Ferill 593. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 835  —  593. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um sorgarleyfi.

Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.



I. KAFLI

Gildissvið, markmið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi taka til réttinda foreldra sem hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði til sorgarleyfis sem og greiðslna til að koma til móts við tekjutap þeirra á því tímabili sem sorgarleyfi varir. Lög þessi taka einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi til sorgarstyrks.

2. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja foreldrum svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum til að styðja við eftirlifandi systkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Þá er lögunum ætlað að auka líkur á að foreldrar geti átt farsæla endurkomu á vinnumarkað og geti tekið virkan þátt í samfélaginu að nýju í kjölfar barnsmissis.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Barn: Einstaklingur sem er yngri en 18 ára.
     2.      Barnsmissir: Þegar foreldri verður fyrir því að barn þess andast.
     3.      Foreldri: Foreldri og/eða forsjáraðili barns samkvæmt ákvæðum barnalaga, sem og aðrir sem hafa gegnt foreldraskyldum gagnvart viðkomandi barni í lengri tíma en síðustu 12 mánuði fyrir barnsmissi.
     4.      Fullt nám: 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem varir í a.m.k. sex mánuði og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
     5.      Samfellt starf: A.m.k. 25% starfshlutfall í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Enn fremur teljast til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a–f-lið 2. mgr. 14. gr.
     6.      Sorgarleyfi: Leyfi foreldris frá launuðum störfum á innlendum vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis, sem og við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu.
     7.      Sorgarstyrkur: Styrkur til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldris í fullu námi í kjölfar barnsmissis, sem og við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu.

II. KAFLI

Stjórnsýsla.

4. gr.

Yfirstjórn.

    Ráðherra sem fer með mál er varða vinnumál fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.

5. gr.

Framkvæmdaraðili.

    Vinnumálastofnun fer með framkvæmd laga þessara og annast greiðslur, sbr. IV. og VI. kafla, til foreldra sem nýta rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi eða sorgarstyrks.
    Kostnaður vegna greiðslna til foreldra í sorgarleyfi og sorgarstyrks greiðist úr ríkissjóði.

6. gr.

Kæruheimild.

    Heimilt er að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum laga um úrskurðarnefnd velferðarmála og almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.
    Úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála um endurkröfu ofgreiðslna samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfir.
    Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála. Stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiðslna í sorgarleyfi eða ofgreidds sorgarstyrks, sbr. 28. gr.

III. KAFLI

Sorgarleyfi.

7. gr.

Réttur foreldris til sorgarleyfis vegna barnsmissis.

    Foreldri sem hefur verið í samfelldu starfi á sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að sex mánuði frá þeim degi sem það verður fyrir barnsmissi.
    Réttur til sorgarleyfis skv. 1. mgr. stofnast þann dag sem foreldri verður fyrir barnsmissi og fellur niður 24 mánuðum síðar.

8. gr.

Réttur foreldris til sorgarleyfis vegna andvanafæðingar eða fósturláts.

    Foreldri sem hefur verið í samfelldu starfi á sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu á foreldri sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að tvo mánuði frá þeim degi sem fósturlátið á sér stað.
    Réttur til sorgarleyfis skv. 1. mgr. stofnast við andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og fellur niður 24 mánuðum eftir andvanafæðingu eða fósturlát.
    Tímalengd meðgöngu skv. 1. mgr. skal staðfest með vottorði sérfræðilæknis og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Hafi foreldrar ekki verið í hjúskap eða skráðri sambúð við andvanafæðingu eða fósturlát skv. 1. mgr. skulu á vottorðinu jafnframt koma fram upplýsingar um foreldra.

9. gr.

Tilkynning um sorgarleyfi.

    Þegar foreldri sem vinnur launað starf í annarra þjónustu hyggst nýta rétt sinn til sorgarleyfis skal foreldrið tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er með sannanlegum hætti, svo sem rafrænt eða skriflega, og skal þar tilgreina upphafsdag, lengd og tilhögun sorgarleyfis að öðru leyti.
    Vilji foreldri breyta áður tilkynntri tilhögun sorgarleyfis ber foreldrinu að tilkynna það vinnuveitanda a.m.k. einni viku fyrir upphafsdag nýrrar tilhögunar sorgarleyfis og tilgreina þar eftir því sem við á nýjan upphafsdag, lengd og tilhögun sorgarleyfis að öðru leyti.

10. gr.

Tilhögun sorgarleyfis.

    Foreldri sem vinnur launað starf í annarra þjónustu skal eiga rétt á að nýta rétt sinn til sorgarleyfis í einu lagi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er foreldri heimilt með samkomulagi við vinnuveitanda að haga sorgarleyfi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði nýtt samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þó má aldrei nýta rétt til sorgarleyfis skemur en í hálfan mánuð í senn. Vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við óskir foreldris um tilhögun sorgarleyfis samkvæmt ákvæði þessu.
    Óski foreldri eftir að haga sorgarleyfi með tilteknum hætti, sbr. 2. mgr., en vinnuveitandi getur ekki komið til móts við óskir foreldrisins skulu vinnuveitandinn og foreldrið komast að samkomulagi um aðra tilhögun sorgarleyfisins innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar um nýtingu á rétti til sorgarleyfis, sbr. 9. gr. Skal það gert rafrænt eða skriflega og ástæður tilgreindar fyrir breyttri tilhögun.
    Ef samkomulag næst ekki milli foreldris og vinnuveitanda um nýtingu foreldrisins á rétti til sorgarleyfis, sbr. 3. mgr., á foreldrið rétt á að nýta rétt sinn til sorgarleyfis í einu lagi, sbr. 1. mgr., frá þeim upphafsdegi sem foreldrið ákveður.

11. gr.

Uppsöfnun og vernd réttinda.

    Sorgarleyfi reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem veikindarétti sem og rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, uppsagnarfrests og atvinnuleysisbóta.

IV. KAFLI

Greiðslur í sorgarleyfi.

12. gr.

Umsókn um greiðslur í sorgarleyfi.

    Foreldri skal sækja um greiðslur í sorgarleyfi hjá Vinnumálastofnun. Umsóknin skal vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg, og skal fylgja henni afrit af tilkynningu um sorgarleyfi, sbr. 9. gr., þar sem fram kemur upphafsdagur, lengd og tilhögun sorgarleyfis að öðru leyti. Liggi fyrir samkomulag um aðra tilhögun sorgarleyfis en fram kom í tilkynningu um sorgarleyfi, sbr. 3. mgr. 10. gr., skal afrit af samkomulaginu jafnframt fylgja umsókninni.
    Starfi foreldri við eigin rekstur skal það tekið fram í umsókninni og tilgreint um upphafsdag, lengd og tilhögun sorgarleyfis að öðru leyti.

13. gr.

Réttur foreldris til greiðslna í sorgarleyfi.

    Foreldri öðlast rétt til greiðslna í sorgarleyfi eftir að hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum.
    Þegar foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila þess í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu. Hafi foreldri hins vegar starfað á innlendum vinnumarkaði skemur en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meta hvort viðkomandi teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga þessara þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt er, tillit til starfstímabila foreldrisins í öðru aðildarríki að framangreindum samningum á ávinnslutímabilinu. Skilyrði er að foreldrið hafi hafið störf á innlendum vinnumarkaði innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru aðildarríki að framangreindum samningum. Með umsókn um greiðslur í sorgarleyfi skv. 12. gr. skulu fylgja tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru aðildarríki í samræmi við ákvæði framangreindra samninga.

14. gr.

Þátttaka foreldris á innlendum vinnumarkaði.

    Þátttaka foreldris á innlendum vinnumarkaði skv. 13. gr. felur í sér að foreldrið hafi verið í samfelldu starfi. Fullt starf foreldris sem vinnur launað starf í annarra þjónustu miðast við 172 vinnustundir á mánuði en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Fullt starf foreldris sem starfar við eigin rekstur miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi eða launum er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein eða sem samkvæmt kjarasamningi telst fullt starf.
    Til þátttöku á innlendum vinnumarkaði telst enn fremur:
     a.      orlof eða leyfi foreldris sem vinnur launað starf í annarra þjónustu samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi, þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, og foreldri hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli,
     b.      sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á slíkum bótum hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða foreldrið hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma fyrir framangreindar greiðslur verið a.m.k. 25%,
     c.      sá tími sem foreldri fær greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma fyrir framangreindar greiðslur verið a.m.k. 25%,
     d.      sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, sætir biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið sótt um þá á grundvelli laga um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma fyrir framangreindar greiðslur verið a.m.k. 25%,
     e.      sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma fyrir framangreindar greiðslur verið a.m.k. 25%,
     f.      sá tími sem foreldri fær greiðslur á grundvelli 7. mgr. 8. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma fyrir framangreindar greiðslur verið a.m.k. 25%.
    Vinnumálastofnun metur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um ræðir, sbr. b-lið 2. mgr. Sama á við um hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði hefði foreldrið nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs fyrir þann tíma sem um ræðir, sbr. c-lið 2. mgr.
    Sjúkratryggingastofnun metur á grundvelli laga um sjúkratryggingar og laga um slysatryggingar almannatrygginga hvort foreldri hefði átt rétt á sjúkra- eða slysadagpeningum hefði það sótt um þá fyrir þann tíma sem um ræðir, sbr. d-lið 2. mgr.
    Tryggingastofnun ríkisins metur á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum á grundvelli 7. mgr. 8. gr. þeirra laga hefði það sótt um þær fyrir þann tíma sem um ræðir, sbr. f-lið 2. mgr.

15. gr.

Viðmiðunartímabil og útreikningur á greiðslum í sorgarleyfi.

    Mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds, eftir því sem við á, skv. 2. mgr. og skal miða við sex mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur almanaksmánuðum fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig a–f-lið 2. mgr. 14. gr., án tillits til þess hvort laun eða reiknað endurgjald hafi komið til. Aldrei skal þó miða við færri almanaksmánuði en þrjá við útreikning á meðaltali heildarlauna.
    Til launa á innlendum vinnumarkaði teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skal telja til launa þau tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði skv. a–f-lið 2. mgr. 14. gr. Auk þess skal telja til launa greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003. Þegar um er að ræða 100% greiðslur á viðmiðunartímabili, í tengslum við tilvik sem falla undir a–f-lið 2. mgr. 14. gr. sem foreldri átti rétt á, skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við. Hafi foreldri hins vegar kosið að dreifa greiðslum, í tengslum við tilvik sem falla undir a–f-lið 2. mgr. 14. gr., hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræðir. Sama á við hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum, í tengslum við tilvik sem falla undir a–f-lið 2. mgr. 14. gr., hlutfallslega á lengri tíma enda þótt foreldri hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Aldrei skal taka mið af hærri fjárhæð en sem nemur viðmiðunartekjum sem miða skal við samkvæmt framangreindu enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli greiðslna, í tengslum við tilvik sem falla undir a–f-lið 2. mgr. 14. gr., og meðaltals heildarlauna bættan samhliða greiðslunum. Þegar greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, koma til á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við.
    Útreikningur á greiðslum til foreldris í sorgarleyfi skal byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur viðkomandi úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Vinnumálastofnun skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabils skv. 1. mgr. Vinnumálastofnun ber að upplýsa foreldri um fyrirhugaða upplýsingaöflun í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
    Skattyfirvöld skulu láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna án endurgjalds og á því formi sem óskað er.

16. gr.

Greiðslur í sorgarleyfi.

    Þrátt fyrir 1. mgr. 15. gr. skal mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi aldrei nema hærri fjárhæð en 600.000 kr.
    Þegar foreldri á rétt til greiðslna í sorgarleyfi skv. 13. gr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 15. gr. skal foreldrið öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 3. mgr. í samræmi við starfshlutfall þess.
    Greiðsla til foreldris í sorgarleyfi sem hefur verið í 25–49% starfshlutfalli að meðaltali í hverjum almanaksmánuði á ávinnslutímabili skv. 13. og 14. gr. skal aldrei vera lægri en sem nemur 143.963 kr. á mánuði í réttu hlutfalli við tilhögun sorgarleyfis foreldris þann almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. og 10. gr. Greiðsla til foreldris sem hefur verið í 50–100% starfshlutfalli að meðaltali í hverjum almanaksmánuði á ávinnslutímabili skv. 13. og 14. gr. skal aldrei vera lægri en sem nemur 199.522 kr. á mánuði í réttu hlutfalli við tilhögun sorgarleyfis foreldris þann almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. og 10. gr.
    Greiðslur í sorgarleyfi skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Ekki er heimilt að greiða foreldri lengra aftur í tímann en þrjá almanaksmánuði á undan þeim almanaksmánuði sem umsókn um greiðslur í sorgarleyfi skv. 12. gr. barst Vinnumálastofnun.
    Meðan á sorgarleyfi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af greiðslum í sorgarleyfi í lífeyrissjóð og Vinnumálastofnun að lágmarki 11,5% mótframlag. Foreldri er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð.

