Ferill 871. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1847  —  871. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006, með síðari breytingum (listabókstafir og framlög til stjórnmálasamtaka).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum fellur brott.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:
    Frá 1. janúar 2022 er flokkum eða samtökum sem falla undir gildissvið laga þessara og skráð eru í fyrirtækjaskrá við gildistöku þeirra heimilt að breyta skráningu sinni í stjórnmálasamtök. Jafnframt skal þá skrá þau í stjórnmálasamtakaskrá og skila þeim gögnum sem mælt er fyrir um í 2. gr. g.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 5. gr. a er ekki skilyrði fyrir úthlutun á fé úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka skv. 1. og 2. mgr. 3. gr. eða frá sveitarstjórnum skv. 5. gr. vegna ársins 2021 að viðkomandi stjórnmálasamtök hafi uppfyllt skilyrði I. kafla C um skráningu stjórnmálasamtaka.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

5. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „38. gr.“ í 5. mgr. 32. gr. laganna kemur: 37. gr. a.
     b.      Á eftir VII. kafla laganna kemur nýr kafli, VII. kafli A, Listabókstafir stjórnmálasamtaka, með einni nýrri grein, 37. gr. a, svohljóðandi:
                      Ráðuneytið skal halda skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar. Skal skráin birt með auglýsingu eigi síðar en átta vikum fyrir hverjar almennar alþingiskosningar. Nú eru fyrirskipaðar kosningar með svo stuttum fyrirvara að þetta verður ekki gert og skal þá birta auglýsingu þessa innan þriggja sólarhringa eftir að kosningar eru fyrirskipaðar.
                      Hyggist stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf skv. 1. mgr. bjóða fram lista við alþingiskosningar skulu þau sækja um listabókstaf til ráðuneytisins eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út. Umsókn skal fylgja yfirlýsing a.m.k. 300 kjósenda þar sem mælt er með heiti samtakanna og listabókstaf. Yfirlýsingin skal dagsett og skal þar tilgreina nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. Söfnun meðmæla og umsókn um listabókstaf getur farið fram skriflega eða rafrænt. Þjóðskrá Íslands er heimilt, að beiðni ráðuneytisins, að samkeyra upplýsingar úr meðmælendalista við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og kanna hvort viðkomandi sé kosningarbær og að því loknu afhenda ráðuneytinu þær upplýsingar. Heiti nýrra stjórnmálasamtaka má ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skrá skv. 1. mgr. Ráðuneytið skal þegar tilkynna stjórnmálasamtökum, sem eru á skrá, um ný stjórnmálasamtök sem tilkynnt eru og um ósk þeirra um listabókstaf. Ákveður ráðuneytið bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum. Nú óska samtök sem skráð eru eftir því að breyta heiti sínu og skulu þau þá tilkynna það ráðuneytinu innan sama frests.
                      Breytingar á auglýsingu ráðuneytisins og viðauka við hana skal þegar birta með auglýsingu og tilkynna landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „2. gr. k laga um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006“ í 1. mgr. 43. gr. laganna kemur: 37. gr. a.

Greinargerð.

