Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 282  —  164. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjárhagslegar viðmiðanir og lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta (vísitölur á fjármálamarkaði og upplýsingagjöf til fjárfesta).

(Eftir 2. umræðu, 28. desember.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um fjárhagslegar viðmiðanir, nr. 7/2021.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og aðlögunum samkvæmt bókun 1 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr.  lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest, og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr.  190/2019 frá 10. júlí 2019, hafa lagagildi hér á landi“ í 1. mgr. kemur: og 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/168 frá 10. febrúar 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) 2016/1011 að því er varðar undanþágu fyrir tilteknar viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla þriðju landa og tilnefningu viðmiðana í stað viðmiðana sem verður hætt með, og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012, og aðlögunum samkvæmt bókun 1 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest, og ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2019 frá 10. júlí 2019 og nr. 388/2021 frá 10. desember 2021, hafa lagagildi hér á landi.
     b.      Á eftir 2. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Reglugerð (ESB) 2021/168 er birt í C-deild Stjórnartíðinda.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 388/2021 er birt í C-deild Stjórnartíðinda.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir c-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: 3. mgr. 18. gr. a um lista yfir viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla sem falla ekki undir reglugerðina.
     b.      Á eftir h-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: 8. mgr. 23. gr. b um tilnefningu viðmiðana í stað annarra viðmiðana.
     c.      Á eftir m-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: 7. mgr. 54. gr. um framlengingu umbreytingartímabils vegna viðmiðana þriðju ríkja.

3. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Höfuðstólsfærsla vaxta samkvæmt vaxtaviðmiðun.

    Þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, má bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti ef þess er þörf til að endurspegla virka vexti vaxtaviðmiðunar.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að veita reglugerðum, sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 8. mgr. 23. gr. b reglugerðar (ESB) 2016/1011 með breytingum skv. 1. gr. um tilnefningu viðmiðana í stað annarra viðmiðana, gildi hér á landi með reglugerð með vísan til birtingar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku, enda hafi íslensk útgáfa þeirra ekki verið birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.

II. KAFLI

Breyting á lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, nr. 55/2021.

5. gr.

    Í stað ártalsins „2021“ í 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: 2022.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.