) bæði í staðnámi og í fjarnámi með staðbundnum kennslulotum. Margar af bakkalárnámsleiðum Menntavísindasviðs er hægt að stunda frá upphafi til enda í fjarnámi með staðbundnum lotum, en í öðrum tilfellum er nauðsynlegt að taka a.m.k. sum námskeið á leiðunum í staðnámi, sem krefst viðveru allt misserið sem þau eru tekin. Rétt er að taka fram að BS-nám í íþrótta- og heilsufræði er að öllu leyti skipulagt sem staðnám.
    Sjá lista yfir námsleiðir í grunnnámi við deildir Menntavísindasviðs 2019–2020, 1 og sams konar lista fyrir háskólaárið 2020–2021. 2
    Í námi á meistarastigi í deildum Menntavísindasviðs eru námskeið ýmist kennd í staðnámi (vikulegir tímar) eða í fjarnámi með staðbundnum lotum. Staðlotur eru að jafnaði tvær á hverju misseri. Í flestum námsleiðum á meistarastigi á sviðinu er hægt að stunda námið í fjarnámi að einhverju leyti.
    Framboð skipulagðs fjarnáms á öðrum fræðasviðum Háskóla Íslands er mun takmarkaðra, þótt það hafi aukist töluvert á síðustu árum. Í mörgum kennslugreinum er eðli námsins þannig að erfitt er að bjóða það sem fjarnám.
    Námsgreinar þar sem umtalsverður fjöldi námskeiða býðst í fjarnámi eru eftirtalin.
     Félagsvísindasvið.
    Blaða- og fréttamennska, framhaldsnám.
    Fötlunarfræði, framhaldsnám.
    Hnattræn fræði, framhaldsnám.
    Kynjafræði, grunn- og framhaldsnám.
    Mannfræði, grunn- og framhaldsnám.
    Opinber stjórnsýsla, framhaldsnám.
    Safnafræði, grunn- og framhaldsnám.
    Stjórnmálafræði, framhaldsnám.
    Upplýsingafræði, framhaldsnám.
    Þjóðfræði, grunn- og framhaldsnám.
    Þróunarfræði, framhaldsnám.
    Heilbrigðisvísindasvið.
    Heilbrigðisgagnafræði, grunnnám.
     Hugvísindasvið.
    Enska, grunnnám
    Sænska, grunnnám.
     Háskólinn á Akureyri: Allar námsleiðir.
     Landbúnaðarháskóli Íslands : BSc-nám í búvísindum, náttúru- og umhverfisfræði, og skógfræði var hægt að stunda í fjarnámi með þátttöku í verklegum þáttum á staðnum. Hestafræði og landslagsarkitektúr er hægt að stunda með fjarnámslausnum í nokkrum mæli en meira er um verklega þætti í þeim námsleiðum. Rannsóknamiðað MSc-nám og PhD-nám er mjög sveigjanlegt og einstaklingsmiðað. MSc-nám í skipulagsfræði er að mestu staðnám en komið er til móts við nemendur af landsbyggðinni að nokkru leyti með streymi og upptökum.
    Á framhaldsskólastigi er hægt að stunda nám hvort heldur sem er í staðnámi eða fjarnámi í garðyrkjuframleiðslu, skóg og náttúru og skrúðgarðyrkju nema í þeim tilfellum þar sem er um verklega kennslu er að ræða. Verklegi hlutinn er kenndur í lotuvikum sem eru þrjár á hverju misseri.
    Í blómaskreytingum er um talsverða verklega kennslu að ræða og því meiri viðvera í náminu en í garðyrkjunámi.
    Nýir nemendur í búfræði voru einungis teknir inn í staðnám haustið 2019, en nokkrir nemendur voru í fjarnámi. Nýr hópur í fjarnám í búfræði verður tekinn inn næsta haust (2021).
     Háskólinn á Hólum:
    Diplóma í viðburðastjórnun.
    Diplóma í ferðamálafræði.
    BA í ferðamálafræði.
    BA í stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta.
    MA í útivistarfræðum.
    MA í ferðamálafræði.
    Diplóma í fiskeldisfræði.
    MS-nám í sjávar og vatnalíffræði.
