Ferill 741. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1921  —  741. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um einelti innan lögreglunnar.


     1.      Hvað hefur dómsmálaráðuneytið gert til að draga úr einelti og tryggja hag, styðja við, vernda og byggja upp þolendur í eineltismálum innan lögreglunnar?
    Mál sem varða einelti og hvers konar aðra ótilhlýðilega háttsemi á að taka alvarlega. Þeim þarf að bregðast við með afdráttarlausum hætti og leiða til lykta. Hafa verður í huga að þessi mál eru viðkvæm og krefjast þess að þolendum sé sýnt fyllsta tillit og nærgætni.
    Dómsmálaráðuneytið leggur áherslu á að mál sem varða einelti fari í skýran farveg og fái viðeigandi meðferð. Það skiptir máli að umgjörð þessara mála sé fastmótuð og að til staðar séu viðeigandi reglur og verkferlar. Um málsmeðferð tilkynninga sem varða einelti fer eftir reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þá er farið eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna þar sem það á við.
    Um mitt ár 2014 stofnaði ríkislögreglustjóri fagráð lögreglu sem hefur það hlutverk að taka til umfjöllunar mál sem varða beina og óbeina mismunun, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti. Hlutverk fagráðsins er að taka við, meta, koma í viðeigandi farveg og fylgja eftir tilkynningum sem ráðinu berast og tryggja að þær fái viðeigandi málsmeðferð samkvæmt verklagsreglum fagráðsins og landslögum.
    Dómsmálaráðuneytið, í samstarfi við ríkislögreglustjóra og lögregluembætti landsins, ber ábyrgð á verkefni innan framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum 2020–2023 þar sem meðal annars á að gera rannsókn til þess að kanna þróun vinnumenningar innan lögreglu og setja fram tillögur að úrbótum.

     2.      Hvaða stuðning fá starfsmenn lögreglu sem tilkynna einelti og tengd mál og hvert er verklag við eftirfylgni mála?
    Í gildi eru leiðbeinandi verklagsreglur um einelti frá 1. apríl 2015. Í reglunum er myndræn útskýring á því hvert hægt er að tilkynna einelti, hvort sem það er einstaklingur sem verður fyrir einelti eða aðrir sem hafa vitneskju um slíkt.
    Í verklagsreglunum er meðal annars vísað á fagráð ríkislögreglustjóra sem taki við tilkynningum sem ráðinu berast frá starfsmönnum lögreglu eða embættum og tryggir að þær fái viðhlítandi málsmeðferð. Rétt er að taka sérstaklega fram að starfsmenn lögreglu geta leitað beint til fagráðsins með fyrirspurnir eða tilkynningar án þess að tilkynna það öðrum, svo sem yfirmanni, mannauðsstjóra, jafnréttisfulltrúa, trúnaðarmanni eða öðrum þar til bærum aðila sem hefur það hlutverk að koma tilkynningum í farveg.
    Komi tilkynningar eða fyrirspurnir til fagráðs ríkislögreglustjóra er unnið eftir verklagsreglum embættis ríkislögreglustjóra um fagráð ríkislögreglustjóra.
    Þá stendur öllum starfsmönnum lögreglu til boða að sækja sér sálfræðiþjónustu í allt að tíu skipti á ári sér að kostnaðarlausu. Starfsmenn geta sótt þjónustu til löggildra heilbrigðisstarfsmanna, svo sem sálfræðinga, geðlækna, félagsráðgjafa og geðhjúkrunarfræðinga. Starfsmenn eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu telji þeir sig þurfa á aðstoð að halda.

     3.      Hvað hafa mörg eineltismál verið tilkynnt eða upplýst og hversu hátt hlutfall þeirra mála hefur komið til fagráðs ríkislögreglustjóra til umsagnar?
    Svör við 3.–8. tölul. fyrirspurnarinnar eru miðuð við tímabilið frá ársbyrjun 2014 og til ársloka 2020, en fagráð ríkislögreglustjóra var stofnað árið 2014. Upplýsingar miðast annars vegar við tilkynnt eða upplýst eineltismál hjá lögregluembættum og hins vegar við tilkynningar til fagráðs ríkislögreglustjóra.

Lögregluembætti Fjöldi
Ríkislögreglustjóri 2
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu 2
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum Ekki fyrirliggjandi tölfræði
Lögreglustjórinn á Vesturlandi 1
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum 0
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra 1
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra 2
Lögreglustjórinn á Austurlandi 2
Lögreglustjórinn á Suðurlandi 1
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum 0

    Á árunum 2014–2020 bárust 24 erindi til fagráðsins. Sautján þeirra vörðuðu einelti en sjö þeirra vörðuðu kynferðislega og/eða kynbundna áreitni.

     4.      Hve margir meintir gerendur hafa rannsakað mál gegn þolendum, eftir embættum?
    Ekki var um slík tilvik að ræða samkvæmt upplýsingum frá lögregluembættum og fagráði ríkislögreglustjóra var ekki kunnugt um slík tilvik.

     5.      Hve mörgum hefur verið sagt upp störfum eftir að hafa tilkynnt einelti eða brot á almennum siðareglum og hversu hátt hlutfall þeirra mála voru tilkynnt til fagráðs ríkislögreglustjóra?
    Ekki var um slík tilvik að ræða samkvæmt upplýsingum frá lögregluembættum og fagráði ríkislögreglustjóra var ekki kunnugt um slík tilvik.

     6.      Hvert er hlutfall karla og kvenna sem hafa hætt eða verið sagt upp störfum eftir að hafa tilkynnt einelti og önnur samskiptavandamál til dómsmálaráðuneytisins, fagráðs ríkislögreglustjóra eða yfirmanna?

Lögregluembætti Fjöldi
Ríkislögreglustjóri 0
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu 1, karlkyns
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum 2, karlkyns
Lögreglustjórinn á Vesturlandi 0
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum 0
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra 0
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra 0
Lögreglustjórinn á Austurlandi 0
Lögreglustjórinn á Suðurlandi 0
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum 0

    Fagráði ríkislögreglustjóra var ekki kunnugt um slík tilvik.

     7.      Hefur verið lagt mat á faglegt tjón vegna tilvika skv. 5. og 6. lið, þ.e. vinnu- og þekkingartap?
    Slíkt mat hefur ekki farið fram.

     8.      Hvað hafa margir gerendur verið látnir sæta ábyrgð fyrir einelti innan lögreglunnar, og hvernig, og hve mörgum gerendum hefur verið sagt upp störfum, eftir embættum?
    Ekki var um slík tilvik að ræða samkvæmt upplýsingum frá lögregluembættum og fagráði ríkislögreglustjóra var ekki kunnugt um slík tilvik.