Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 301  —  108. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um fjölda innlagna á Landspítala vegna valaðgerða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margir einstaklingar lögðust inn á Landspítala árið 2019 og 2020 og það sem af er ári 2021 vegna valaðgerða á einkareknum stofum:
     a.      vegna mjaðmaaðgerða,
     b.      vegna hnéaðgerða,
     c.      vegna aðgerða á öxl,
     d.      vegna annarra tiltekinna valaðgerða?


    Vísað er í svar við sambærilegri fyrirspurn sem fór til sama þingmanns fyrir rúmu ári (þingskjal 413 í 252. máli 151. löggjafarþings * ). Til þess að ná fram nákvæmum svörum þurfa klínískir sérfræðingar Landspítala að fara handvirkt í gegnum gögnin. Vegna mikilla anna í klínískri vinnu vannst ekki tími til þess en nýlega var reynt að meta álag af skurðaðgerðum á Landspítala í kjölfar aðgerða sem framkvæmdar eru á sjálfstætt reknum stofum eða á öðrum heilbrigðisstofnunum. Var bæði fengið mat yfirlækna helstu sérgreina skurðlækninga en einnig reynt að meta umfangið eftir tiltekinni leit í skráningu í sjúkraskrá. Báðar aðferðir skiluðu nokkuð álíka niðurstöðu; að gera megi ráð fyrir allt að 100 aðgerðum á Landspítala á ári vegna fylgikvilla aðgerða á stofu eða á annarri heilbrigðisstofnun. Af þeim má gera ráð fyrir 5 legum á gjörgæsludeild. Í þeim tilvikum er um afar veika einstaklinga að ræða sem oftar en ekki eiga margra vikna legu á Landspítala í kjölfarið. Ekki var unnt að meta fjölda koma á bráðadeild í Fossvogi en samkvæmt mati sérfræðinga Landspítala má hið minnsta reikna með þreföldum þessum fjölda, þ.e. um 300 komum.
*     www.althingi.is/altext/pdf/151/s/0413.pdf