    MAR-BIO samnorrænt meistaranám.
     Listaháskóli Íslands: Skólaárin 2019–2020 og 2020–2021 hafa einkennst af stöðugum breytingum á kennsluháttum og námsumhverfi. Á öllum námsleiðum voru breytingar í átt að sveigjanlegra námi og fjarnámi í fræðanámskeiðum. Mætingarskylda var felld niður, lögð var áhersla á tækniráðgjöf fyrir nemendur og kennara, nemendur fengu meiri sveigjanleika í skilum á verkefnum svo eitthvað sé nefnt.
     Háskólinn í Reykjavík: Sjá svar við 4. lið fyrirspurnarinnar.

     4.      Hvaða námsleiðir verða í boði skólaárið 2021–2022 sem verður mögulegt að stunda í sveigjanlegu námi eða fjarnámi? Svar óskast sundurliðað eftir skólum.
    Í svörum sem ráðuneytið aflaði frá háskólum kom eftirfarandi fram.
    Háskóli Íslands:
    Sjá lista yfir námsleiðir í grunnnámi við deildir Menntavísindasviðs 2021–2022. 3
    Varðandi námsleiðir á meistarastigi í deildum Menntavísindasviðs og námsgreinar á öðrum fræðasviðum þar sem umtalsverður fjöldi námskeiða býðst í fjarnámi, sjá svar við 3. lið fyrirspurnarinnar.
     Háskólinn á Akureyri: Allir námsleiðir.
    Landbúnaðarháskóli Íslands: BSc-nám í búvísindum, náttúru- og umhverfisfræði og skógfræði verður áfram boðið í fjarnámi með þátttöku í verklegum þáttum á staðnum. Hestafræði og landslagsarkitektúr er hægt að stunda með fjarnámslausnum í nokkrum mæli en meira er um verklega þætti í þeim námsleiðum. Rannsóknamiðað MSc-nám og PhD-nám er mjög sveigjanlegt og einstaklingsmiðað. MSc-nám í skipulagsfræði er að mestu staðnám en komið til móts við nemendur af landsbyggðinni að nokkru leyti með streymi og upptökum.
    Garðyrkjubrautir halda áfram með óbreyttum hætti, en ekki eru teknir inn nýir nemendur haustið 2021 þar sem einungis eru teknir inn nemendur á þær brautir annað hvert ár.
    Búfræði verður boðin í staðnámi og í fjarnámi haustið 2021 fyrir þá nemendur sem uppfylla kröfur til fjarnáms.
     Háskólinn á Hólum:
    Diplóma í viðburðastjórnun.
    Diplóma í ferðamálafræði.
    BA í ferðamálafræði.
    BA í stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta.
    MA í útivistarfræðum.
    MA í ferðamálafræði.
    Diplóma í fiskeldisfræði.
    MS-nám í sjávar- og vatnalíffræði.
    MAR-BIO samnorrænt meistaranám.
    MS í hestafræðum.
    Listaháskóli Íslands: Listkennsludeild LHÍ hefur gengið til samstarfs við kennaradeild Háskólans á Akureyri um kennslu námskeiðs í grunnnámi veturinn 2021–2022. Verður námskeiðið kennt í fjarnámi í bland við staðbundnar lotur. Þá hyggst tónlistardeild halda áfram að kenna kennslufræði hljóðfæranáms í fjarkennslu, en reynsla af slíku fyrirkomulagi á síðastliðnu skólaári var góð. Með innleiðingu nýs námsumsjónarkerfis gefst tækifæri til að taka upp fyrirlestra og gera þá aðgengilega fyrir nemendur. Óhætt er að segja að möguleikar á fjarkennslu í innlendum sem alþjóðlegum samstarfsverkefnum hafa eflst á síðustu misserum.
     Háskólinn í Reykjavík: Fyrir utan þær námsleiðir sem HR er í samstarfi um, sjá 6. lið fyrirspurnarinnar, býður HR upp á námsleiðir í fjarnámi skólaárið 2021–2022.
    Meistaranám í viðskiptafræði: Námstíminn er 14 mánuðir eða 3 annir (vor, sumar, haust) m.v. fullt nám einnig er hægt að ljúka náminu á lengri tíma þá með vinnu (hámarksnámstími eru sex annir). Námskeið eru kennd seinni part dags, í lotu og/eða um helgar.