    Við þinglega meðferð frumvarps til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, á yfirstandandi löggjafarþingi (þskj. 1137, 668. mál) var ákvæði 38. gr. laga um kosningar til Alþingis um listabókstaf stjórnmálasamtaka fellt brott án þess að samsvarandi ákvæði í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka tækju gildi á sama tíma. Þetta ósamræmi kom ekki í ljós fyrr en eftir að lögin höfðu verið samþykkt á Alþingi.
    Við framlagningu fyrrnefnds frumvarps til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra og frumvarps til nýrra kosningalaga á Alþingi (þskj. 401, 339. mál) var gert ráð fyrir að frumvörpin tvö yrðu afgreidd samhliða og m.a. ætlunin að í stað þess að mæla fyrir um listabókstafi í kosningalögum væru slík ákvæði í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra sem eftir samþykkt fyrrnefnda frumvarpsins 13. júní 2021 heita lög um starfsemi stjórnmálasamtaka. Gildistöku nýrra kosningalaga var síðan, við þinglega meðferð, frestað fram yfir áramót en lög um starfsemi stjórnmálasamtaka áttu að taka gildi þegar í stað. Ákvæði um listabókstafi var að finna í 38. gr. laga um kosningar til Alþingis og höfðu nýlega verið gerðar breytingar á því ákvæði. Því var gildistöku hins nýja ákvæðis um listabókstafi í 2. gr. k í lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka frestað samkvæmt breytingartillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Samhliða þeim breytingum láðist að taka út ákvæði sama frumvarps um brottfall VIII. kafla í lögum um kosningar til Alþingis, „Listabókstafir stjórnmálasamtaka“. Því verður að óbreyttu ekkert ákvæði um listabókstafi í gildi frá gildistöku laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra til 1. janúar 2022. Eigi að síður er í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka að finna ákvæði til bráðabirgða II, sem kveður á um hvernig sækja skuli um listabókstaf fyrir komandi alþingiskosningar, en það ákvæði vísar í 2. gr. k laganna um listabókstaf sem tekur ekki gildi fyrr en 1. janúar 2022.
    Enn fremur er ósamræmi milli gildistöku nýrrar 5. gr. a í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka sem samþykkt voru 13. júní 2021, sem varðar opinberan stuðning við stjórnmálasamtök, og þeirra skilyrða sem vísað er til í greininni. Að óbreyttu tekur greinin þegar gildi en skilyrði sem vísað er til í ákvæðinu, um skráningu stjórnmálasamtaka, taka hins vegar ekki gildi fyrr en um áramót. Því er lagt til að setja inn ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér að þrátt fyrir núgildandi skilyrði fyrir úthlutun verði ekki gerð krafa um skráningu stjórnmálasamtaka vegna ársins 2021.
    Í frumvarpinu eru eftirfarandi lagfæringar því lagðar til. Í fyrsta lagi að ekki verði skilyrði fyrir úthlutun úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum vegna ársins 2021 að stjórnmálasamtök hafi áður verið skráð í stjórnmálasamtakaskrá. Í öðru lagi að fellt verði brott ákvæði til bráðabirgða II í lögunum, enda er í þriðja lagi lagt til að bætt verði við lög um kosningar til Alþingis ákvæði um listabókstafi sem er sambærilegt eldra ákvæði 38. gr. þeirra laga, ásamt þeim breytingum sem gerðar voru á ákvæðinu með lögum sem samþykkt voru á Alþingi 2. júní 2021, og áður hafði verið fellt brott úr lögunum. Í samræmi við þá breytingu er jafnframt lagt til að breytt verði tilvísun til ákvæðis um listabókstafi í 32. gr. og 43. gr. laga um kosningar til Alþingis. Loks er lögð til sú breyting að frestað verði gildistöku ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, eru í eðli sínu tímabundnar í ljósi þess að með gildistöku nýrra kosningalaga 1. janúar 2022 falla lög um kosningar til Alþingis úr gildi. Því er ekki nauðsynlegt að marka ákvæði 37. gr. a síðarnefndu laganna, sbr. b-lið 5. gr. frumvarps þessa, gildistíma fram að áramótum. Samkvæmt gildistökuákvæði kosningalaga fer um áformaðar alþingiskosningar haustið 2021, svo og um frestun og uppkosningar vegna þeirra, kosningakærur og úrskurð Alþingis um gildi kosninga, samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í b-lið 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að við lög um kosningar til Alþingis verði bætt ákvæði um listabókstaf stjórnmálasamtaka, sem áður hafði verið fellt brott úr lögunum. Í því ákvæði er m.a. kveðið á um hvernig fara skuli með umsóknir stjórnmálasamtaka sem ekki hafa skráðan listabókstaf á skrá ráðuneytisins og er því ekki þörf á að hafa í gildi á sama tíma ákvæði til bráðabirgða II eins og það var samþykkt á Alþingi 13. júní 2021. Er því lagt til að ákvæði til bráðabirgða II í lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka falli brott.

Um 2. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða III sem frestar gildistöku ákvæðisins til 1. janúar 2022. Í ákvæðinu er kveðið á um heimild flokka eða samtaka sem skráð eru í fyrirtækjaskrá til að breyta skráningu sinni í stjórnmálasamtök með skráningu í stjórnmálasamtakaskrá. Ákvæði laganna um skráningu stjórnmálasamtaka taka á hinn bóginn ekki gildi fyrr en 1. janúar 2022, þar á meðal 2. gr. g sem vísað er til í ákvæði til bráðabirgða III. Með breytingunni er þetta ósamræmi lagfært.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér að þrátt fyrir núgildandi skilyrði fyrir úthlutun á fé úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum verði ekki gerð krafa um að stjórnmálasamtök séu skráð í stjórnmálasamtakaskrá vegna ársins 2021. Er það í samræmi við athugasemdir í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra um að veita Skattinum nauðsynlegt svigrúm til að undirbúa framkvæmd skráningarinnar. Stjórnmálasamtök þurfa þó að uppfylla upplýsingaskyldu sína við ríkisendurskoðanda skv. 8. og 9. gr. laganna og að ríkisendurskoðandi hafi birt ársreikning þeirra.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að kafla um listabókstaf stjórnmálasamtaka í lögum um kosningar til Alþingis, sambærilegum þeim sem felldur var brott með b-lið 1. tölul. 15. gr. laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, sem samþykkt voru á Alþingi 13. júní 2021, verði bætt við lög um kosningar til Alþingis. Af gildistökuákvæði nýrra kosningalaga leiðir að ákvæði um listabókstaf stjórnmálasamtaka í lögum um kosningar til Alþingis fellur úr gildi 1. janúar 2022 en á sama tíma tekur gildi 2. gr. k laga um starfsemi stjórnmálasamtaka. Með þessari breytingu er gert ráð fyrir að sambærilegt ákvæði og var áður í lögum um kosningar til Alþingis um listabókstafi gildi fyrir komandi alþingiskosningar 2021, þar á meðal nýsamþykktar breytingar á því ákvæði um rafræn meðmæli, en að sams konar ákvæði í lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka gildi frá og með 1. janúar 2022.
    Í greininni er jafnframt lagt til að tilvísun til ákvæðis um listabókstafi í 5. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 43. gr. laga um kosningar til Alþingis verði lagfærð til samræmis við framangreindar breytingar sem lagðar eru til í b-lið 5. gr.