17. gr.

Skerðing á greiðslum.

    Réttur foreldris sem hefur verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði til greiðslna í sorgarleyfi er bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til sorgarleyfis skv. III. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til sorgarleyfis.
    Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í sorgarleyfi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna í sorgarleyfi skv. 16. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili skv. 15. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun sorgarleyfis foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 10. og 16. gr., skulu koma til frádráttar greiðslum í sorgarleyfi. Tekjur foreldris sem er í sorgarleyfi samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 2. mgr. 10. gr., sem eru í samræmi við meðaltal heildarlauna á viðmiðunartímabili skv. 15. gr. skulu ekki hafa áhrif á greiðslur í sorgarleyfi fyrir sama tímabil.
    Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í sorgarleyfi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum í sorgarleyfi. Er þá átt við tímabil sem hefst frá og með fyrsta degi sorgarleyfis foreldris innan tiltekins almanaksmánaðar og lýkur frá og með þeim degi sem foreldrið nýtir ekki lengur rétt sinn til sorgarleyfis innan tiltekins almanaksmánaðar. Gildir hið sama hvort sem foreldri nýtir rétt sinn til sorgarleyfis að fullu eða samhliða minnkuðu starfshlutfalli á fyrrnefndu tímabili. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja má til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili skv. 15. gr. lýkur og fram að fyrsta degi sorgarleyfis foreldris. Taka skal tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert er við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris skv. 15. gr. Foreldri skal sýna fram á með skriflegum gögnum á hvaða grundvelli umræddar launahækkanir byggjast og er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggur fram í þessu sambandi.
    Hafi foreldri fengið óvenju háar greiðslur frá vinnuveitanda fyrir eða eftir sorgarleyfi eða meðan á sorgarleyfi stendur miðað við tekjur á viðmiðunartímabili skv. 15. gr., þannig að ætla megi að þær hafi að hluta eða öllu leyti verið ætlaðar fyrir sama tímabil og það tímabil sem foreldri nýtir rétt sinn til sorgarleyfis, skal Vinnumálastofnun óska eftir að viðkomandi foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum fyrir hvaða tímabil umræddar greiðslur hafa verið. Hið sama gildir um óvenju háar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris á tímabili þar sem foreldri hefur minnkað starfshlutfall sitt samhliða nýtingu réttar til sorgarleyfis. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggur fram í þessu sambandi.
    Foreldri sem á rétt til sorgarleyfis skv. III. kafla en uppfyllir ekki skilyrði 13. gr. á rétt á sorgarstyrk skv. 18. eða 19. gr., eftir því sem við getur átt. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í sorgarleyfi sem eru hærri en sem nemur mismun fjárhæðar sorgarstyrks og meðaltals heildarlauna foreldris skulu koma til frádráttar styrknum. Við útreikning á meðaltali heildarlauna samkvæmt þessari málsgrein skal miða við tvo almanaksmánuði fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát. Að öðru leyti gildir ákvæði 1. mgr., eftir því sem við getur átt.

V. KAFLI

Sorgarstyrkur.

18. gr.

Réttur foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli til sorgarstyrks.

    Foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli á sjálfstæðan rétt til sorgarstyrks í allt að sex mánuði frá þeim degi sem það verður fyrir barnsmissi.
    Réttur til sorgarstyrks skv. 1. mgr. stofnast við barnsmissi og fellur niður 24 mánuðum síðar.

19. gr.

Réttur foreldris í fullu námi til sorgarstyrks.

    Foreldri sem hefur verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir barnsmissi og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma á sjálfstæðan rétt til sorgarstyrks í allt að sex mánuði frá þeim degi sem það verður fyrir barnsmissi. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs þá skólaönn sem barnsmissir á sér stað.
    Réttur til sorgarstyrks skv. 1. mgr. stofnast við barnsmissi og fellur niður 24 mánuðum síðar.

20. gr.

Réttur foreldris til sorgarstyrks vegna andvanafæðingar eða fósturláts.

    Foreldri á sjálfstæðan rétt til sorgarstyrks í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu á foreldri sjálfstæðan rétt til sorgarstyrks í allt að tvo mánuði frá þeim degi sem fósturlátið á sér stað.
    Réttur til sorgarstyrks skv. 1. mgr. stofnast við andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og fellur niður 24 mánuðum síðar.
    Tímalengd meðgöngu skv. 1. mgr. skal staðfest með vottorði sérfræðilæknis og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af vottorðinu. Hafi foreldrar ekki verið í hjúskap eða skráðri sambúð við andvanafæðingu eða fósturlát skv. 1. mgr. skulu upplýsingar um foreldrana jafnframt koma fram í vottorðinu.

21. gr.

Undanþágur frá skilyrði um fullt nám.

    Heimilt er að greiða foreldri sorgarstyrk skv. 19. gr. þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir barnsmissi sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr., fram að því að námið hófst enda hafi samfellt starf og nám varað í a.m.k. sex mánuði.
    Heimilt er að greiða foreldri sorgarstyrk sem námsmanni þegar foreldrið hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 19. gr. og hefur síðan verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði enda hafi nám og samfellt starf varað í a.m.k. sex mánuði.
    Heimilt er að greiða foreldri sorgarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að það uppfylli ekki skilyrði um fullt nám við barnsmissi, enda sé foreldri á síðustu önn námsins og ljóst að viðkomandi er að ljúka námi með prófgráðu.
    Heimilt er að greiða foreldri sorgarstyrk sem námsmanni þó að foreldrið uppfylli ekki skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir barnsmissi, enda hafi foreldrið fengið greiðslur á grundvelli 7. mgr. 8. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær hjá Tryggingastofnun ríkisins. Í slíkum tilvikum skal leggja fram staðfestingu frá skóla um að foreldrið hafi verið skráð í fullt nám.
    Heimilt er að greiða foreldri sorgarstyrk skv. 19. gr. þó að það uppfylli ekki skilyrði um að hafa staðist kröfur um námsframvindu og/eða ástundun enda hafi það ekki getað stundað nám vegna veikinda eða slyss. Foreldri skal leggja fram vottorð frá þeim sérfræðilækni sem annast hefur það því til staðfestingar og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af vottorðinu. Auk þess skal leggja fram staðfestingu frá skóla um að foreldrið hafi verið skráð í fullt nám.
    Tryggingastofnun ríkisins metur á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hvort foreldrið hefði átt rétt á greiðslum á grundvelli 7. mgr. 8. gr. þeirra laga hefði það sótt um þær fyrir þann tíma sem um ræðir, sbr. 4. mgr.

22. gr.

Lögheimilisskilyrði.

    Foreldri skal eiga lögheimili hér á landi, sbr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, við barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát, og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma til að geta átt rétt á greiðslu sorgarstyrks.
    Foreldri sem fengið hefur dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga getur átt rétt á sorgarstyrk þrátt fyrir að hafa ekki verið með skráð lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát, enda sé liðinn skemmri tími en 12 mánuðir frá veitingu dvalarleyfis og önnur skilyrði laga þessara eru uppfyllt.
    Heimilt er að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Hið sama gildir þegar foreldri hefur flutt lögheimili sitt tímabundið og stundar fjarnám við íslenskan skóla á þeim tíma enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning og fullnægi öðrum skilyrðum um sorgarstyrk til foreldra í fullu námi.
    Hafi foreldri átt lögheimili hér á landi í a.m.k. einhvern tíma í mánuðinum fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetu foreldris á viðmiðunartímabilinu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar þegar metið er hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 1. mgr., enda hafi foreldrið verið tryggt á sama tíma í því ríki og ekki liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis lauk. Með umsókn um greiðslur sorgarstyrks skv. 24. gr. skulu fylgja tilskilin vottorð um búsetutíma og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði framangreindra samninga.

23. gr.

Tilhögun sorgarstyrks.

    Foreldri er heimilt að skipta greiðslutímabili sorgarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil. Þó getur greiðslutímabilið skemmst varað hálfan mánuð í senn.

VI. KAFLI

Greiðslur sorgarstyrks.

24. gr.

Umsókn um greiðslur sorgarstyrks.

    Foreldri skal sækja um sorgarstyrk hjá Vinnumálastofnun. Umsóknin skal vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg, og skal þar tilgreina upphafsdag greiðslu sorgarstyrks til foreldris og lengd greiðslutímabils.

25. gr.

Greiðslur sorgarstyrks.

    Sorgarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli skal aldrei vera lægri en sem nemur 87.062 kr. á mánuði. Sorgarstyrkur til foreldris í fullu námi skal aldrei vera lægri en sem nemur 199.522 kr. á mánuði.
    Greiðslur sorgarstyrks til foreldris skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði, fyrsta virka dag hvers mánaðar. Heimilt er að hefja greiðslur sorgarstyrks til foreldris í þeim mánuði sem barnsmissir, andvanafæðing eða fósturlát á sér stað. Ekki er heimilt að greiða foreldri sorgarstyrk lengra aftur í tímann en þrjá almanaksmánuði á undan þeim almanaksmánuði sem umsókn um greiðslur skv. 24. gr. barst.

26. gr.

Skerðing á greiðslum sorgarstyrks.

    Réttur foreldris til sorgarstyrks er bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til sorgarstyrks skv. V. kafla. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris, sem eru hærri en sem nemur helmingi þeirrar styrkfjárhæðar sem foreldri hefur fengið greidda skv. 25. gr., skulu koma til frádráttar styrknum. Að öðru leyti gildir ákvæði 17. gr. eftir því sem við getur átt.

VII. KAFLI

Eftirlit, leiðrétting á greiðslum og endurmat réttinda.

27. gr.

Eftirlit.

    Vinnumálastofnun annast eftirlit með framkvæmd laga þessara, þ.m.t. með því hvort foreldri hafi fengið hærri greiðslur í sorgarleyfi eða hærri sorgarstyrk en því bar, sbr. 28. gr.
    Skattyfirvöld skulu láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar um tekjur foreldris úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits Vinnumálastofnunar með framkvæmd laga þessara enda hafi viðkomandi foreldri verið upplýst um slíka ráðstöfun.
    Vinnumálastofnun er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal þeirra upplýsinga sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg við framkvæmd eftirlits skv. 1. mgr.
    Að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara, meðal annars til að tryggja að foreldri fái ekki hærri greiðslur í sorgarleyfi eða hærri sorgarstyrk en því ber samkvæmt ákvæðum laganna, er heimilt við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 3. mgr., að samkeyra upplýsingar Vinnumálastofnunar við upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur foreldris úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá fyrir það tímabil sem foreldri nýtir rétt sinn til sorgarleyfis eða sorgarstyrks. Slíkar samkeyrslur skulu gerðar án þess að upplýsingar séu sendar á milli stofnana umfram það sem nauðsynlegt er til skoðunar á fyrirframskilgreindu athugunarefni. Að öðru leyti fer um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Komi fram við eftirlit með lögum þessum að ætla megi að foreldri hafi fengið hærri greiðslur í sorgarleyfi eða hærri sorgarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum laga þessara skal Vinnumálastofnun óska eftir að viðkomandi foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum að svo hafi ekki verið. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggur fram í þessu sambandi eftir því sem við á.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um framkvæmd eftirlits Vinnumálastofnunar samkvæmt ákvæði þessu.

28. gr.

Leiðrétting á greiðslum í sorgarleyfi og sorgarstyrk.

    Hafi breytingar orðið á tekjuskattsálagningu foreldris vegna tekna sem greiðslur í sorgarleyfi byggjast á, sbr. 3. mgr. 15. gr., skal Vinnumálastofnun leiðrétta greiðslur í sorgarleyfi til samræmis við álagningu skattyfirvalda.
    Hafi foreldri fengið hærri greiðslur í sorgarleyfi eða hærri sorgarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum laga þessara miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða Vinnumálastofnun þá fjárhæð sem ofgreidd var.
    Heimilt er að skuldajafna ofgreiðslum í sorgarleyfi eða ofgreiddum sorgarstyrk á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta eða vaxtabóta samkvæmt lögum um tekjuskatt.
    Um innheimtu ofgreiðslna í sorgarleyfi eða ofgreidds sorgarstyrks fer skv. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Ráðherra getur falið sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.
    Hafi foreldri fengið lægri greiðslur í sorgarleyfi en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda ber Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldris ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Vinnumálastofnunar. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum í sorgarleyfi eða sorgarstyrk en hafi verið synjað um greiðslur eða reiknaðar lægri greiðslur en því bar. Þegar greiðslur í sorgarleyfi eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falla vextir niður.
    Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiðslna í sorgarleyfi eða ofgreidds sorgarstyrks skv. 2. mgr. eru aðfararhæfar.

