Ferill 155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 299  —  155. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigmari Guðmundssyni um líftækniiðnað í tengslum við blóðmerahald.


     1.      Telur ráðherra líftækniiðnað í tengslum við blóðmerahald geta samræmst sjónarmiðum um dýravelferð?
    Ráðherra hefur sett á fót starfshóp sem hefur það hlutverk að fjalla um blóðtöku úr fylfullum hryssum. Fulltrúi ráðherra leiðir hópinn en auk þess sitja í honum fulltrúar Matvælastofnunar og Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Starfshópurinn hefur hafið störf og mun skila tillögum til ráðherra fyrir 1. júní nk. Hópnum er ætlað að skoða starfsemi við blóðmerahald, regluverkið og eftirlitið í kringum hana, þ.m.t. núverandi fyrirkomulag þess, sbr. 3. tölul. fyrirspurnarinnar. Ráðherra hefur falið hópnum að funda með hagaðilum auk þess sem almenningi mun gefast kostur á að tjá sig um tillögur hópsins á samráðsgátt stjórnvalda þegar þær liggja fyrir. Verkefni starfshópsins er aðskilið rannsókn Matvælastofnunar, en stofnunin rannsakar nú meint alvarleg brot á velferð blóðtökuhryssa, sbr. tilkynningar stofnunarinnar þess efnis 22. nóvember og 2. desember sl.

     2.      Styður ráðherra að framangreindri starfsemi sé haldið áfram á Íslandi?
    Ráðherra telur þýðingarmikið að framangreindum starfshópi sé gefið svigrúm til að fjalla um málið með heildstæðum hætti.

     3.      Hefur Matvælastofnun næga burði til að sinna eftirliti með starfseminni? Ef svo er ekki, hvernig hyggst ráðherra styðja stofnunina svo að hún geti sinnt eftirlitinu nægilega vel?
    Matvælastofnun fer með opinbert eftirlit með blóðmerahaldi. Eftirlitið er áhættumiðað og er tvíþætt, annars vegar hefur stofnunin eftirlit með sjálfri blóðtökunni og hins vegar með fóðrun og umhirðu hryssanna að vetrarlagi. Matvælastofnun hefur gefið út og birt opinberlega leiðbeiningar um skilyrði blóðtöku úr fylfullum hryssum. Þar eru sett fjölþætt skilyrði um hvernig haga ber starfseminni, m.a. um skráningar starfsstöðva þar sem blóðtakan fer fram, atriði sem þarf að gæta að við blóðtökuna sjálfa, kröfur um virkt innra eftirlit og skýrslugjöf til Matvælastofnunar. Vegna eðlis starfseminnar er eftirlitið tíðara en almennt eftirlit með hrossahaldi. Starfsemin er ekki háð starfsleyfi frá Matvælastofnun en þarf vitaskuld að fylgja þeim ákvæðum sem fram koma í lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, reglugerð nr. 910/2014, um velferð hrossa, og leiðbeiningum Matvælastofnunar um skilyrði fyrir blóðtöku úr fylfullum hryssum.

     4.      Hyggst ráðherra breyta lagaumgjörð um framangreinda starfsemi?
    Ráðherra hyggst bíða tillagna fyrrnefnds starfshóps áður en ákvörðun verður tekin um mögulega framlagningu frumvarps til breytingar á lögum.