    Iðnfræði: nám til diplómagráðu á háskólastigi sem kennt í fjarnámi með tveimur staðarlotum á önn, eina helgi í senn. Námið er skipulagt þannig að hægt sé að stunda það samhliða vinnu og ljúka því á þremur árum. Einnig er mögulegt að gera einstaklingsmiðaða námsáætlun og ljúka náminu á skemmri tíma.
    Rekstrarfræði: Rekstrarfræði er hagnýtt diplómanám, þriggja anna fjarnám með staðarlotum sem gerir nemendum kleift að stunda námið samhliða vinnu.
    Upplýsingatækni í mannvirkjagerð: Nám til diplómagráðu. Námið er kennt samhliða vinnu, seinni part dags.
    Diplómanám í tölvunarfræði: Námið er samsvarandi fyrstu tveimur árunum í BSc-námi í tölvunarfræði. Diplómanámi má ljúka í staðarnámi í dagskóla og með vinnu. Námið er einnig kennt á Akureyri, í samstarfi við HA. Nemendur geta að námi loknu ákveðið að halda áfram og bæta við sig einu námsári eða 60 einingum og útskrifast með BSc-próf í tölvunarfræði.

     5.      Hvaða námsleiðir er áætlað að bætist við í sveigjanlegu námi eða fjarnámi á næstu þremur skólaárum? Svar óskast sundurliðað eftir skólum.
    Í svörum sem ráðuneytið aflaði frá háskólum kom eftirfarandi fram.
     Háskóli Íslands: Áætlun fræðasviða og deilda við HÍ um aukið fjarnám eða sveigjanlegt nám liggur ekki fyrir að svo stöddu. Í nýrri stefnu HÍ 2021–2026, HÍ 26, verður aukin áhersla á stuðning við fjarnám og sveigjanlegt nám. Leitað verður eftir tækifærum til að nýta þá reynslu sem lærðist í COVID til að auka aðgengi og sveigjanleika nemenda í námi við skólann. Stefnt er að því að deildum / námsbrautum verði veittur styrkur til að efla og móta fjárnámsleiðir á næstu misserum.
     Háskólinn á Akureyri: Allar nýjar námsleiðir verða með sama hætti boðnar sem sveigjanlegt nám miðlað með rafrænum hætti.
     Landbúnaðarháskóli Íslands: Í haust verður tekinn inn nýr hópur í fjarnám í búfræði. Í skoðun hefur verið að bæta við námsbraut á sviði landgræðslu.
    Háskólinn á Hólum: Að svo stöddu er ekki fyrirhugað að bæta námsleiðum við námsframboð háskólans.
     Listaháskóli Íslands: Listaháskólinn hyggst halda áfram að þróa leiðir blöndu af staðnámi og fjarnámi sem leið til að efla gæði náms og kennslu og styrkja tengsl skólans við aðra háskóla, menningarstofnanir og fyrirtæki víðs vegar um landið. Listaháskólinn er eini háskólinn á fræðasviði lista á Íslandi og hefur því víðtæku hlutverki að gegna gagnvart landsmönnum.
     Háskólinn í Reykjavík: Nokkrar slíkar námslínur eru í bígerð en hafa ekki enn farið í gegnum samþykkt nýrra námslína (námsráð skólans o.fl.) og verður því ekki lýst frekar á þessu stigi.

     6.      Hafa háskólarnir heimild til að koma til móts við nemendur búsetta fjarri skólunum með sveigjanleika náms sem ekki er í boði sem fjarnám?
    Í svörum sem ráðuneytið aflaði frá háskólum kom eftirfarandi fram.
    Háskóli Íslands: Það veltur mjög á því hvað átt er við með sveigjanleika náms. Ljóst er að einstakir kennarar, námsbrautir og deildir skólans hafa visst svigrúm til að koma til móts við slíka nemendur, t.d. varðandi framkvæmd fjarprófa, stafrænna kennsluhátta o.fl. Í venjulegu árferði er það þó oft óhjákvæmileg krafa að nemendur sæki staðnám, t.d. í verknámi, málstofum o.s.frv.