VIII. KAFLI

Sameiginleg ákvæði.

29. gr.

Réttur til starfs.

    Ráðningarsamband milli foreldris sem nýtir rétt sinn til sorgarleyfis og vinnuveitanda helst óbreytt í sorgarleyfi.
    Foreldri sem nýtir rétt sinn til sorgarleyfis skal eiga rétt á að hverfa aftur til starfs síns að loknu sorgarleyfi. Sé þess ekki kostur skal það eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.

30. gr.

Vernd gegn uppsögn.

    Óheimilt er að segja foreldri sem nýtir rétt sinn til sorgarleyfis upp störfum á grundvelli þess að það hefur tilkynnt um nýtingu á rétti til sorgarleyfis eða er í sorgarleyfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni.

31. gr.

Skaðabótaskylda.

    Brjóti vinnuveitandi gegn ákvæðum laga þessara varðar það skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum.

32. gr.

Ósamrýmanleg réttindi.

    Foreldri sem nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Foreldri sem nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Foreldri sem nýtur slysadagpeninga á grundvelli laga um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga á grundvelli laga um sjúkratryggingar eða endurhæfingarlífeyris á grundvelli laga um félagslega aðstoð getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til geiðslna í sorgarleyfi.
    Foreldri sem nýtur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Foreldri sem nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til geiðslna í sorgarleyfi.
    Foreldri sem nýtur greiðslna á grundvelli 7. mgr. 8. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Foreldri sem nýtur orlofslauna getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Foreldri sem nýtur greiðslna vegna starfsloka, þ.m.t. orlofslauna, getur ekki nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi fyrir sama tímabil og þær greiðslur ná yfir. Fái foreldri greidd orlofslaun vegna starfsloka á sama tímabili og foreldrið fær greiðslur í sorgarleyfi skal foreldri tilkynna Vinnumálastofnun um umrædd orlofslaun þegar í stað sem og fyrir hvaða tímabil orlofslaunin eru ætluð og er þá við það miðað að um sé að ræða tímabil fyrir lok næsta orlofsárs þar á eftir, sbr. lög um orlof. Á foreldri þá ekki rétt á greiðslum í sorgarleyfi fyrir sama tímabil og er þá litið svo á að sorgarleyfi foreldrisins frestist um þann tíma sé því ekki lokið og getur foreldrið sótt um breytingu á tilhögun sorgarleyfis eða greiðslu sorgarstyrks því til samræmis. Að öðru leyti, svo sem hvað varðar aðrar greiðslur vegna starfsloka en orlofslaun, gildir ákvæði 17. gr. eftir því sem við getur átt.
    Tekjutengdar greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sama barnsmissis, sömu andvanafæðingar eða sama fósturláts, fyrir sama tímabil, koma til frádráttar greiðslum í sorgarleyfi skv. IV. kafla.

33. gr.

Árleg endurskoðun fjárhæða.

    Fjárhæðir greiðslna til foreldris í sorgarleyfi skv. 16. gr. og greiðslna sorgarstyrks skv. 25. gr. skulu koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er ráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðunum, sbr. 1. mgr., til hækkunar um hver áramót ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.
    Komi til breytinga á fjárhæðum á grundvelli 1. eða 2. mgr. skal ráðherra setja reglugerð þar sem fjárhæðunum er breytt.

34. gr.

Fjárnám óheimilt.

    Óheimilt er að gera fjárnám í greiðslum í sorgarleyfi eða sorgarstyrk sem á eftir að inna af hendi. Þá er jafnframt óheimilt að ráðstafa greiðslum í sorgarleyfi eða sorgarstyrk til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda.

35. gr.

Milliríkjasamningar.

    Við framkvæmd laga þessara skal tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.

36. gr.

Reglugerð.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, svo sem um með hvað hætti skila beri umsókn um greiðslur í sorgarleyfi, sbr. 12. gr., eða um greiðslur sorgarstyrks, sbr. 24. gr., til Vinnumálastofnunar.
    Ráðherra sem fer með tekjuöflun ríkisins skal setja í reglugerð nánari reglur um skuldajöfnun og forgangsröð ofgreiðslna í sorgarleyfi eða ofgreidds sorgarstyrks skv. 3. mgr. 28. gr.

37. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023 og eiga við um foreldra sem verða fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturláti eftir 18 vikna meðgöngu 1. janúar 2023 eða síðar.

38. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020:
                  a.      2. málsl. 3. gr. laganna fellur brott.
                  b.      Í stað tilvísunarinnar „a–e-lið“ í 2. tölul. 4. gr. og fimm sinnum í 4. mgr. 23. gr. laganna kemur: a–f-lið.
                  c.      11. gr. laganna fellur brott.
                  d.      Orðin „eða fæðist andvana eftir 22 vikna meðgöngu“ í 1. mgr. 15. gr. laganna falla brott.
                  e.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna:
                      1.      Orðin „sem og frá þeim degi þegar andvanafæðing eða fósturlát á sér stað“ falla brott.
                      2.      Orðin „og 1. mgr. 11. gr.“ falla brott.
                  f.      Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
                      1.      Á eftir b-lið 2. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi, og breytist röð annarra stafliða samkvæmt því: sá tími sem foreldri fær greiðslur í sorgarleyfi á grundvelli laga um sorgarleyfi eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær hjá Vinnumálastofnun, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreinda greiðslna verið a.m.k. 25%.
                      2.      Á eftir tilvísuninni „b-lið 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: sem og hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum í sorgarleyfi hefði það nýtt rétt sinn til sorgarleyfis á þeim tíma sem um ræðir, sbr. c-lið 2. mgr.
                      3.      Í stað tilvísunarinnar „c-lið“ í 4. mgr. kemur: d-lið.
                      4.      Í stað tilvísunarinnar „e-lið“ í 5. mgr. kemur: f-lið.
                  g.      32. gr. laganna fellur brott.
                  h.      Orðin „eða fæðist andvana eftir 22 vikna meðgöngu“ í 1. mgr. 34. gr. laganna falla brott.
                  i.      1. mgr. 52. gr. laganna orðast svo:
                      Réttur foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs fellur niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs, sem og við andlát barns. Sama gildir um rétt foreldra til fæðingarstyrks. Í þeim tilvikum þegar barn yngra en 24 mánaða andast ber Þjóðskrá Íslands að tilkynna um andlátið til Vinnumálastofnunar, enda geta foreldrar sem verða fyrir barnsmissi átt rétt á greiðslum á grundvelli laga um sorgarleyfi.
                  j.      Við 53. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Foreldri sem nýtur greiðslna í sorgarleyfi samkvæmt lögum um sorgarleyfi getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum.
     2.      Lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006:
                  a.      7. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.
                  b.      6. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.
                  c.      7. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.
                  d.      Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
                      1.      Á eftir orðunum „lögum um almannatryggingar“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eða nýtur greiðslna á grundvelli laga um sorgarleyfi fyrir sama tímabil.
                      2.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Andist langveikt eða alvarlega fatlað barn fer um rétt foreldris til greiðslna í sorgarleyfi eða sorgarstyrks samkvæmt lögum um sorgarleyfi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var unnið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu en efni þess samræmist þeim áherslum sem fram koma í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um að foreldum sem missa barn verði tryggt sorgarleyfi og að þannig verði staða barna og barnafjölskyldna sem verða fyrir áföllum styrkt á sama tíma og stuðlað er að því að flestir geti verið virkir á vinnumarkaði. Lögfestingu sorgarleyfis er meðal annars ætlað að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum til að styðja við eftirlifandi systkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Er því með frumvarpi þessu leitast við að viðurkenna áhrif sorgar vegna barnsmissis á fjölskyldur í heild. Með sorgarleyfi er átt við leyfi frá launuðum störfum á innlendum vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis, sem og við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Auk þess er gert ráð fyrir að foreldri geti átt rétt á greiðslum í sorgarleyfi til að koma til móts við tekjutap á tilteknu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkað við þær aðstæður sem að framan greinir.
    Það er vel þekkt að áföll í lífinu geti haft áhrif á heilsu fólks til lengri eða skemmri tíma. Þannig þarf sérstaklega að huga að stuðningi við börn og barnafjölskyldur í kjölfar áfalla á borð við barnsmissi. Með því að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis samhliða greiðslum í sorgarleyfi má ætla að í það minnsta í sumum tilvikum megi koma í veg fyrir mögulegan og/eða varanlegan heilsubrest sem geti dregið úr virkni á vinnumarkaði til lengri tíma litið. Þannig er gert ráð fyrir að með því að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis megi auka líkur á að viðkomandi eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og að hann taki virkan þátt í samfélaginu að nýju eftir slíkan missi.
    Við undirbúning frumvarpsins var meðal annars litið til fyrirkomulags í nágrannaríkjum en þar er almennt ekki að finna í löggjöf rétt foreldra til sorgarleyfis vegna barnsmissis en þó má í tilteknum tilvikum finna tveggja til fimm daga rétt til leyfis frá störfum vegna ástvinamissis. Lögfesting tveggja vikna sorgarleyfis í Bretlandi árið 2020 þótti fréttnæmt og hið sama má segja um gildistöku sex mánaða sorgarleyfis í Danmörku 2021. Fyrir lögfestingu sorgarleyfis í Danmörku var löggjöfin þar sem og annars staðar á Norðurlöndum að nokkru leyti sambærileg við gildandi löggjöf hér á landi þar sem foreldrum eru tryggð tiltekin réttindi í kjölfar andvanafæðingar og fósturláts, og í sumum tilvikum barnsmissis eigi þeir ónýttan rétt til fæðingar- og foreldraorlofs við barnsmissi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins er að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði leyfi frá störfum og greiðslur til að koma til móts við tekjutap í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis. Markmiðið er þannig að tryggja foreldrum svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og er leitast við að viðurkenna áhrif sorgar á fjölskylduna í heild í þeim tilvikum þegar barn innan fjölskyldunnar andast, enda eru foreldrar og aðrir sem farið hafa með forsjá eða umsjá barnsins í sumum tilvikum einnig að styðja við eftirlifandi systkin sem þurfa svigrúm, stuðning og aðstoð við breyttar aðstæður.
    Loks þykir rík ástæða til að jafna aðstöðu foreldra á innlendum vinnumarkaði hvað varðar leyfi frá störfum hvort sem um er að ræða fósturlát, andvanafæðingu eða barnsmissi, enda má ætla að andlát barns undir 18 ára aldri sé ekki síður áfall fyrir foreldra sem fyrir því verða en þegar foreldrar verða fyrir því að barn þess fæðist andvana eftir 22 vikna meðgöngu eða þegar um fósturlát er að ræða eftir 18 vikna meðgöngu. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof er foreldrum þegar tryggður sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvoru um sig vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu og í tvo mánuði hvoru um sig vegna fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu. Þá er í lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, kveðið á um að andist langveikt eða alvarlega fatlað barn séu áframhaldandi tekjutengdar greiðslur sem foreldri hefði ella átt rétt á heimilar í allt að einn mánuð frá andláti barns enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að ákvæði um greiðslur vegna andvanafæðinga og fósturláts falli brott úr lögum um fæðingar- og foreldraorlof og ákvæði um greiðslur eftir andlát langveiks eða alvarlega fatlaðs barns falli brott úr lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006.
    Ekki er talið unnt að kveða á um sorgarleyfi í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, enda samrýmist sorgarleyfi vegna barnsmissis illa meginmarkmiðum þeirra laga um að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína og að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
    Þá þykir ekki unnt að tryggja foreldrum rétt til sorgarleyfis eða greiðslur til að koma til móts við tekjutap þeirra í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis með öðrum hætti en með sérstakri lagasetningu þannig að unnt sé að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Á það ekki síst við þar sem ekki eru fyrir hendi reglugerðarheimildir í gildandi lögum sem heimila að kveðið verði á um umrædd réttindi með reglugerð.
    Í ljósi framangreinds þykir ný heildarlöggjöf best til þess fallin að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins er að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði, sem verða fyrir barnsmissi, sorgarleyfi í allt að sex mánuði sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á umræddu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði. Meginefni frumvarpsins er jafnframt að tryggja foreldrum utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli, þar á meðal námsmönnum, sorgarstyrk verði þeir fyrir barnsmissi. Þá er lagt til að foreldrum verði heimilt að skipta greiðslutímabili sorgarstyrks á fleiri en eitt tímabil en þó geti greiðslutímabilið skemmst varað hálfan mánuð í senn.
    Þá er gert ráð fyrir að réttur foreldra til leyfis frá störfum í þrjá mánuði í kjölfar andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu og í tvo mánuði vegna fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof verði áfram tryggður í fyrirhuguðum lögum sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á umræddu tímabili. Enn fremur er gert ráð fyrir að hámarksgreiðslur í sorgarleyfi vegna barnsmissis, andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu verði 600.000 kr. á mánuði. Þannig muni sorgarleyfið fela í sér mánaðarlegar greiðslur yfir ákveðið tímabili til foreldra sem verða fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturláti. Einnig er gert ráð fyrir að foreldrum verði heimilt að nýta rétt sinn til sorgarleyfis að hluta, eftir atvikum samhliða minnkuðu starfshlutfalli, og þá jafnvel yfir lengra tímabil, enda má ætla að mikilvægt sé að einstaklingar sem verða fyrir fyrrnefndum missi haldi tengingu við vinnustað eins og þeir treysta sér til hverju sinni á meðan þeir vinna úr missinum.
    Í samræmi við markmið frumvarpsins er skýringin á hugtakinu foreldri víðtækari í frumvarpinu en þær skýringar sem almennt eiga við um hugtakið, svo sem í gildandi löggjöf hér á landi. Er þannig gert ráð fyrir að undir hugtakið foreldri falli, ásamt kyn- og kjörforeldrum og/eða forsjáraðilum barns samkvæmt ákvæðum barnalaga, aðrir sem gegnt hafa foreldraskyldum gagnvart barni í lengri tíma en síðustu 12 mánuði fyrir barnsmissi. Er þannig gert ráð fyrir að stjúp- eða fósturforeldri geti í kjölfar barnsmissis átt rétt á greiðslum í sorgarleyfi hafi það verið í skráðri sambúð eða gift foreldri og/eða forsjáraðila viðkomandi barns eða verið með barnið í fóstri í lengri tíma en 12 mánuði fyrir barnsmissi. Þannig er sorg fjölskyldunnar í heild viðurkennd óháð fjölskyldugerð en með því er efni frumvarpsins ætlað að koma til móts við fjölbreytt fjölskyldumynstur í íslensku samfélagi.
    Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist framkvæmdina, enda lagt til að um verði að ræða áunnin réttindi á vinnumarkaði auk þess sem gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði eðlislík framkvæmd laga um fæðingar- og foreldraorlof sem fellur undir málefnasvið Vinnumálastofnunar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Áform um gerð frumvarpsins voru kynnt öðrum ráðuneytum í samræmi við verklag hvað varðar innra samráð Stjórnarráðsins. Þá var viðhaft samráð við Sorgarmiðstöðina og Vinnumálastofnun við vinnslu frumvarpsins.
    Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá og með 21. maí 2021 og var veittur frestur til og með 4. júní 2021 til að veita umsagnir um frumvarpið (mál nr. S-118/2021). Alls bárust níu umsagnir um frumvarpið með framangreindum hætti og var litið til þeirra við endanlegan frágang frumvarpsins eftir því sem unnt þótti. Umsagnir bárust meðal annars frá Alþýðusambandi Íslands, Barnaheill, Félagi atvinnurekenda, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Krabbameinsfélagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Sorgarmiðstöðinni og Einstökum börnum. Umsagnirnar voru almennt jákvæðar og lögð var áhersla á að frumvarpið fæli í sér mikla réttarbót þar sem mikilvægi sorgarúrvinnslu væri viðurkennt sem og það álag sem því fylgir fyrir fjölskyldur að missa barn. Jafnframt var bent á að frumvarpið væri gott fyrsta skref og að mikilvægt væri að gengið yrði lengra á síðari stigum. Var í því sambandi meðal annars bent á mikilvægi þess að einstaklingar sem missa maka frá ungum börnum ættu rétt á sambærilegu leyfi frá störfum. Jafnframt var bent á mikilvægi þess að foreldrar fengju svigrúm til að styðja við eftirlifandi systkin líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá var lögð áhersla á mikilvægi þess að ávinnslu starfstengdra réttinda væri viðhaldið líkt og kveðið væri á um í frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Ætla má að frumvarpið sé til þess fallið að tryggja sem jafnasta stöðu kynjanna á vinnumarkaði enda er lagt til að foreldrar eigi jafnan rétt til sorgarleyfis í kjölfar barnsmissis. Þannig er gert ráð fyrir að foreldrar hafi sömu möguleika til að annast sína nánustu og þiggja sjálfir aðstoð og umönnun í kjölfar þess að þeir verða fyrir barnsmissi. Í frumvarpinu er réttur foreldris til greiðslna í sorgarleyfi og til sorgarstyrks tryggður óháð kynferði enda hugtakið foreldri ekki kyngreint í frumvarpinu. Jafnframt er skýringin á hugtakinu foreldri í frumvarpinu rýmri en þær skýringar sem almennt eiga við um hugtakið, svo sem í gildandi löggjöf hér á landi.
    Lagt er til að foreldrum sem eru þátttakendur á vinnumarkaði og verða fyrir barnsmissi í verði tryggt sorgarleyfi í sex mánuði og er gert ráð fyrir að mánaðarleg greiðsla skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Lagt er til að greiðslan geti að hámarki numið 600.000 kr. á mánuði. Viðmiðunartímabil og útreikningur á greiðslum byggjast á samsvarandi ákvæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020. Þá er lagt til að foreldrum utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli verði tryggður sorgarstyrkur í sex mánuði, að lágmarki 87.062 kr. á mánuði. Gera þarf ráð fyrir umsýslu Vinnumálastofnunar og aðlögun tölvulausna stofnunarinnar til að unnt sé að taka á móti umsóknum og annast greiðslur til samræmis við ákvæði laganna, verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands látast árlega um 20 börn undir 18 ára aldri hérlendis. Má því gera ráð fyrir að um 45 einstaklingar/foreldrar að meðaltali, að teknu tilliti til fósturforeldra, stjúpforeldra og annarra sem gegnt hafa foreldraskyldum gagnvart viðkomandi börnum, verði fyrir barnsmissi á ári hverju án þess að vera með trygga framfærslu vegna fjarveru frá vinnumarkaði af þeim sökum. Að öllu framangreindu virtu er gert ráð fyrir að árleg fjárhagsáhrif á ríkissjóð verði um 168 millj. kr. auk þess sem gert er ráð fyrir 6 millj. kr. einskiptiskostnaði við aðlögun tölvulausna hjá Vinnumálastofnun.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er gildissviðið afmarkað þannig að fyrirhuguð lög taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til sorgarleyfis en hugtakið sorgarleyfi er skýrt í 6. tölul. 3. gr. Enn fremur er gert ráð fyrir að framangreindum foreldrum séu tryggðar greiðslur til að koma til móts við tekjutap þeirra á því tímabili sem sorgarleyfi varir. Gert er ráð fyrir að réttur til sorgarleyfis sem og greiðslna á því tímabili sem sorgarleyfi varir eigi við um foreldra sem hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði en hugtakið samfellt starf er skýrt í 5. tölul. 3. gr. Þá er gert ráð fyrir að fyrirhuguð lög taki einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi til sorgarstyrks en hugtakið sorgarstyrkur er skýrt í 7. tölul. 3. gr. og hugtakið fullt nám í 4. tölul. 3. gr.
    Þannig er kveðið á um skýr skil milli greiðslna til foreldra sem leggja niður launuð störf í sorgarleyfi annars vegar og sorgarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi hins vegar.

