Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 336  —  236. mál.
Flutningsmenn. Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar


um gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.


Flm.: Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Bjarni Jónsson, Eyjólfur Ármannsson.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að skapa svigrúm fyrir gerð Súðavíkurganga á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi í núgildandi samgönguáætlun 2020– 2034. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um framvinduna fyrir árslok 2022.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga um snjóflóðavarnir á Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíð og jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar var lögð fram af Ólínu Þorvarðardóttur á 141. löggjafarþingi (594. mál) og endurflutt á 145. löggjafarþingi (622. mál). Þingsályktunartillaga um gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar var síðan lögð fram af Örnu Láru Jónsdóttur, varaþingmanni Samfylkingarinnar, á 150. löggjafarþingi (299. mál) og endurflutt af Guðjóni S. Brjánssyni lítið breytt á 151. löggjafarþingi (719. mál).
    Með tillögu þessari er lagt til að innviðaráðherra skapi svigrúm til þess að Súðavíkurgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi verði skilgreind sem verkleg framkvæmd á samgönguáætlun 2020–2034 og að þegar verði hafnar ítarlegar rannsóknir og undirbúningur að gerð jarðganganna.
    Í fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024, sbr. þingsályktanir nr. 40/150 og 27/151, er ekki að finna heildstæða áætlun um jarðgangagerð á Íslandi og því ekki gert ráð fyrir Súðavíkurgöngum. Önnur brýn jarðgangaverkefni bíða úrvinnslu bæði á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum.
    Alþingi samþykkti 12. október 2016 þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018 (145. löggjafarþing, 638. mál) þess efnis að veita skyldi fjármagn til að hefja undirbúning og rannsóknir á Súðavíkurgöngum árin 2017 og 2018 en ekkert hefur gerst enn sem komið er.
    Gerð Súðavíkurganga er afar brýn út frá byggðasjónarmiðum en ekki síður út frá öryggissjónarmiðum. Á Súðavíkurhlíð eru skilgreindir 22 snjóflóðafarvegir og eru fjölmörg dæmi um snjóflóð og grjóthrun í hlíðinni. Vegagerðin og Snjóflóðasetur Veðurstofunnar fylgjast vel með öllum hættumerkjum og hafa gefið út viðvaranir og lokað hlíðinni ef svo ber undir. Árið 2018 féllu sem dæmi ríflega 60 flóð niður á veg samkvæmt talningu Vegagerðarinnar en bent skal á að fjölmargar viðvaranir og lokanir eru gefnar út á hverjum vetri til að hindra slys á fólki. Íbúar á svæðinu eru stöðugt uggandi um öryggi sitt og hafa bundist samtökunum „Dauðans alvara, Súðavíkurhlíð-Kirkjubólshlíð“ þar sem skipst er á skoðunum og leiðbeiningar og varúðartilkynningar sendar til meðlima.
    Yfir vetrarmánuðina er vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp helsta samgönguæð íbúa á norðanverðum Vestfjörðum. Nokkrar úttektir hafa verið gerðar á síðustu árum um mögulegar úrbætur á leiðinni um Súðavíkurhlíð. Hér er einkum vísað í „Greinargerð vinnuhóps um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur“ frá nóvember 2002 auk „Greinargerðar um mat á hættu vegna snjóflóða og grjóthruns á vegum milli Súðavíkur og Bolungarvíkur“ (Veðurstofa Íslands, Harpa Grímsdóttir, janúar 2006).
    Í niðurlagi síðarnefndu greinargerðarinnar kemur eftirfarandi fram: „Niðurstaða þessarar skýrslu er því sú að fyrir þá sem ferðast daglega um Óshlíð eða Súðavíkurhlíð er snjóflóða- og grjóthrunshættan nálægt því að tvöfalda árlegar dánarlíkur í umferðinni (miðað við meðal dánarlíkur Íslendinga í umferðinni). Það verður að teljast óviðunandi miðað við forsendurnar sem lýst er í kafla 1.5 um ásættanlega áhættu vegna ofanflóða og grjóthruns á vegi.“ Það má því fullyrða að vegur um Súðavíkurhlíð er einn af hættulegustu þjóðvegum landsins, ef ekki sá hættulegasti.
    Norðanverðir Vestfirðir eru eitt atvinnu- og búsetusvæði. Samkvæmt vinnusóknarkönnun sem Byggðastofnun lét gera árið 2017 sækja tæp 30% vinnandi fólks í Súðavík vinnu til Ísafjarðar og þetta hlutfall fer stöðugt vaxandi. Þónokkur fyrirtæki eru með starfsemi í Súðavík og á öðrum þéttbýliskjörnum á norðanverðum Vestfjörðum. Íbúar Súðavíkur sækja flesta sína grunnþjónustu, til að mynda heilbrigðisþjónustu, til Ísafjarðar.
    Þá má geta þess að sveitarstjórnir Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar hafa sent stjórnvöldum sameiginlega álitsgerð þar sem niðurstaðan er sú að þessi framkvæmd eigi að vera forgangsverkefni á svæðinu hvað varðar samgöngubætur.
    Líkt og farið hefur verið yfir hér að framan mundu Súðavíkurgöng, jarðgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar, fela í sér brýna samgöngubót fyrir bæði íbúa Súðavíkur og íbúa á norðanverðum Vestfjörðum, sem og aðra sem fara þar um. Það á ekki síst við yfir vetrartímann þegar vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er ein helsta samgönguleið vegfarenda.