Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 298  —  209. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um gerð skoðanakönnunar um afstöðu til dánaraðstoðar meðal heilbrigðisstarfsfólks.


Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Helga Vala Helgadóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta gera skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsfólks um afstöðu þess til dánaraðstoðar. Markmiðið með gerð skoðanakönnunarinnar verði að fá sem gleggsta mynd af afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til álitaefnisins sem frekar hefur komið til opinberrar umræðu eftir að skýrsla heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð var lögð fyrir Alþingi í september 2020. Skoðanakönnuninni er ætlað að kanna á hlutlausan og vandaðan hátt hvort og þá hvernig afstaða heilbrigðisstarfsfólks hefur breyst svo að unnt sé að vinna málið áfram. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður skoðanakönnunarinnar á haustþingi 2022.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var lögð fram á 151. löggjafarþingi (529. mál) og er nú lögð fram að nýju.
    Eins og fram kemur í skýrslu heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð, sem lögð var fram á Alþingi í september 2020, er dánaraðstoð yfirhugtak ýmissa athafna eða athafnaleysis sem hægt er að beina að sjúklingi í þeim tilgangi að binda enda á líf hans. Dánaraðstoð getur verið veitt með margvíslegum hætti sem skipta má í fjögur meginundirhugtök. Þau eru eftirfarandi, raðað eftir því hversu mikið inngrip þau teljast vera í líf sjúklings, það vægasta fyrst: Líknarmeðferð, óbein dánaraðstoð, læknisaðstoð við sjálfsvíg og loks bein dánaraðstoð. Nánari skilgreiningar á undirhugtökunum er að finna í skýrslu heilbrigðisráðherra en við framkvæmd skoðanakönnunarinnar er nauðsynlegt að spyrja almennt um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar en um leið kanna hug þeirra til hvers undirhugtaks.
    Í skoðanakönnun sem Bresku læknasamtökin (BMA) létu framkvæma í febrúar 2020 kemur fram að meiri hluti breskra lækna vill að BMA láti af andstöðu sinni við dánaraðstoð. Niðurstöður skoðanakönnunarinnar voru mismunandi eftir eðli spurninga og þess hversu mikilli þátttöku heilbrigðisstarfsfólks gert var ráð fyrir í ferlinu. Athygli vekur að læknanemar voru jákvæðari í afstöðu sinni til dánaraðstoðar en læknar sem höfðu starfað lengi. Þetta kann að vera vísbending um kynslóðabil í afstöðu til álitaefnisins. Helmingur þeirra sem tóku afstöðu, eða 50%, styður hins vegar að læknum verði heimilt að framvísa lyfjum til sjúklinga sem vilja nota þau sjálfir til að binda enda á líf sitt en 33% eru því andvíg. Samtals 27% eru hlutlaus í afstöðu sinni eða óákveðin. Þegar spurt var hvort læknar myndu sjálfir vilja taka þátt í dánaraðstoðarferlinu með beinum hætti svöruðu 36% játandi, 45% neitandi en 19% voru óákveðin.
    Í skýrslu heilbrigðisráðherra og greinargerð með skýrslubeiðninni kemur fram að viðhorfskannanir hafi verið gerðar hér á landi á afstöðu lækna og hjúkrunarfræðinga til siðfræðilegra álitamála um takmörkun meðferðar við lífslok og birtust niðurstöður einnar slíkrar könnunar í Læknablaðinu 1997. Í umræddri viðhorfskönnun var ein af spurningunum um dánaraðstoð eða líknardráp eins og það var kallað á þeim tíma en sú orðanotkun heyrir sögunni til. Aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga töldu líknardráp, nú dánaraðstoð, réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum en einungis 2% svarenda gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk. Í greinargerð með skýrslubeiðni til ráðherra kemur hins vegar fram að árið 2010 þegar sambærileg könnun var gerð á meðal lækna og hjúkrunarfræðinga var niðurstaðan sú að líknardráp, nú dánaraðstoð, þótti réttlætanlegt hjá 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga en aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk.
    Nú er rúmur áratugur liðinn frá því að síðast var gerð könnun á viðhorfi heilbrigðisstarfsfólks og í millitíðinni hefur dánaraðstoð verið meira til umræðu opinberlega og í fjölmiðlum og því hefur þekking á viðfangsefninu aukist. Til að mynda voru stofnuð samtökin Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð, og hafa þau miðlað fræðsluefni um dánaraðstoð á samfélagsmiðlum og meðal annars birt reynslusögur almennings. Þá hafa þau haldið fræðslu- og málefnafundi um dánaraðstoð.
    Sé litið til annarra Norðurlanda má greina af rannsóknum þar og fréttaflutningi að afstaða heilbrigðisstarfsfólks, lækna og hjúkrunarfræðinga, hafi færst sífellt meira í átt til frjálslyndis á síðustu 10 árum þegar kemur að dánaraðstoð. Þannig voru 30% norskra lækna hlynntir dánaraðstoð árið 2019 en aðeins 15% árið 2009. Stuðningurinn hafði því aukist um helming á áratug. Í Finnlandi voru 46% lækna hlynntir dánaraðstoð en stuðningur við slíka aðstoð var 29% í þeirra hópi árið 2002. Árið 2013 voru 33% sænskra lækna hlynntir dánaraðstoð. Í Noregi voru 40% hjúkrunarfræðinga hlynntir dánaraðstoð árið 2019 en 25% tíu árum áður. Árið 2016 voru 74% finnskra hjúkrunarfræðinga hlynntir dánaraðstoð. Þessar niðurstöður benda til þess að stuðningur heilbrigðisstarfsfólks við dánaraðstoð sé að aukast með árunum og því er brýnt að fylgjast einnig náið með þróun á afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar hér á landi.
    Í skýrslu heilbrigðisráðherra er ekki lagst gegn því að gerð verði viðhorfskönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar en tekið fram að hugsanlega þyrfti einnig að kanna viðhorf almennings. Æskilegt væri að heilbrigðisráðuneytið og embætti landlæknis framkvæmdu könnunina í samstarfi við Læknafélagið og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.
    Flutningsmenn taka undir það með ráðherra að æskilegt sé að kanna afstöðu almennings á nýjan leik eftir að niðurstaða viðhorfskönnunar meðal heilbrigðisstarfsfólks liggur fyrir. Benda flutningsmenn á að tvær óháðar kannanir sem framkvæmdar voru af Maskínu sýna að stuðningur við dánaraðstoð er nú þegar mikill meðal almennings. Könnun Maskínu, sem unnin var fyrir Siðmennt árið 2015, leiðir í ljós að þrír af hverjum fjórum eru hlynntir því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi. Seinni könnunin sem var framkvæmd árið 2019 fyrir Lífsvirðingu, félag um dánaraðstoð, sýnir að afstaða svarenda gagnvart álitaefninu virðist almennt verða jákvæðari með árunum en þá sögðust 78% styðja dánaraðstoð.