Um 2. gr.

    Hér er kveðið á um að markmiðið sé að tryggja foreldrum svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum til að styðja við eftirlifandi systkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Með því að viðurkenna áhrif sorgar á fjölskylduna í heild í þeim tilvikum þegar barn innan fjölskyldunnar andast er leitast við að styrkja stöðu barna og barnafjölskyldna sem verða fyrir slíkum missi.
    Þá er gert ráð fyrir að með því að tryggja foreldrum svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis megi auka líkur á að foreldrar geti átt farsæla endurkomu á vinnumarkað og að þeir geti tekið virkan þátt í samfélaginu að nýju í kjölfar slíks missis.

Um 3. gr.

    Ákvæðið hefur að geyma skýringar á helstu hugtökum í frumvarpinu.
    Í 1. tölul. er gert ráð fyrir að með hugtakinu barn sé átt við einstakling sem er yngri en 18 ára líkt og almennt á við í löggjöf hér á landi. Þrátt fyrir að almennt sé átt við einstakling undir 18 ára aldri þegar hugtakið barn er notað í löggjöf hér á landi þótti rétt að skýra það sérstaklega þar sem foreldri getur orðið fyrir barnsmissi þótt barn viðkomandi sé einstaklingur yfir 18 ára aldri og því ekki lengur barn í lagalegum skilningi.
    Í 2. tölul. er gert ráð fyrir að hugtakið barnsmissir verði notað þegar foreldri verður fyrir því að barn þess yngra en 18 ára andast.
    Í samræmi við markmið frumvarpsins er hugtakið foreldri skýrt í 3. tölul. rýmra en þær skýringar sem almennt eiga við um hugtakið, svo sem í gildandi löggjöf hér á landi. Í því sambandi var meðal annars litið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem byggist á því meginsjónarmiði að virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra þegar kemur að uppeldi, þroska og lífsafkomu barns. Í því ljósi þótti rétt að tryggja öðrum þeim sem sinna foreldraskyldum gagnvart barni sorgarleyfi í kjölfar barnsmissis, enda samrýmist sú túlkun markmiðum frumvarpsins um að tryggja barnafjölskyldum í heild svigrúm til sorgarúrvinnslu í þeim tilvikum þegar barn innan fjölskyldunnar andast. Með foreldraskyldum gagnvart barni er í þessu sambandi meðal annars átt við skyldur tiltekinna einstaklinga í tengslum við uppeldi, þroska og lífsafkomu barna. Er gert ráð fyrir að undir hugtakið foreldrar falli, ásamt kyn- og kjörforeldrum og/eða forsjáraðilum barns samkvæmt ákvæðum barnalaga, aðrir sem gegnt hafa foreldraskyldum gagnvart barni í lengri tíma en síðustu 12 mánuði fyrir barnsmissi. Með öðrum sem gegnt hafa foreldraskyldum gagnvart barni er hér átt við einstaklinga sem farið hafa með umsjá barnsins, svo sem stjúp- eða fósturforeldra þess. Er þannig gert ráð fyrir að stjúp- eða fósturforeldri geti í kjölfar barnsmissis sótt um greiðslur í sorgarleyfi hafi það verið í skráðri sambúð eða gift foreldri- og/eða forsjáraðila barnsins eða verið með barnið í fóstri í lengri tíma en 12 mánuði fyrir barnsmissinn. Við skýringu hugtaksins var meðal annars litið til hugtakanotkunar í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, barnalaga, nr. 76/2003, og barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
    Í 4. tölul. er lagt til að með fullu námi sé átt við 75–100% samfellt nám sem geti verið verklegt eða bóklegt. Við mat á því hvort skilyrði um 75–100% nám telst uppfyllt skal miðað við hvað telst fullt nám samkvæmt þeirri námsleið sem um ræðir hjá viðurkenndri menntastofnun. Í dæmaskyni má nefna að almennt teljast 30 ECTS-einingar á önn vera 100% nám við háskóla og því teljast 22–30 ECTS-einingar á önn fullt nám samkvæmt því sem hér er lagt til. Jafnframt teljast 30 framhaldsskólaeiningar (feiningar) á önn vera 100% nám við framhaldsskóla og því teljast 22–30 feiningar á önn almennt fullt nám við framhaldsskóla. Þá er gert ráð fyrir að námið hafi verið við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi en með því er átt við að námið hafi verið hluti af og samþykkt sem námsleið hjá viðkomandi menntastofnun. Loks er gert ráð fyrir að námið hafi varað í a.m.k. sex mánuði og er þá ekki heimilt að leggja saman meðaltal tveggja anna til að uppfylla kröfuna um fullt nám á einni önn heldur þurfa báðar annir að uppfylla kröfuna um fullt nám í a.m.k. sex mánuði.
    Í 5. tölul. er hugtakið samfellt starf skýrt en til þess að foreldri teljist hafa verið í samfelldu starfi þarf starfið að hafa náð a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Gert er ráð fyrir að hið sama gildi um þau tilvik sem talin eru upp í a–f-lið 2. mgr. 14. gr. og skuli þá miðað við að um hafi verið að ræða a.m.k. 25% starfshlutfall viðkomandi.
    Í 6. tölul. er hugtakið sorgarleyfi skýrt en það er lykilhugtak í frumvarpi þessu. Gert er ráð fyrir að með hugtakinu sé átt við leyfi foreldris frá launuðum störfum á innlendum vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis, fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu.
    Í 7. tölul. er gert ráð fyrir að með hugtakinu sorgarstyrkur sé átt við styrk til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldris í fullu námi í kjölfar barnsmissis, fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu.

