Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal
67  —  67. mál.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (fjárhæð bóta).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson,
Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon,
Tómas A. Tómasson.

1. gr.

    69. gr. laganna orðast svo:
    Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við launavísitölu, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

    2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 150. (135. mál) og 151. (89. mál) löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Á 150. löggjafarþingi bárust þrjár umsagnir um málið, frá Alþýðusambandi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands. Á 151. löggjafarþingi barst umsögn frá Öryrkjabandalagi Íslands. Umsagnaraðilar lýstu allir yfir ánægju með frumvarpið.
    Samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, skulu fjárhæðir bóta almannatrygginga, meðlagsgreiðslur skv. 63. gr. laganna og fjárhæð tekjutryggingar skv. 22. gr., breytast árlega í samræmi við fjárlög og skal ákvörðun þeirra taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Mögulega hefur verið stefnt að því í upphafi að tryggja að öryrkjar og ellilífeyrisþegar njóti hækkunar á ráðstöfunartekjum í sama hlutfalli og almenningur. Í reynd hefur framkvæmdin þó verið önnur og virðist meginreglan vera sú að vísitölu neysluverðs er fylgt við ákvörðun bóta þó að hún hækki mun minna en launavísitölur. Þar sem Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið skv. 41. gr. stjórnarskrárinnar og núverandi löggjöf felur Alþingi að ákvarða hækkanir bóta hafa dómstólar talið það falla utan hlutverks síns að dæma um hvort rétt hafi verið staðið að hækkun bóta skv. 69. gr. laga um almannatryggingar. Því er hér lagt til að hækkun bóta fylgi ávallt launaþróun eins og hún kemur fram í launavísitölu Hagstofu. Tenging bótafjárhæða við vísitölur þekkist í öðrum lögum, t.d. breytast fjárhæðir skaðabóta mánaðarlega í samræmi við lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Í frumvarpinu er lagt til að fjárhæðir bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar taki mið af þróun launavísitölu. Verður að telja það fyrirkomulag sanngjarnt þar sem bætur greiddar á grundvelli laganna eiga almennt að koma í stað atvinnutekna sem öryrki getur ekki aflað sér eða ellilífeyrisþegi nýtur eigi lengur. Þá nýtur ríkissjóður aukinna tekna þegar laun hækka þar sem stofn tekjuskatts hækkar. Því er ákveðið samræmi á milli aukinna útgjalda ríkissjóðs og aukinna tekna. Þá er lagt til að bætur hækki þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þannig er tryggt að bætur lækki ekki skyndilega ef launaþróun er neikvæð.