Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 89  —  89. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um eflingu kornræktar.


Flm.: Kári Gautason, Ásmundur Friðriksson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Birgir Þórarinsson, Bjarni Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögur til þess að efla kornframleiðslu á Íslandi. Í starfshópnum eigi sæti tveir fulltrúar frá Landbúnaðarháskóla Íslands sem hafi sérfræðiþekkingu á jarð- og kornrækt, einn frá Bændasamtökum Íslands, einn frá Samtökum iðnaðarins og einn frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi formann hópsins. Tillögurnar skulu liggja fyrir við upphaf endurskoðunar gildandi búvörusamninga, fyrir árslok 2022.

Greinargerð.

    Í skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi, sem unnin var fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árið 2021, kemur fram að fæðuöryggi er hvað minnst þegar kemur að kornvörum, hvort sem er til manneldis eða til fóðrunar búfjár. Þó að hnattlega Íslands setji kornframleiðslu ákveðnar skorður eru aðstæður til landbúnaðar á Íslandi mun hagfelldari en ætla má af opinberri umræðu, vaxtartími er langur og framleiðni mikil vegna langrar ljóslotu. Íslenskur jarðvegur er afar frjósamur þótt hann sé einnig viðkvæmur og rofgjarn. Auk þess eru mikil tækifæri til að bæta ræktunarmöguleika með nútímalegum plöntukynbótum, með landbótum, t.d. skjólbeltarækt, og með bættum ræktunaraðferðum. Fyrirsjáanlegt er að hluti aðlögunar mannkyns að loftslagsbreytingum felst í að færa ræktun norðar til að metta síaukinn mannfjölda jarðar.
    Mikilvægt starf hefur verið unnið í að útbúa aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til að draga úr losun, en enn þá er mikið verk óunnið við að undirbúa aðlögun að hlýnandi heimi. Þessi tillaga er sértækur liður í því verkefni.
    Fram hafa komið margar hugmyndir um hvað þurfi til að kornrækt geti orðið að mikilvægri búgrein á Íslandi. Nefnt hefur verið að skapa þurfi efnahagslegan möguleika á úrvinnsluiðnaði og kornsamlagi að norrænni fyrirmynd, jafnvel með beitingu skattalegra hvata, að koma þurfi upp afkomutryggingu fyrir þá sem stunda kornrækt og að styðja þurfi kröftuglega við rannsóknar- og kynbótastarf. Skógfræðingar og búvísindamenn hafa bent á mikla möguleika til að bæta kornræktarskilyrði með aukinni skjólbelta- og skjólskógarækt. Þá hefur verið talað um framleiðslu á ammoníaki til orkugeymslu og útflutnings úr því umframafli sem til staðar er í íslensku raforkukerfi og að þannig sé jafnvel hægt að framleiða áburð sem til þarf í aukna kornframleiðslu með umhverfisvænum hætti hérlendis. Það er þekkt staðreynd úr búvísindum að fjárfesting hins opinbera í kynbótastarfi í landbúnaði er ein öruggasta fjárfesting sem völ er á. Þannig er líklegt að með tíð og tíma muni framlag hins opinbera til kynbóta í kornrækt borga sig margfalt til baka. Rétt eins og framsýn stjórnvöld um miðja síðustu öld komu að því að styðja kynbætur á íslensku búfé, styðja við rannsóknir í skógrækt og með því að kaupa framleiðslutæki fyrir sjávarútveg geta núverandi stjórnvöld með framsýni skilað ágóða áratugum saman.
    Núgildandi búvörusamninga skal endurskoða á árinu 2023 og þeir renna sitt skeið árið 2026. Til þess að hægt sé að nýta tillögur hópsins við endurskoðun gildandi búvörusamninga og jafnframt við undirbúning nýrra búvörusamninga er mikilvægt að hópnum verði falið að skila tillögum eigi síðar en 1. janúar 2023.