Um 4. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að sá ráðherra sem hverju sinni fer með mál er varða vinnumál samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, fari með yfirstjórn fyrirhugaðra laga. Í lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, er kveðið nánar á um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra.

Um 5. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist framkvæmd fyrirhugaðra laga í umboði ráðherra og annist greiðslur til foreldra sem nýta rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi eða sorgarstyrks. Þá er gert ráð fyrir að kostnaður vegna greiðslna til foreldra í sorgarleyfi og sorgarstyrks greiðist úr ríkissjóði.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að heimilt verði að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar verða á grundvelli fyrirhugaðra laga. Nefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum og eru úrskurðir nefndarinnar endanlegir á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til æðra stjórnvalds samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þetta fyrirkomulag kemur þó ekki í veg fyrir að aðili máls geti lagt mál með hefðbundnum hætti fyrir dómstóla eða umboðsmann Alþingis sætti hann sig ekki við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Enn fremur er gert ráð fyrir að um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála, nr. 85/2015, sem og almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.
    Gert er ráð fyrir að úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála um endurkröfu ofgreiðslna verði aðfararhæfir. Er það lagt til í því skyni að draga úr innheimtukostnaði sem fellur í hlut foreldris láti það hjá líða að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiðslu, sbr. framangreint.
    Þá er gert ráð fyrir að kveðið verði á um þá meginreglu stjórnsýsluréttarins að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Þó er lagt til að sé ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiðslna kærð til úrskurðarnefndarinnar fresti stjórnsýslukæran aðför skv. 6. mgr. 28. gr. enda þykir ekki rétt að framfylgja réttaráhrifum slíkra ákvarðana, sem kærðar hafa verið til æðra setts stjórnvalds, með aðför áður en æðra setta stjórnvaldið hefur tekið endanlega ákvörðun innan stjórnsýslunnar.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að foreldri sem hefur verið í samfelldu starfi í skilningi 5. tölul. 3. gr. skuli eiga sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að sex mánuði frá þeim degi sem það varð fyrir barnsmissi en um er að ræða áunnin réttindi á vinnumarkaði. Er þannig gert ráð fyrir að réttur foreldris til sorgarleyfis nái ekki til foreldra sem ekki eru þátttakendur á vinnumarkaði. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldrar í fullu námi geti átt rétt á sorgarstyrk, sbr. 18. og 19. gr.
    Þá er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að réttur til sorgarleyfis stofnist þann dag sem foreldri verður fyrir barnsmissi og falli niður 24 mánuðum síðar. Þannig er gert ráð fyrir að foreldri hafi 24 mánuði frá barnsmissi til að nýta rétt sinn til sorgarleyfis en ætla má að þörf foreldra fyrir að nýta rétt sinn samkvæmt frumvarpinu geti komið fram á mismunandi tímum á fyrstu mánuðunum eftir barnsmissi.

Um 8. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 11. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, sem lagt er til að falli brott verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, sbr. 38. gr. Líkt og kveðið er á um í fyrrnefndum lögum um fæðingar- og foreldraorlof er hér gert ráð fyrir sjálfstæðum rétti foreldris til sorgarleyfis í þrjá mánuði eftir andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu en í tvo mánuði sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Viðmiðið um fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu er í samræmi við fyrrnefnd lög um fæðingar- og foreldaorlof og hið sama gildir um viðmiðið um andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu en framangreind viðmið eru í samræmi við skilgreiningu sjúkrahúsa og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á því hvenær litið er svo á að um fósturlát eða andvanafæðingu sé að ræða.
    Gert er ráð fyrir að réttur til sorgarleyfis vegna andvanafæðingar eða fósturláts, sbr. framangreint, falli niður 24 mánuðum eftir andvanafæðingu eða fósturlát .
    Þá er gert ráð fyrir að staðfesta skuli meðgöngutíma með vottorði sérfræðilæknis og að frumriti vottorðsins sé skilað undirrituðu til Vinnumálastofnunar. Jafnframt er gert ráð fyrir að hafi foreldrar ekki verið í hjúskap eða skráðri sambúð við andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu skuli í vottorði sérfræðilæknisins jafnframt koma fram upplýsingar um foreldra. Er þetta lagt til þar sem foreldrastaða er ekki skráð hjá Þjóðskrá Íslands í framangreindum tilvikum. Í ljósi þess að rafræn undirritun skal jafngilda skriflegri undirritun, samkvæmt lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, sbr. einnig 38. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal vottorð sérfræðilæknis, sem berst Vinnumálastofnun rafrænt með fullgildri rafrænni undirritun sem hægt er að sannreyna, teljast fullnægjandi samkvæmt ákvæði þessu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því gert ráð fyrir að kveðið verði í nýrri heildarlöggjöf á um allar greiðslur til foreldra vegna barnsmissis, andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að þegar foreldri, sem er starfsmaður í þeim skilningi að hann vinnur launað starf í annarra þjónustu, hyggst nýta rétt sinn til sorgarleyfis skuli foreldrið tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er með sannanlegum hætti, svo sem rafrænt eða skriflega, þar sem upphafsdagur sorgarleyfis er tilgreindur, sem og lengd og tilhögun sorgarleyfis að öðru leyti. Tilkynning til vinnuveitanda kann að berast eftir upphafsdag sorgarleyfis þar sem um er að ræða tilkynningu eftir að foreldri verður fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturláti. Þó má ætla að alla jafna hafi vinnuveitandi verið upplýstur um aðstæður umrædds foreldris áður en tilkynning samkvæmt ákvæðinu berst honum.

Um 10. gr.

    Lagt er til að foreldri, sem er starfsmaður í þeim skilningi að hann vinnur launað starf í annarra þjónustu, skuli eiga rétt á að nýta rétt sinn til sorgarleyfis í einu lagi. Þrátt fyrir framangreint er gert ráð fyrir að foreldri sé heimilt að semja við vinnuveitanda um aðra tilhögun sorgarleyfis. Þannig sé foreldri heimilt að semja við vinnuveitanda um að skipta sorgarleyfi niður á fleiri tímabil og/eða nýta það samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þó megi aldrei nýta rétt til sorgarleyfis skemur en í hálfan mánuð í senn. Hér er átt við það fyrirkomulag sem foreldri kýs og vinnuveitandi samþykkir. Er með ákvæðinu reynt að tryggja foreldri viðeigandi sveigjanleika til að nýta rétt sinn til sorgarleyfis enda um að ræða heimild en ekki skyldu til fjarveru frá vinnu í kjölfar barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts. Þannig má ætla að í sumum tilvikum kjósi foreldri að halda tengingu við vinnustað, í það minnsta að hluta, bjóði starfið upp á slíka tilhögun. Ætla má að þessi sveigjanleiki geti einnig auðveldað endurkomu foreldris á vinnumarkað við lok sorgarleyfis. Þannig geti foreldri aukið viðveru sína smátt og smátt við endurkomu á vinnumarkað úr sorgarleyfi.
    Gert er ráð fyrir að vinnuveitandi skuli leitast við að koma til móts við óskir foreldris um tilhögun sorgarleyfis en geti vinnuveitandi ekki gert það er lagt til að samkomulag um aðra tilhögun skuli liggja fyrir innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar um nýtingu sorgarleyfis, sbr. 9. gr. Jafnframt er gert ráð fyrir að samkomulag milli foreldris og vinnuveitanda um aðra tilhögun en tilgreind er í tilkynningu um sorgarleyfi, sbr. 9. gr., skuli gert rafrænt eða skriflega og ástæður tilgreindar fyrir breyttri tilhögun.
    Þá er gert ráð fyrir að náist ekki samkomulag milli foreldris og vinnuveitanda um nýtingu foreldrisins á rétti til sorgarleyfis eigi foreldrið rétt á að nýta rétt sinn til sorgarleyfis í einu lagi frá þeim upphafsdegi sem foreldrið ákveður. Þannig er áhersla lögð á að sveigjanleikinn, sem kveðið er á um í ákvæðinu, komi ekki í veg fyrir að foreldri geti ávallt nýtt rétt sinn til sorgarleyfis í einu lagi.

Um 11. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að sorgarleyfi reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum foreldris, sem er starfsmaður í þeim skilningi að hann vinnur launað starf í annarra þjónustu, svo sem við mat á rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og atvinnuleysisbóta. Samsvarandi ákvæði er að finna í 14. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, í tengslum við fæðingarorlof foreldra.

Um 12. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að foreldri sæki um greiðslur í sorgarleyfi hjá Vinnumálastofnun. Lagt er til að umsókn um greiðslur verði á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg. Jafnframt er gert ráð fyrir að með umsókn foreldris skuli fylgja afrit af tilkynningu um sorgarleyfi til vinnuveitanda, sbr. 9. gr., sé foreldri starfsmaður í þeim skilningi að hann vinnur launað starf í annarra þjónustu, þar sem meðal annars komi fram fyrirhugaður upphafsdagur, lengd og tilhögun sorgarleyfis að öðru leyti sem og afrit af samkomulagi um aðra tilhögun sorgarleyfis, sbr. 3. mgr. 10. gr., eftir því sem við á. Er framangreind tilhögun umsóknar lögð til þar sem mikilvægt þykir að Vinnumálastofnun sé ljóst hvenær og hvernig foreldri hyggst nýta rétt sinn til sorgarleyfis til að auðvelda útreikninga og koma í veg fyrir óþarfa óþægindi foreldris vegna hugsanlegra ofgreiðslna.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu ert gert ráð fyrir að foreldri öðlist rétt til greiðslna í sorgarleyfi eftir að hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 14. gr. í sex mánuði fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát. Þannig getur verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Ákvæðið byggist á samsvarandi ákvæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, sbr. 21. gr. þeirra laga.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að túlka beri ákvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sem og gerðir sem felldar hafa verið undir VI. viðauka samningsins á ávinnslutímabili réttinda skv. 1. mgr., þar á meðal reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja. Samkvæmt reglugerðinni ber meðal annars að taka tillit til starfstímabila foreldra á vinnumörkuðum í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins við mat á því hvort foreldri teljist eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Talið er að sambærileg sjónarmið eigi við í frumvarpi þessu er varða réttinn til greiðslna í sorgarleyfi og þar af leiðandi sé heimilt að taka tillit til starfstímabila foreldra í samfelldu starfi á vinnumörkuðum annarra ríkja samkvæmt reglugerðinni. Ákvæði reglugerðarinnar gilda milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, milli Norðurlandanna, þ.m.t. Færeyja og Grænlands, sbr. Norðurlandasamning um almannatryggingar og samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar, og gagnvart Sviss, sbr. stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu.
    Þá er gert ráð fyrir að foreldri verði að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát. Ástæða þess er að í frumvarpinu er kveðið á um réttindi foreldra á innlendum vinnumarkaði til sorgarleyfis og verður foreldri því sannanlega að hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði þegar til sorgarleyfis stofnast svo að til álita geti komið að taka tillit til starfstímabila þess í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í öðru Norðurlandaríki, í öðru EFTA-ríki eða í Færeyjum við mat á því hvort skilyrði fyrir greiðslum í sorgarleyfi séu uppfyllt.
    Gert er ráð fyrir að hafi foreldri starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. fyrir barnsmissi skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila foreldris á vinnumarkaði í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu á ávinnslutímabilinu. Hafi foreldri hins vegar starfað á innlendum vinnumarkaði skemur en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun meti í hverju tilviki fyrir sig hvort foreldri teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt sé, tillit til starfstímabila foreldrisins í öðru aðildarríki að framangreindum samningum á ávinnslutímabilinu. Er þetta lagt til þar sem þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skemmri tíma en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabilinu þykir of skammur tími svo að unnt sé að leiða sjálfkrafa rétt af þeim tíma til samlagningar starfstímabila og þar með til greiðslna samkvæmt frumvarpinu.
    Enn fremur er lagt til að foreldri skuli hafa hafið störf innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru aðildarríki að framangreindum samningum eða með öðrum orðum að tíu virkir dagar megi að hámarki líða milli tryggingatímabila þannig að ekki verði talið að ávinnslutímabilið hafi rofnað þegar foreldri flutti milli landa. Þykir það hæfilegur tími þegar tekið er tillit til þess að foreldri flytur búferlum milli landa en almennt er ekki gert ráð fyrir að ávinnslutímabil foreldra rofni skv. 1. mgr.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að starfstímabil og þar með tryggingatímabil séu staðfest með þar til gerðum vottorðum sem tryggingastofnanir í þeim ríkjum sem flutt er frá gefa út á grundvelli hlutaðeigandi samnings hverju sinni. Leiði samlagning starfstímabila til þess að foreldri eigi rétt á greiðslum í sorgarleyfi er þó gert ráð fyrir að einungis skuli taka mið af meðaltali heildarlauna foreldris á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 15. og 16. gr.

