Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 84  —  84. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum (framlög til sjálfstætt rekinna grunnskóla).

Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Sigmar Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, María Rut Kristinsdóttir.


1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 43. gr. b laganna:
a. Í stað hlutfallstölunnar „75%“ í 2. málsl. kemur: 90%.
b. Í stað hlutfallstölunnar „70%“ í 3. málsl. kemur: 85%.

2. gr.

Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2022.

Greinargerð.

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi (485. mál) og 150. löggjafarþingi (16. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Málið er því endurflutt nú á 152. löggjafarþingi.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, um lögbundin fjárframlög úr sveitarsjóði með það að markmiði að jafna stöðu foreldra óháð því hvort þeir sendi börn sín í sjálfstætt rekinn grunnskóla eða grunnskóla sem er rekinn af sveitarfélagi.
    Samkvæmt gildandi lögum, sbr. 1. mgr. 43. gr. b grunnskólalaga, nr. 91/2008, er framkvæmdin varðandi umrædd framlög þannig að sjálfstætt rekinn grunnskóli sem gert hefur þjónustusamning skv. 43. gr. a laganna á rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Samkvæmt ákvæðinu skal framlagið nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Í lokamálslið 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að framangreint hlutfall gildi fyrir skóla með allt að 200 nemendur en að framlagið skuli vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.
    Að mati flutningsmanna er gildandi ákvæði 43. gr. b síst til þess fallið að létta greiðslubyrði foreldra og þannig stuðla að því að val þeirra á skólum fyrir börn sín grundvallist á faglegum forsendum en ekki kostnaði. Að sama skapi hafa slíkar takmarkanir hamlandi áhrif á framþróun annarra skólastofnana en þeirra sem eingöngu og alfarið eru reknar af sveitarfélögum. Telja flutningsmenn að slíkar opinberar hömlur á starfsemi skóla skerði til muna umbreytingar í skólakerfi og raski jafnræði aðila til að sinna mismunandi þörfum nemenda.
    Óumdeilt er að þeim mun lægri sem framlög eru með hverjum nemanda þeim mun meiri kostnaður fellur á foreldra og þar af leiðandi verður sá kostnaður ríkari áhrifaþáttur við val á skóla en aðrir þættir sem slíkt val ætti með réttu að grundvallast á, svo sem hvaða úrræði henti þörfum barna hverju sinni. Hærri framlög með nemendum eru einnig í samræmi við þá skoðun flutningsmanna að fé fylgi nemanda óháð eignarhaldi viðkomandi skóla, þ.e. því hvort skóli er rekinn sjálfstætt eða af hinu opinbera. Það er því skoðun flutningsmanna að núverandi 75% lágmark, sbr. 1. mgr. 43. gr. b, feli í sér mismunun gagnvart foreldrum sem velja sjálfstætt rekna skóla fyrir börn sín enda munu þeir greiða umtalsverð skólagjöld ólíkt þeim foreldrum sem senda börn sín í opinbera grunnskóla. Í ljósi þessa er það mat flutningsmanna að hækka þurfi framlög til sjálfstætt starfandi grunnskóla til að koma í veg fyrir að skólagjöld falli á foreldra. Í þeim tilvikum þegar foreldrum er gert að greiða slík gjöld verði þau hófstillt þannig að val á grunnskólanámi hverju sinni verði óháð efnahag foreldra að sem mestu leyti.
    Flutningsmenn benda á að bæði í innlendri löggjöf sem og alþjóðasamningum er kveðið á um rétt barna til náms og frelsi foreldra til að velja skóla fyrir börn sín, aðra en þá sem stofnaðir eru af opinberum stjórnvöldum. Má í því samhengi m.a. vísa til 2. mgr. 3. gr. grunnskólalaga sem kveður á um skyldu foreldra að gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri sem og ábyrgð foreldra skv. 1. mgr. 19. gr. laganna á námi barna sinna. Skylda þessi í grunnskólalögum er samofin foreldraskyldum og forsjá barns eins og þær skyldur eru settar fram í barnalögum, nr. 76/2003. Í 28. gr. barnalaga er kveðið á um inntak forsjár en í 2. mgr. ákvæðisins segir að foreldrum beri að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að foreldrum beri að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Einnig beri foreldrum að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál. Þá ber í þessu samhengi einnig að vekja athygli á 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Í 3. mgr. sama ákvæðis segir að tryggja skuli börnum í lögum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist.
    Af ákvæðum alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og varða réttindi barna og menntun má m.a. nefna 2. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 28. og 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og 13. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Í þessu samhengi er rétt að ítreka sérstaklega ákvæði 3. mgr. 13. gr. síðastnefnds samnings þar sem segir: „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, þegar við á, lögráðamanna til þess að velja skóla fyrir börn sín, aðra en þá sem stofnaðir eru af opinberum stjórnvöldum, sem hafa sambærileg lágmarksmenntunarskilyrði og þau sem sett eru eða samþykkt kunna að vera af ríkinu og að ábyrgjast trúarlega og siðferðilega menntun barna þeirra í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.“
    Af framangreindu má því ráða að íslenska ríkinu beri skylda til að víkja til hliðar þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir frelsi foreldra er viðkemur vali þeirra á menntun og fræðslu sem þeim finnst við hæfi með þarfir barnsins að leiðarljósi óháð rekstrarformi skóla, efnahag eða öðrum atvikum. Núverandi lagaumhverfi er ekki til þess fallið að stuðla að slíku frjálsu vali óháð efnahag og öðrum atvikum á meðan mikill greinarmunur er gerður á framlagi eftir rekstrarformi grunnskóla, þ.e. eftir því hvort um er að ræða sjálfstætt rekinn grunnskóla eða opinberan.
    Leggja flutningsmenn frumvarpsins til að hlutfallstala sú sem mælt er fyrir um í 2. málsl. 1. mgr. 43. gr. b grunnskólalaga og varðar lágmarksframlag sveitarfélags til einkarekins grunnskóla hækki úr 75% í 90%. Flutningsmenn telja rétt að viðhalda þeirri reglu að fjárframlög á nemanda lækki séu nemendur viðkomandi skóla fleiri en 200, sbr. lokamálslið 1. mgr. 43. gr. b, og leggja til að lágmarksframlag á nemanda umfram 200 nemendur í skóla hækki úr 70% í 85% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar grunnskóla í landinu sem reknir eru af sveitarfélögum. Er þar höfð hliðsjón af stjórnarskrárvörðum rétti sveitarfélaga til að ráða málefnum sínum sjálf, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, sem og fjárstjórnarvaldi sveitarfélaga.
    Hafa verður í huga að um er að ræða lögbundin framlög sveitarfélaga með börnum sem lögheimili hafa í viðkomandi sveitarfélagi og þeim ber skylda til að bjóða upp á námsúrræði fyrir. Þar af leiðandi er um að ræða börn sem sveitarfélögum ber að tryggja skólavist og standa straum af kostnaði við hana.
    Frumvarpi þessu er ætlað að styrkja fjölbreytni í skólakerfinu, þar á meðal starfsemi sjálfstætt starfandi skóla, með því að tryggja að sanngjörn framlög fylgi börnum óháð vali foreldra á skóla.