Ferill 896. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1924  —  896. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um umsækjendur um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.


     1.      Hversu margir umsækjendur hafa fengið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi eftir að hafa áður fengið samþykki fyrir slíku í öðru Evrópuríki á árunum 2016–2021?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun fengu 1.595 umsækjendur vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi á árunum 2016–2021 (til og með 15. ágúst). Samkvæmt skráningum í upplýsingakerfi Útlendingastofnunar höfðu 374 þessara einstaklinga þegar fengið vernd eða viðbótarvernd í öðru Evrópuríki. Inni í þessum tölum eru ekki einstaklingar sem höfðu áður fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum í öðru Evrópuríki. Slík tilvik eru ekki skráð með sama hætti og ekki hægt að greina þau frá málum einstaklinga sem höfðu fengið dvalarleyfi á öðrum grundvelli.

     2.      Hversu oft hefur Dyflinnarreglugerðinni verið beitt á árunum 2016–2021 og hversu oft hefur henni ekki verið beitt þegar það hefði verið heimilt?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun voru teknar 850 ákvarðanir um endursendingu umsækjenda um vernd til annarra Evrópuríkja á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar á árunum 2016–2021 (til og með 15. ágúst). Af þeim voru 233 ákvarðanir teknar til efnislegrar meðferðar á síðari stigum, ýmist í kjölfar afturköllunar, úrskurðar kærunefndar útlendingamála eða vegna þess að ekki tókst að ljúka afgreiðslu þeirra innan þeirra tímamarka sem lög nr. 80/2016, um útlendinga, og reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga kveða á um.
    Í upplýsingakerfi Útlendingastofnunar eru skráð 54 tilvik á árunum 2016–2021 (til og með 15. ágúst) þar sem íslensk stjórnvöld tóku ábyrgð á meðferð umsóknar um vernd þar sem hægt hefði verið að óska eftir endurviðtöku umsækjandans til annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Slík tilvik eru þó vafalítið fleiri en þau voru ekki skráð í upplýsingakerfi stofnunarinnar með reglubundnum hætti fyrr en tiltölulega nýlega. Þannig hefur Dyflinnarreglugerðinni ekki verið beitt frá árinu 2010 í þeim tilvikum þar sem hægt hefði verið að óska eftir endurviðtöku grískra yfirvalda og frá árinu 2015 í málum frá Ungverjalandi. Ekki eru til tölulegar upplýsingar um fjölda slíkra mála.