Um 14. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að kveðið verði á um hvað teljist til þátttöku foreldris á innlendum vinnumarkaði skv. 13. gr. Ákvæðið byggist á samsvarandi ákvæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, sbr. 22. gr. þeirra laga. Í ákvæðinu er kveðið á um hvernig skuli meta starfshlutfall foreldris á innlendum vinnumarkaði. Starfshlutfall foreldris kemur til álita þegar reynir á 13. gr. um rétt foreldris til greiðslna í sorgarleyfi og 3. mgr. 16. gr. um lágmarksgreiðslur.
    Í a–f-lið 2. mgr. er kveðið á um tiltekin tilvik sem gert er ráð fyrir að teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt ákvæðinu. Í a-lið er gert ráð fyrir að orlof eða leyfi foreldris sem vinnur launað starf í annarra þjónustu teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði hafi foreldrið verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli á því tímabili óháð því hvort tímabilið hafi verið launað eða ólaunað að hluta eða öllu leyti. Þannig er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um að a-liður eigi aðeins við um foreldri sem starfi í annarra þjónustu en í b–f-lið verði kveðið á um önnur tilvik sem teljast til þátttöku foreldris á vinnumarkaði hvort sem foreldrið starfi í annarra þjónustu eða við eigin rekstur. Lagt er til að það sé skilyrði að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli á viðmiðunartíma fyrir þær greiðslur sem fjallað er um í a–f-lið 2. mgr. Málsgreinin þarfnast ekki skýringa að öðru leyti.
    Loks er í 3.–5. mgr. kveðið á um að tilteknar opinberar stofnanir annist mat á því hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum á grundvelli tiltekinna laga sem falla undir málefnasvið stofnananna hefði foreldri sótt um greiðslur samkvæmt ákvæðum hlutaðeigandi laga á viðmiðunartímabilinu, en sé raunin sú kann það að teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði, sbr. b–d-lið og f-lið 2. mgr.

Um 15. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að kveðið verði á um viðmiðunartímabil og útreikning á greiðslum til foreldris í sorgarleyfi. Ákvæðið byggist á samsvarandi ákvæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, sbr. 23. gr. þeirra laga. Með heildarlaunum í ákvæðinu er átt við hvers konar launagreiðslur og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og skiptir þá ekki máli hvort starfsmaður hafi verið að vinna hjá einum vinnuveitanda eða fleirum eða hvort hluti launa hans sé reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin rekstur sem tryggingagjald hefur verið greitt af. Til heildarlauna skal jafnframt telja þau tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði skv. a–f-lið 2. mgr. 14. gr. óháð því hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald hafi komið til. Hafi foreldri ekki haft tekjur þá almanaksmánuði sem viðmiðunartímabil miðast við skal engu að síður telja þá með við útreikning á meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabili. Með þessum hætti má ætla að jafnræðis verði gætt milli foreldra óháð því hvenær tíma árs sá sem í hlut á verður fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturláti. Þrátt fyrir að ákvæðið mæli fyrir um að greiðslur skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna geta þær þó aldrei farið niður fyrir tiltekna fjárhæð samkvæmt starfshlutfalli foreldris, sbr. 3. mgr. 16. gr., og aldrei orðið hærri en tiltekin fjárhæð, sbr. 1. mgr. 16. gr. Þá skal ekki tekið tillit til tekna sem foreldri hefur unnið til á erlendum vinnumarkaði heldur einvörðungu á innlendum vinnumarkaði. Þó skal ávallt miða við þrjá mánuði að lágmarki við útreikning á meðaltali heildarlauna.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að kveðið verði nánar á um hvað skuli telja til launa á innlendum vinnumarkaði við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldra skv. 1. mgr. ákvæðisins. Þá kemur fram í ákvæðinu að þegar um er að ræða greiðslur skv. a–f-lið 2. mgr. 14. gr. og greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræðir. Hið sama gildir hafi foreldri kosið að dreifa greiðslunum hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, enda þótt foreldrið hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Hafi því tímabili sem foreldri á rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum verið lokið skal engu að síður miða við viðmiðunartekjur foreldrisins sem nýttar voru fyrir tekjutengda tímabilið. Ekki er átt við styrki sem foreldri kann að hafa fengið úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða sjúkrasjóðum stéttarfélaga á tímabilinu heldur eingöngu þær greiðslur sem ætlað er að koma í stað launa. Þá skal aldrei miða við hærri fjárhæðir en nemur viðmiðunartekjum foreldris sem lagðar voru til grundvallar greiðslunum á umræddu tímabili sem þessar greiðslur komu til enda þótt foreldrið hafi fengið bættan mismun viðmiðunartekna og greiðslnanna sjálfra samhliða greiðslunum. Er þetta lagt til þar sem ekki er ætlunin að tiltekinn hluti teknanna verði metinn tvisvar inn í útreikninga á greiðslum á grundvelli fyrirhugaðra laga. Þá er miðað við að ekki skuli taka tillit til tekna sem foreldri hefur unnið til á erlendum vinnumarkaði.
    Í 3. mgr. kemur fram að útreikningur á greiðslum til foreldris í sorgarleyfi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur viðkomandi úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þannig skuli einungis greitt á grundvelli skattframtala, staðgreiðsluskrár og tryggingagjaldsskrár skattyfirvalda enda talið mikilvægt að einungis þær tekjur foreldris sem gefnar hafa verið upp til skattyfirvalda og tryggingagjald verið greitt af komi til útreiknings á greiðslum til foreldris. Við útreikninginn skulu tekjur foreldris því tilheyra þeim mánuði sem þær voru skattlagðar og greitt af þeim tryggingagjald enda hafi verið unnið fyrir þeim í þeim mánuði. Hið sama skuli gilda hefði átt að skattleggja og greiða af þeim tryggingagjald í mánuðinum, hefðu þær verið inntar af hendi á réttum tíma, en þær verið skattlagðar og greitt af þeim tryggingagjald í öðrum mánuði. Árstíðabundnar tekjur foreldris samkvæmt kjarasamningum eins og persónuuppbætur skulu koma til útreiknings í þeim mánuði sem þær voru inntar af hendi. Tekjur foreldris vegna orlofslauna samkvæmt lögum um orlof, nr. 30/1987, skulu koma til útreiknings á greiðslum til foreldris í sorgarleyfi í þeim mánuði sem þær voru skattlagðar og greitt af þeim tryggingagjald.
    Vinnumálastofnun skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabils skv. 1. mgr. Upplýsingaöflunin er háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, til að mynda rafrænt. Er það gert svo að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu upplýsinga gagnvart hlutaðeigandi einstaklingum. Þykir slík framkvæmd jafnframt í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.
    Í 4. mgr. kemur fram að skattyfirvöld skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd fyrirhugaðra laga án endurgjalds og á því formi sem óskað er. Þykir þetta mikilvægt í ljósi þess að Vinnumálastofnun byggir eftirlit sem og útreikninga á greiðslum á upplýsingum úr skrám skattyfirvalda.

Um 16. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að kveðið verði á um hámarks- og lágmarksgreiðslur til foreldris í sorgarleyfi. Gert er ráð fyrir að þrátt fyrir 15. gr. skuli mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi aldrei vera hærri fjárhæð en sem nemur tiltekinni fjárhæð. Kveðið skal nánar á um fjárhæðir í reglugerð, sbr. 33. gr. Ákvæðið byggist á samsvarandi ákvæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, sbr. 24. gr. þeirra laga.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að kveðið verði á um rétt foreldris til greiðslna skv. 13. gr. þegar foreldrið hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 15. gr. og að foreldri skuli í slíkum tilvikum öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 3. mgr. í samræmi við starfshlutfall þess. Sem dæmi má nefna foreldri sem starfaði erlendis á viðmiðunartímabili skv. 15. gr. og hóf síðan störf á innlendum vinnumarkaði fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát og öðlaðist rétt til greiðslna skv. 13. gr.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að greiðslur til foreldris í 25–49% starfshlutfalli annars vegar og foreldris í 50–100% starfshlutfalli hins vegar skuli aldrei nema lægri fjárhæð en nemur tiltekinni fjárhæð. Kveðið skal nánar á um fjárhæðir í reglugerð, sbr. 33. gr. Með því að tryggja foreldri í sorgarleyfi lágmarksgreiðslur meðan á sorgarleyfi stendur er leitast við að styðja við tekjulága foreldra.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að greiðslur til foreldris sem verið hefur í sorgarleyfi skuli inntar af hendi eftir á fyrir undanfarandi almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Þá verði heimilt að greiða foreldri sem verið hefur í sorgarleyfi þrjá almanaksmánuði aftur í tímann frá því að umsókn skv. 12. gr. barst Vinnumálastofnun.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að kveðið verði á um áframhaldandi uppsöfnun lífeyrisréttinda meðan á sorgarleyfi stendur. Þannig greiði foreldri að lágmarki 4% af greiðslum í sorgarleyfi í lífeyrissjóð og Vinnumálastofnun að lágmarki 11,5% mótframlag. Lagt er til að foreldri verði að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð en ekki er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun greiði framlag á móti slíkum greiðslum.

Um 17. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að heimilt verði að skerða rétt foreldra til greiðslna í sorgarleyfi í tilteknum tilvikum. Ákvæðið byggist á samsvarandi ákvæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, sbr. 25. gr. þeirra laga. Gert er ráð fyrir að kveðið verði skýrt á um að réttur foreldris til greiðslna í sorgarleyfi sé bundinn því að foreldri uppfylli tiltekin skilyrði og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til sorgarleyfis. Hafi foreldri ekki lagt niður launuð störf á því tímabili sem það ákvað að nýta rétt sinn til sorgarleyfis er gert ráð fyrir að einungis þær greiðslur frá vinnuveitanda sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald, fyrir sama tímabil, skuli koma til skerðingar á greiðslum séu þær hærri en nemur mismun greiðslna skv. 16. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili skv. 15. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun sorgarleyfis foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 10. og 16. gr. Þannig er gert ráð fyrir að foreldri geti fengið greiddan þann tekjumissi sem fyrirhuguðum lögum er ekki ætlað að koma til móts við frá vinnuveitanda samhliða greiðslum í sorgarleyfi. Þá skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris, sem tilheyra ekki því tímabili sem foreldri er í sorgarleyfi, ekki koma til skerðingar á greiðslum. Loks er gert ráð fyrir að heimilt verði að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram að fyrsta degi sorgarleyfis foreldris.
    Í samræmi við framangreint er tekið mið af því að foreldri geti hafið sorgarleyfi við barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát eða síðar. Þannig geti foreldri hafið sorgarleyfi á tilteknum degi, sem getur verið annar dagur en fyrsti dagur almanaksmánaðar. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að foreldri geti verið í sorgarleyfi hluta úr almanaksmánuði, svo sem frá 20. janúar til 15. apríl. Sé um 100% sorgarleyfi að ræða í framangreindu dæmi er gert ráð fyrir að litið verði svo á að foreldri sé í sorgarleyfi frá og með 20. janúar og að greiðslur hefjist við það tímamark. Á sama hátt er gert ráð fyrir að litið verði svo á að foreldri sé í 100% sorgarleyfi fram til 15. apríl en gegni síðan starfi sínu frá og með þeim degi. Gert er ráð fyrir að greiðslum til foreldris í sorgarleyfi verði eingöngu ætlað að koma til móts við þann tekjumissi sem foreldrið verður fyrir við að leggja niður launuð störf í sorgarleyfi. Fái foreldri bættan tekjumissinn sem fyrirhuguðum lögum er ætlað að bæta frá vinnuveitanda þykir eðlilegt að þær greiðslur komi til frádráttar greiðslum í sorgarleyfi. Þannig er miðað við að greiðslur sem eru hærri en sem nemur mismun á greiðslum samkvæmt frumvarpinu og meðaltali heildarlauna foreldris á mánuði á viðmiðunartímabili komi til frádráttar greiðslum í sorgarleyfi. Er þar með tekið tillit til þess að vinnuveitandi geti bætt starfsmanni sínum upp þann tekjumissi sem greiðslur á grundvelli fyrirhugaðra laga bæta ekki. Er því við það miðað að foreldri geti hagað störfum sínum líkt og það kýs utan þess tíma sem það er skráð í sorgarleyfi án þess að það hafi áhrif á greiðslur á því tímabili sem foreldrið nýtir rétt sinn til sorgarleyfis. Ekki er gert ráð fyrir að það sé áhrifaþáttur, í tengslum við útreikning á greiðslum fyrir tiltekið tímabil þar sem foreldri nýtir rétt sinn til sorgarleyfis, þótt foreldri hafi unnið fleiri yfirvinnutíma en á viðmiðunartímabili eða tekið að sér aukavaktir rétt fyrir nýtingu á rétti til sorgarleyfis enda oftast eðlilegar ástæður sem liggja þar að baki. Í því sambandi er jafnframt gert ráð fyrir að það skipti ekki máli í slíkum tilvikum þótt vinnan hafi farið fram innan sama almanaksmánaðar og sorgarleyfi hófst svo lengi sem vinnan fór fram áður en leyfið hófst.

