Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 305  —  144. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðbrandi Einarssyni um Framkvæmdasjóð aldraðra.


     1.      Hvert hefur framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs aldraðra verið á hverju ári á tímabilinu 2011–2021?
    Í töflu 1 má sjá framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs aldraðra í fjárlögum og fjáraukalögum á hverju ári tímabilið 2011–2021 í milljónum króna.
    
    Tafla 1

Ár

Fjárlög og fjáraukalög

2011 1.443
2012 1.618
2013 1.700
2014 1.764
2015 1.825
2016 1.903
2017 2.038
2018 2.360
2019 2.833
2020 2.833
2021 3.226

     2.      Hverjar hafa verið tekjur ríkissjóðs af gjaldi á grundvelli 10. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, á hverju ári á sama tímabili?
    Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra. Í töflu 2 má sjá álagningu gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra á árunum 2011–2020 í milljónum króna samkvæmt ríkisreikningi. Ríkisreikningur fyrir árið 2021 liggur ekki fyrir og er talan fyrir það ár úr fjárlögum.
    
    Tafla 2*
    
Ár Gjald í Framkvæmda-sjóð aldraðra
2011 1.476
2012 1.643
2013 1.738
2014 1.821
2015 1.908
2016 2.031
2017 2.231
2018 2.395
2019 2.551
2020 2.647
2021 2.690
     *Ríkisreikningur 2011–2020 og fjárlög 2021.

     3.      Hvaða hlutfalli af fjármunum sjóðsins hefur verið varið í fjárfestingar í úrræðum í öldrunarþjónustu, líkt og hann var upphaflega stofnaður til að gera, á framangreindu tímabili?
    Hlutfall fjárfestingar af framlagi ríkissjóðs í fjárlögum og fjáraukalögum á hverju ári tímabilið 2011–2021 kemur fram í töflu 3. Á þessu tímabili hafa verið gerðar breytingar á hagrænni skiptingu í fjárlögum. Leigugreiðslur til tíu sveitarfélaga á stofnkostnaði við byggingu hjúkrunarheimila (leiguleið) teljast vera fjármagnstilfærslur og hafa verið flokkaðar þannig frá árinu 2016 enda um breytt form á fjárfestingu að ræða. Á árunum 2012–2015 voru þær flokkaðar sem rekstrarframlög. Framlag ríkissjóðs vegna leiguleiðarinnar er fært sem fjárfesting í töflu 3 allt tímabilið til þess að fá betri samanburð á milli ára. Með gildistöku laga um opinber fjármál var gerð breyting á framsetningu framlaga til viðhaldsverkefna í fjárlögum sem nýtt eru til að greiða hluta af húsnæðisgjaldi á öldrunarstofnunum. Frá árinu 2017 er ekki lengur gert ráð fyrir því að slík framlög séu tilgreind á sérstökum viðhaldsviðföngum. Í tilfelli Framkvæmdasjóðs aldraðra voru þau flokkuð sem fjármagnstilfærslur til ársins 2016 en frá árinu 2017 eru þau hluti af almennum rekstrarframlögum. Leiðrétt hefur verið fyrir þessu í töflu 3 og eru framlög til viðhaldsverkefna flokkuð sem rekstrarframlög allt tímabilið.

    Tafla 3*     
Ár Hlutfall fjárfestingar af framlagi ríkissjóðs í fjárlögum/fjáraukalögum
2011 38%
2012 37%
2013 24%
2014 49%
2015 51%
2016 53%
2017 56%
2018 62%
2019 68%
2020 68%
2021 72%
     * Árin 2012–2015 eru framlög ríkissjóðs vegna leiguleiðarinnar leiðrétt og fært sem fjárfesting líkt og er gert árin 2016–2021. Þá eru framlög til viðhaldsverkefna leiðrétt og flokkuð sem rekstrarframlög árin 2011–2016 eins og er gert árin 2017–2021.

     4.      Á tímabilinu frá stofnun Framkvæmdasjóðs aldraðra til dagsins í dag, hver er samanlögð fjárhæð þess gjalds sem heimt hefur verið á grundvelli 10. gr. laga um málefni aldraðra en ekki verið nýtt til uppbyggingar öldrunarþjónustu?
    Ekki liggur fyrir hvaða fjárhæð hefur ekki verið nýtt til uppbyggingar öldrunarþjónustu frá stofnun Framkvæmdasjóðs aldraðra en ef litið er til þess tímabils (2011–2021) sem fyrri spurningar vísa til voru rekstrarframlög og rekstrartilfærslur samtals 10.375 millj. kr. fjármagnstilfærslur 13.166 millj. kr.