    Til að mæta þörfum nemenda og atvinnulífs telur háskólinn mikilvægt að bjóða upp á nám í fjarkennslu á völdum námsleiðum með auknum sveigjanleika. Háskólinn þarf að tryggja heildarsýn um fjarkennslu þar sem valdar námsleiðir eru í boði fyrir nemendur sem taka nám með vinnu eða eru búsettir úti á landi.
    Eitt af forgangsverkefnum í stefnu um gæði náms og kennslu Háskóla Íslands fyrir 2021– 2026 er að móta heildarsýn um fjarkennslu/sveigjanlega kennslu. Það er mikilvægur liður í því að bæta nám og kennslu í skólanum auk þess að bjóða upp á fjölbreyttar leiðir til náms.     Markmið þessarar stefnu um fjarnám/sveigjanlegt nám er eftirfarandi:
    Að gæði fjarnáms við Háskóla Íslands séu tryggð.
    Að framboð fjarnáms á vegum HÍ sé ljóst og aðgengilegt.
    Að öllum þeim er starfa við HÍ, þ.e. kennurum, nemendum og öðru starfsfólki, sé ljóst hvað átt sé við með fjarnámi.
    Að kennarar fái stuðning við kennslu fjarnáms.
    Að fjarnám verði boðið fram sem heildstæð námsleið en stök námskeið.
    Að fjarnám í boði við Háskóla Íslands styðji við atvinnulíf og þarfir samfélagsins.
     Háskólinn á Akureyri: Svarið er já – en fyrir HA á þessi spurning varla við þar sem allt nám er nú þegar skilgreint með þessum hætti.
     Landbúnaðarháskóli Íslands: Eins og fram kemur hér að framan er mest allt nám hjá háskólanum boðið sem fjarnám, en verklegi hlutinn er kenndur á staðnum. Skólinn hefur komið til móts við nemendur sem búsettir eru fjarri skólanum með ýmsum hætti. Nemendur geta eins og fram kemur hér að framan að miklu leyti tekið námið heima, boðið er upp á prófahald úti um allt land og jafnvel erlendis og verklegum æfingum er stundum frestað eða þær fluttar til þegar þörf krefur.
     Háskólinn á Hólum: Háskólinn á Hólum hefur ekki gert það. Á ekki við um hestafræðinám við Háskólann á Hólum og annað nám er í fjarnámi með staðbundnum lotum.
     Listaháskóli Íslands: Já. Einstök tilfelli eru skoðuð hverju sinni og leitast við að mæta þörfum nemandans, en gæta þó jafnræðis. Í þessu sambandi ber að minna á staðbundið eðli listnáms.
     Háskólinn í Reykjavík:
    a.     Sveigjanleiki í námi er á ábyrgð deilda, og er útfærslan mjög mismunandi milli þeirra.
       b.      HR er ekki yfirlýstur fjarnámsskóli þó eru nokkrar námsleiðir í boði í fjarnámi auk þess sem HR kemur að námi víða um land, eins og hér er lýst.
                  i.      Undirbúningsnám fyrir háskólanám á Austurlandi hefst haustið 2021, í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Sveigjanlegt nám, blanda af hefðbundnu og stafrænu námi, með kennslu og aðstöðu í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.
                  ii.      Diplómanám í verslunarstjórnun í samvinnu við Háskólann á Bifröst.
                  iii.      Frá haustinu 2020 geta nemendur stundað BSc-nám í íþróttafræði við HR í blöndu af staðarnámi og fjarnámi í Vestmannaeyjum. Námið gefur íþróttafólki í Eyjum tækifæri til að stunda háskólanám samhliða æfingum og keppni.
    HR og HA eru í samstarfi um BSc-nám í tölvunarfræði. Nám í tölvunarfræði á Akureyri er sveigjanlegt nám, að hluta fjarnám og að hluta staðnám.

1     ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&kennsluar=2019&flaturlisti=0&namsstig=G#svid40
2     ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&kennsluar=2020&flaturlisti=0&namsstig=G#svid40
3     ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&kennsluar=2021&flaturlisti=0&namsstig=G#svid40