Um 18. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli skuli eiga rétt til sorgarstyrks í formi fjárstuðnings í allt að sex mánuði í kjölfar barnsmissis. Er þannig leitast við að styðja foreldra sem ekki eiga rétt á greiðslum í sorgarleyfi við að aðlagast breyttum aðstæðum og á sama tíma reynt að koma að einhverju leyti til móts við tilfallandi kostnað vegna barnsmissis.
    Þá er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að réttur til sorgarstyrks stofnist við barnsmissi og falli niður 24 mánuðum síðar. Þannig hafi foreldri 24 mánuði frá barnsmissi til að nýta rétt sinn en ætla má að þörf foreldra fyrir að nýta réttinn geti komið fram á mismunandi tímabilum á fyrstu mánuðunum eftir barnsmissi.

Um 19. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að foreldri sem hefur verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir barnsmissi og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma skuli eiga rétt til sorgarstyrks í formi fjárstuðnings í allt að sex mánuði frá þeim degi sem það verður fyrir barnsmissi. Er þannig leitast við að styðja foreldra sem ekki eiga rétt á greiðslum í sorgarleyfi við að aðlagast breyttum aðstæðum og á sama tíma reynt að koma að einhverju leyti til móts við tilfallandi kostnað vegna barnsmissis.
    Gert er ráð fyrir að skilyrði sorgarstyrks til foreldris sem hefur verið í fullu námi sé að foreldri hafi staðist kröfur um námsframvindu á námstímanum. Er þá átt við að foreldri hafi staðist kröfur um námsframvindu sem nemur fullu námi skv. 4. tölul. 3. gr. Er því ekki gert ráð fyrir að unnt sé að leggja saman einingafjölda milli skóla þannig að samtals hafi foreldri náð einingafjölda á tveimur önnum sem nemur fullu námi á einni önn við hlutaðeigandi skóla. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimilt verði að líta til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem foreldri verður fyrir barnsmissi. Vísast í því sambandi einnig til þeirra tilvika sem talin eru upp í 21. gr. og leitt geta til undanþágu frá skilyrði um fullt nám skv. þessu ákvæði.
    Þá er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að réttur til sorgarstyrks stofnist við barnsmissi og falli niður 24 mánuðum síðar. Þannig hafi foreldri 24 mánuði frá barnsmissi til að nýta rétt sinn en ætla má að þörf foreldra fyrir að nýta þennan rétt geti komið fram á mismunandi tíma á fyrstu mánuðunum eftir barnsmissi.

Um 20. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 32. gr. laga um fæðingar og foreldraorlof, nr. 144/2020, um rétt til fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu sem lagt er til að falli brott úr þeim lögum verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, sbr. 1. tölul. 38. gr. Líkt og kveðið er á um í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, er hér gert ráð fyrir sjálfstæðum rétti foreldris til sorgarstyrks í þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu og tvo mánuði ef um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Jafnframt er gert ráð fyrir að réttur til sorgarstyrks stofnist við andvanafæðingu eða fósturlát, sbr. framangreint, og falli niður 24 mánuðum síðar og er það í samræmi við gildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof.
    Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um að tímalengd meðgöngu skuli staðfest með vottorði sérfræðilæknis og að í vottorðinu skuli jafnframt koma fram upplýsingar um foreldra séu foreldrar ekki í hjúskap eða sambúð við andvanafæðingu eða fósturlát. Er ástæðan sú að í slíkum tilvikum er foreldrastaða ekki skráð hjá Þjóðskrá Íslands. Í ljósi þess að rafræn undirritun skal jafngilda skriflegri undirritun, samkvæmt lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, sbr. einnig 38. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal vottorð sérfræðilæknis, sem berst stofnuninni rafrænt með fullgildri rafrænni undirritun sem hægt er að sannreyna, teljast fullnægjandi samkvæmt ákvæði þessu.

Um 21. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að ákveðin tilvik geti leitt til undanþágu frá skilyrði um fullt nám skv. 19. gr.
    Lagt er til að heimilt verði að greiða foreldri sorgarstyrk skv. 19. gr. þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir barnsmissi sé ekki uppfyllt, hafi foreldri verið samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr., fram að því að námið hófst. Undanþágan er því frá skilyrði um tímalengd námsins en ekki frá því skilyrði að foreldri hafi verið í fullu námi og staðist kröfur um námsframvindu og/eða ástundun náms á þeim tíma sem það stóð yfir. Með samfelldu starfi er átt við 25% starfshlutfall á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil, sbr. 5. tölul. 3. gr., auk þeirra tilvika sem talin eru upp í a–f-lið 2. mgr. 14. gr., sem og þeirra tilvika þegar Vinnumálastofnun skal taka tillit til starfstímabila í öðrum aðildarríkjum, sbr. 2. mgr. 13. gr.
    Jafnframt er lagt til að heimilt verði að greiða foreldri sorgarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 19. gr. og hefur síðan verið í samfelldu starfi, sbr. 5. tölul. 3. gr. Skilyrði er að nám og starf hafi varað samfellt í a.m.k. sex mánuði. Undanþágan er því frá skilyrði um tímalengd námsins en ekki frá því skilyrði að foreldri hafi verið í fullu námi og staðist kröfur um námsframvindu og/eða ástundun náms á þeim tíma sem það stóð yfir.
    Þá er lagt til að heimilt verði að greiða foreldri sorgarstyrk skv. 19. gr. þegar foreldri er í minna en 75% samfelldu námi, sbr. 4. tölul. 3. gr., í þeim tilvikum sem viðkomandi er á síðustu önn námsins og og ljóst er að viðkomandi er að ljúka námi með prófgráðu. Undanþágan er því frá skilyrði um að nemandi hafi verið í fullu námi en ekki frá skilyrði um námsframvindu og/eða ástundun náms á þeim tíma sem það stóð yfir.
    Auk þess er lagt til að heimilt verði að að greiða foreldri sorgarstyrk skv. 19. gr. þó að það uppfylli ekki skilyrði um að hafa staðist kröfur um námsframvindu og/eða ástundun enda hafi það ekki getað stundað nám vegna veikinda eða slyss. Gert er ráð fyrir að foreldri skuli leggja fram vottorð frá þeim sérfræðilækni sem annast hefur það því til staðfestingar og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Auk þess skal foreldrið leggja fram staðfestingu frá skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám.
    Loks er lagt til að heimilt verði að greiða foreldri sorgarstyrk skv. 19. gr. þegar foreldri hefur ekki staðist kröfur um námsframvindu og/eða ástundun í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir barnsmissi, enda hafi foreldrið fengið greiðslur á grundvelli 7. mgr. 8. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær hjá Tryggingastofnun ríkisins. Í slíkum tilvikum skal foreldri leggja fram staðfestingu frá skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám. Þá kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins skuli meta á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, hvort foreldrið hefði átt rétt á greiðslum á grundvelli 7. mgr. 8. gr. þeirra laga hefði foreldrið sótt um slíkar greiðslur fyrir þann tíma sem um er að ræða.

Um 22. gr.

    Hér er kveðið á um það skilyrði að foreldri skuli hafa verið með skráð lögheimili hér á landi í tiltekinn tíma við barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát til að geta átt rétt á greiðslu sorgarstyrks. Þannig er gert ráð fyrir að foreldri hafi átt lögheimili hér á landi við barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát, sem og síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma til að geta átt rétt á greiðslu sorgarstyrks. Hér er átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018. Skilyrðið um lögheimili hér á landi er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Þó er lagt til að heimilt verði að greiða sorgarstyrk til foreldris sem hefur fengið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 80/2016, þrátt fyrir að hafa ekki átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát, enda sé skemmri tími en 12 mánuðir liðinn frá veitingu dvalarleyfis og önnur skilyrði uppfyllt. Í þessu sambandi ber jafnframt að geta þess að umræddir einstaklingar eru sjúkratryggðir hér á landi, sbr. 16. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, auk þess sem umræddir einstaklingar geta átt rétt á fæðingarstyrk, sbr. 29. gr. laga um fæðingar og foreldraorlof, nr. 144/2020. Má því ætla að framangreind heimild sé í samræmi við sambærileg réttindi í gildandi lögum.
    Þá er lagt til að heimilt verði að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Lagt er til að hið sama gildi um foreldri sem dvelst erlendis en stundar fjarnám við íslenskan skóla. Er þannig verið að tryggja foreldrum í fullu námi við íslenskan skóla sama rétt til sorgarstyrks hvort sem námið er í formi staðarnáms eða fjarnáms.
    Loks er lagt til í tilvikum þegar foreldri hefur átt lögheimili hér á landi í a.m.k. einhvern tíma í mánuðinum fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetu foreldris í öðru aðildarríki á viðmiðunartímabilinu samkvæmt þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu, þegar metið er hvort foreldri teljist fullnægja lögheimilisskilyrði, sbr. 1. mgr., enda hafi foreldri verið tryggt á sama tíma í því aðildarríki og ekki hafi liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis lauk. Foreldri skal staðfesta búsetu og tryggingatímabil í öðru aðildarríki með vottorði sem þar til bær aðili þess ríkis gefur út á grundvelli hlutaðeigandi samnings.

Um 23. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að foreldri verði heimilt að skipta greiðslutímabili sorgarstyrks á fleiri en eitt tímabil. Þó er gert ráð fyrir að hvert og eitt greiðslutímabil geti skemmst varað hálfan mánuð í senn. Þannig er gert ráð fyrir að foreldri geti sem dæmi ákveðið að greiðslutímabil sorgarstyrks verði janúar, hálfur júlí, september, hálfur nóvember o.s.frv., enda má ætla að þörf foreldris fyrir að nýta rétt sinn til sorgarstyrks geti komið fram á mismunandi tíma fyrstu mánuðina eftir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát.

Um 24. gr.

    Gert er ráð fyrir að foreldri sæki um sorgarstyrk hjá Vinnumálastofnun. Lagt er til að umsóknin skuli vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg. Er það lagt til í því skyni að einfalda umsóknarferlið eins og kostur er. Jafnframt er gert ráð fyrir að í umsókn foreldris um sorgarstyrk skuli tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag greiðslu sorgarstyrks til foreldris sem og lengd greiðslutímabils en slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar fyrir framkvæmd Vinnumálastofnunar.

Um 25. gr.

    Gert er ráð fyrir að fjárhæðir sorgarstyrks til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli skuli nema tiltekinni fjárhæð á mánuði.

Um 26. gr.

    Lagt er til að réttur foreldris til sorgarstyrks sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til sorgarstyrks skv. V. kafla.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris sem eru hærri en sem nemur helmingi fjárhæðar sorgarstyrks sem foreldri hefur fengið greiddan skv. 25. gr. skuli koma til frádráttar styrknum. Sem dæmi má nefna að ef fjárhæð sorgarstyrks er 150.000 kr. á mánuði mætti foreldri á sama tímabili fá allt að 75.000 kr. frá vinnuveitanda án þess að til skerðinga komi.

Um 27. gr.

    Hér er lagt til að kveðið verði á um hvernig eftirliti Vinnumálastofnunar skuli háttað. Auk þess er gert ráð fyrir að kveðið verði á um hvaða upplýsingar skattyfirvöld skulu láta Vinnumálastofnun í té sem nauðsynlegar eru til að hafa eftirliti með framkvæmdinni enda hafi viðkomandi foreldri verið upplýst um það. Ákvæðið byggist á samsvarandi ákvæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, sbr. 40. gr. þeirra laga.
    Í ákvæðinu er meðal annars lagt til að kveðið verði á um að Vinnumálastofnun verði heimilt að samkeyra upplýsingar sem stofnunin hefur undir höndum við upplýsingar frá skattyfirvöldum, sbr. 2. mgr. Lagt er til að við slíkar samkeyrslur skuli leitast við að senda ekki upplýsingar á milli stofnana umfram það sem nauðsynlegt er til skoðunar á fyrirframskilgreindu athugunarefni. Er þetta í samræmi við þá heimild sem Vinnumálastofnun hefur í lögum um atvinnuréttindi útlendinga hvað varðar meðferð persónuupplýsinga, sbr. 25. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.

