Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 307  —  134. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um endurheimt votlendis.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Mun ráðherra beita sér fyrir stórfelldri endurheimt votlendis og raskaðra vistkerfa og ef svo er, hvernig og í hvaða mæli?

    Endurheimt votlendis hefur aukist verulega undanfarin ár og er áætlað að hún aukist enn meira á komandi árum. Eins og fram kemur í stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum frá því í september 2021 var unnið að endurheimt votlendis á 264 hekturum árið 2020, en 24 hekturum árið 2018.
    Samkvæmt stefnumörkun stjórnvalda frá árinu 2019 um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála er stefnt að því að umfang endurheimtar votlendis aukist úr um 45 ha árlega að meðaltali á árunum 2016.2018 í um 500 ha árlega árið 2022. Samkvæmt áætlunum Landgræðslunnar, sem annast endurheimt votlendis af hálfu stjórnvalda, er gert ráð fyrir að endurheimt votlendis aukist úr um 250 ha árið 2021 í um 1.000 ha árið 2024. Þessar áætlanir miða við að greiddur sé allur kostnaður vegna mats á hverju svæði, vegna framkvæmda við endurheimtina og vegna úttekta á árangri. Að auki vinna einkaaðilar að endurheimt votlendis, m.a. Votlendissjóður.
    Aðgerð I.4 í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fjallar um verndun votlendis. Þar eru skilgreindar 12 undiraðgerðir sem stuðla eiga að frekari verndun votlendis. Aðgerðirnar má flokka í þrjá meginflokka:
     *      Aukin verndun votlendis og svæða þar sem tækifæri eru til endurheimtar votlendis.
     *      Fræðsla, hvatar og greining tækifæra.
     *      Bættar upplýsingar og miðlun.
    Meðal þess sem sérstök áhersla er lögð á undir þessari aðgerð er að ákvæðum laga um verndun votlendis verði fylgt betur eftir og eftirlit aukið með nýrri framræslu og kröfum sveitarfélaga um framkvæmdaleyfi. Unnið verði að verkefninu í samstarfi við bændur, aðra landeigendur, sveitarfélög, félagasamtök, fyrirtæki og aðra aðila.
    Jafnframt hefur verið unnið að rannsóknum á árangri aðgerða og áhrifum þurrkunar votlendis á losun gróðurhúsalofttegunda. Von er á niðurstöðum mælinga síðustu ára á næstu vikum. Einnig er unnið að því út frá niðurstöðum rannsókna að draga skýrar fram hvaða endurheimtaraðgerðir skila fjölþættustum ávinningi, bæði með tilliti til loftslagsmála og annarra þátta, svo sem hvað varðar lífríki, og leggja megináherslu á endurheimt slíkra svæða. Stöðugt er því verið að styrkja þekkingu á þessu sviði.