Um 28. gr.

    Hér er lagt til að kveðið verði á um hvernig leiðréttingum á greiðslum í sorgarleyfi og greiðslum sorgarstyrks skuli háttað. Ákvæðið byggist á samsvarandi ákvæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, sbr. 41. gr. þeirra laga.
    Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun leiðrétti greiðslur í sorgarleyfi til samræmis við álagningu skattyfirvalda komi í ljós að breytingar hafi orðið á tekjuskattsálagningu foreldris, enda er greiðslum í sorgarleyfi einungis ætlað að bæta tiltekinn hluta þeirra tekna sem foreldri raunverulega hafði samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda fyrir sorgarleyfið. Er gert ráð fyrir að leiðrétting fari fram þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir og getur hún því átt sér stað nokkru eftir að greiðslur í sorgarleyfi hafa farið fram.
    Lagt er til að í tilvikum þar sem fyrir liggur að foreldri hafi fengið hærri greiðslur en því bar miðað við álagningu skattyfirvalda beri því að endurgreiða Vinnumálastofnun þá fjárhæð sem um ræðir. Einnig er lagt til að heimilt verði að skuldajafna ofgreiðslum í sorgarleyfi eða ofgreiddum sorgarstyrk á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta eða vaxtabóta samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Um innheimtu ofgreiðslna í sorgarleyfi eða ofgreidds sorgarstyrks fari skv. 111. gr. þeirra laga. Enn fremur er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að fela sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.
    Þá er lagt til að í þeim tilvikum þegar foreldri hefur fengið lægri greiðslur en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða mál hefur verið kært til úrskurðarnefndar velferðarmála sem kemst að þeirri niðurstöðu að foreldri hefði átt rétt á greiðslum í sorgarleyfi eða sorgarstyrk en foreldri hafi verið synjað um greiðslur eða foreldri reiknaðar lægri greiðslur en því bar beri Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldrisins ásamt vöxtum. Gert er ráð fyrir að í slíkum tilvikum séu greiddir vextir fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Vinnumálastofnunar. Þá er lagt til að vextirnir skuli vera jafnháir þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, en samkvæmt því ákvæði eru það vextir sem greiða skal af skaðabótakröfum. Jafnframt er lagt til að hafi greiðslur frá Vinnumálastofnun verið vangreiddar vegna skorts á upplýsingum skuli vextir falla niður. Er gert ráð fyrir að þetta eigi einkum við um þau tilvik þegar foreldri hefur ekki staðið skil á upplýsingum við skattyfirvöld um tekjur sem og þegar mál dragast í meðförum úrskurðarnefndar velferðarmála af ástæðum sem rekja má til kæranda sjálfs.
    Gert er ráð fyrir að kveðið verði á um að ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiðslna í sorgarleyfi eða ofgreidds sorgarstyrks séu aðfararhæfar. Er það gert til að einfalda innheimtu ofgreiðslna og til að draga úr innheimtukostnaði sem fellur í hlut foreldris láti það hjá líða að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiðsluna, sbr. framangreint. Komi hins vegar til þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiðslna í sorgarleyfi eða ofgreidds sorgarstyrks er kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála er gert ráð fyrir að stjórnsýslukæran fresti aðför, sbr. 3. mgr. 6. gr. Aftur á móti er gert ráð fyrir að úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um endurkröfu ofgreiðslna séu aðfararhæfir, sbr. 2. mgr. 6. gr.

Um 29. gr.

    Hér er lagt til að skýrt verði kveðið á um að ráðningarsamband milli foreldris, sem er starfsmaður í þeim skilningi að hann vinnur launað starf í annarra þjónustu, og vinnuveitanda haldist óbreytt á því tímabili sem foreldri nýtir rétt sinn til sorgarleyfis. Enn fremur er lagt til að skýrt verði kveðið á um rétt foreldris sem nýtir rétt sinn til sorgarleyfis til að hverfa aftur til starfs síns að loknu sorgarleyfi. Í því felst þó ekki takmörkun á möguleikum vinnuveitanda til að gera almennar breytingar í rekstri fyrirtækis eða stofnunar sem kunna að hafa áhrif á starf foreldrisins með sambærilegum hætti og þær kunna að hafa áhrif á störf annarra starfsmanna. Þykir þetta mikilvægt til að tryggja að foreldri sem nýtir rétt sinn til sorgarleyfis geti alla jafna verið öruggt um að það gangi að starfi sínu vísu að sorgarleyfi loknu.

Um 30. gr.

    Hér er lögð áhersla á að vernda foreldri sem hefur tilkynnt vinnuveitanda um fyrirhugaða tilhögun sorgarleyfis eða foreldri sem er í sorgarleyfi gegn uppsögn af hálfu vinnuveitanda. Ákveði vinnuveitandi að segja upp starfsmanni sem svo er ástatt um ber honum að tilgreina ástæður fyrir uppsögninni og rökstyðja þær skriflega. Þykir þetta nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að það hafi neikvæðar afleiðingar fyrir foreldri að nýta rétt sinn til sorgarleyfis.

Um 31. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að brjóti vinnuveitandi gegn ákvæðum fyrirhugaðra laga varði það skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum. Í þessu sambandi má nefna þau tilvik þegar vinnuveitandi kemur í veg fyrir að foreldri njóti þeirra réttinda sem frumvarpið gerir ráð fyrir, svo sem í þeim tilvikum þegar vinnuveitandi bregst þeirri skyldu sinni að tryggja að fyrra starf starfsmanns eða sambærilegt starf í samræmi við ráðningarsamning standi honum til boða þegar hann snýr aftur til starfa að loknu sorgarleyfi. Sama gildir einnig segi hann starfsmanni upp störfum, sem lagt hefur fram skriflega tilkynningu um að hann ætli að nýta sér rétt til sorgarleyfis eða er í sorgarleyfi, án þess að málefnalegar ástæður liggi þar að baki.

Um 32. gr.

    Hér er nánar tiltekið hvaða réttindi gert er ráð fyrir að teljist til ósamrýmanlegra réttinda á sama tímabili og foreldri nýtir rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi. Er þannig gert ráð fyrir að kveðið verði á um hvaða greiðslur úr öðrum greiðslukerfum samrýmist ekki greiðslum í sorgarleyfi á sama tímabili.
    Í 1. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, geti ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Í 2. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, geti ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Í 3. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur slysadagpeninga á grundvelli laga um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, sjúkradagpeninga á grundvelli laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, eða endurhæfingarlífeyris á grundvelli laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, geti ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Í 4. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags geti ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Í 5. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns geti ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Í 6. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur greiðslna á grundvelli 7. mgr. 8. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, geti ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
    Í 7. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur orlofslauna geti ekki nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi á sama tímabili og þær greiðslur eiga við um.
    Í 8. mgr. kemur fram að foreldri geti ekki nýtt rétt til greiðslna í sorgarleyfi fyrir sama tímabil og það nýtur greiðslna vegna starfsloka, þ.m.t. orlofslauna sem gerð eru upp við starfslok. Er þetta lagt til þar sem foreldrar geta ekki haldið launum sínum á sama tíma og þeir nýta rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi en greiðslur vegna starfsloka, þ.m.t. orlofslaun sem gerð eru upp við starfslok, miðast að öllu jöfnu við tiltekið tímabil. Er í því sambandi jafnframt gert ráð fyrir að fái foreldri greidd orlofslaun vegna starfsloka fyrir sama tímabil og það fær greiðslur í sorgarleyfi skuli foreldrið tilkynna Vinnumálastofnun um umrædd orlofslaun þegar í stað sem og fyrir hvaða tímabil orlofslaunin séu ætluð og sé þá við það miðað að um sé að ræða tímabili sem verði fyrir lok næsta orlofstímabils þar á eftir, sbr. lög um orlof, nr. 30/1987. Gert er ráð fyrir að foreldri eigi þá ekki rétt til greiðslna í sorgarleyfi fyrir sama tímabil og að litið verði svo á að sorgarleyfi foreldris frestist um þann tíma sé því ekki lokið. Þó er gert ráð fyrir að foreldri geti sótt um breytingu á tilhögun sorgarleyfis eða greiðslna í sorgarleyfi í samræmi við framangreint. Að öðru leyti, svo sem hvað varðar aðrar greiðslur vegna starfsloka en orlofslaun, gilda skerðingarákvæði 17. gr. eftir því sem við getur átt.
    Í 9. mgr. er fjallað um að greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sama barnsmissis, sömu andvanafæðingar eða sama fósturláts fyrir sama tímabil komi til frádráttar greiðslum foreldris í sorgarleyfi. Hafi foreldri verið búsett erlendis og öðlast þar rétt til tekjutengdra greiðslna í tengslum við barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát skal fylgja með umsókn til Vinnumálastofnunar gögn frá viðkomandi stjórnvaldi í hlutaðeigandi ríki sem staðfestir hvort foreldri muni fá greiðslur vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts. Njóti foreldri greiðslna í öðru ríki skal jafnframt staðfesta fjárhæðir og greiðslutímabil.

Um 33. gr.

    Hér er lagt til að fjárhæðir greiðslna í sorgarleyfi og sorgarstyrks komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þrátt fyrir framangreint er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðum umræddra greiðslna til hækkunar um hver áramót ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þá er gert ráð fyrir að komi til breytinga á fjárhæðum á grundvelli ákvæðisins skuli ráðherra setja reglugerð þar sem fjárhæðunum er breytt.
    Er hér um að ræða sambærilega heimild og kveðið er á um í 54. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, þar sem mikilvægt þykir að sú fjárhæð sem greidd er í sorgarleyfi og sorgarstyrkur fylgi þeirri þróun sem verður á fjárhæðum innan fæðingarorlofskerfisins.

Um 34. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að óheimilt verði að gera fjárnám í greiðslum í sorgarleyfi hafi greiðslur til foreldris ekki farið fram þar sem um er að ræða greiðslur fyrir tiltekið ókomið tímabil sem ætlaðar eru til framfærslu foreldris og þeirra sem því ber skylda til að framfæra. Jafnframt er gert ráð fyrir að óheimilt verði að gera fjárnám í sorgarstyrk hafi greiðslur til foreldris ekki farið fram. Þá er lagt til að óheimilt verði að taka umræddar greiðslur til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda.

Um 35. gr.

    Lagt er til að við framkvæmd fyrirhugaðra laga skuli tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að. Hér er einkum verið að vísa til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og Evrópureglugerða á sviði almannatrygginga og félagsmála sem taka ber upp í landsrétt EES-ríkjanna skv. 7. gr. EES-samningsins. Er því með ákvæði þessu verið að tryggja að framkvæmd fyrirhugaðra laga, verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, verði í samræmi við gerðir á sviði almannatrygginga og félagsmála, sem hafa orðið eða verða hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 36. gr.

    Með ákvæðinu er gert ráð fyrir að ráðherra verði veitt heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd frumvarpsins, verði það að lögum. Markmiðið er að veita ráðherra heimild til að kveða skýrar á um framkvæmdina en gert er í frumvarpi þessu ef nauðsyn ber til. Er þetta lagt til þar sem um ný heildarlög verður að ræða sem ekki eiga sér fordæmi hér á landi og því má ætla að sú staða geti komið upp að eftir gildistöku frumvarpsins þurfi að skýra ákvæði laganna betur í reglugerð en gert er í frumvarpinu sjálfu.

Um 37. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 38. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að kveðið verði á um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, og lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, en breytingarnar þykja nauðsynlegar í ljósi efnis frumvarps þessa.
    Í 1. tölul. ákvæðisins er gert ráð fyrir breytingum á lögum um fæðingar- og foreldraorlof þannig að ekki verði lengur í þeim lögum kveðið á um rétt foreldra við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Er það lagt til þar sem að í frumvarpi þessu er kveðið á um rétt til sorgaleyfis vegna andvanafæðingar og fósturláts, sbr. 8. gr.
    Í 2. tölul. ákvæðisins er gert ráð fyrir breytingum á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, þannig að ekki verði lengur um að ræða greiðslur til foreldra á grundvelli þeirra laga eftir að barn andast enda gerir frumvarp þetta ráð fyrir að foreldrar geti átt rétt til sorgarleyfis í slíkum tilvikum.