Ferill 670. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1203  —  670. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um skráningu kyns í vegabréfum.

     1.      Þekkir ráðuneytið dæmi þess að fólk með hlutlausa skráningu kyns í vegabréfi verði fyrir áreitni eða fordómum, sé tafið, meinað um byrðingu eða lendi í öðrum vandræðum í tengslum við kynskráningu á ferðalögum?
    Heimild til kynhlutlausrar skráningar, sbr. lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, felur í sér viðurkenningu á því að ekki falla allir einstaklingar undir tvískiptingu í kven- og karlkyn. Samkvæmt 6. gr. laganna er sú skylda lögð á alla þá sem skrá kyn einstaklinga, hvort sem það eru opinberir aðilar eða einkaaðilar, að þeir sjái til þess að þessi möguleiki sé fyrir hendi. Þetta getur m.a. átt við um skilríki hvers konar, eyðublöð og gagnasöfn. Kynhlutlaus skráning skal táknuð með óyggjandi hætti og í vegabréfum skal hún ávallt táknuð með bókstafnum X. Tekið er fram í athugasemdum með 6. gr. laganna að nokkur ríki geri þegar ráð fyrir kynhlutlausri skráningu þar sem táknið X er notað í stað kven- eða karlkyns. Þetta á t.d. við um Ástralíu, Danmörku, Kanada, Möltu, Nýja-Sjáland, nokkur ríki Bandaríkjanna og Þýskaland.
    Forsætisráðuneytið fer með lög um kynrænt sjálfræði samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Ekkert mál hefur borist til ráðuneytisins um að fólk með hlutlausa skráningu kyns í vegabréfi hafi orðið fyrir áreitni eða fordómum, sé tafið, meinað um byrðingu eða lendi í öðrum vandræðum í tengslum við kynskráningu á ferðalögum.
    Samkvæmt 4. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020, er það hlutverk Jafnréttisstofu að veita ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála. Samkvæmt upplýsingum frá Jafnréttisstofu hefur hvorki formlegt mál verið stofnað í skjalakerfi stofnunarinnar né óformleg fyrirspurn borist um málefnið. Eins hefur ekki verið leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020, með slíkt mál. Eftir því sem ráðuneytið kemst næst hefur ekki verið leitað með slíkt mál til dómstóla. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökunum´78 hefur ekkert slíkt mál komið inn á borð samtakanna enn sem komið er.

     2.      Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða 2. mgr. 6. gr. laga um kynrænt sjálfræði þannig að fólk geti sótt um vegabréf, eða eftir atvikum aukavegabréf, með annarri kynskráningu en skráð er í þjóðskrá, sem nota megi þar sem hlutlaus skráning kyns í vegabréfi geti verið handhafa til ama?
    Forsætisráðuneytið er ávallt vakandi yfir framkvæmd laga um kynrænt sjálfræði og öðrum lögum á sviði jafnréttismála og hugsanlegum vanköntum sem kunna að vera á þeim. Ábendingar geta orðið ráðuneytinu tilefni til umfjöllunar, t.d. á grundvelli þess stefnumótunarhlutverks sem ráðuneytið fer með á þessu sviði og/eða við endurskoðun laga. Ef í ljós kemur að fólk með hlutlausa skráningu kyns þarf á vegabréfi að halda þar sem fram kemur önnur skráning en er í þjóðskrá eða hefur þörf á aukavegabréfi til að vera frjálst ferða sinna verður það tekið til sérstakrar skoðunar í ráðuneytinu.
    Fyrir Alþingi er nú til meðferðar frumvarp forsætisráðherra um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 (fjölgun mismununarþátta), þingskjal 170, 168. mál. Þau lög lúta að jafnri meðferð á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við mismununarþáttunum kynvitund, kyneinkenni og kyntjáningu. Samþykkt frumvarpsins myndi styrkja rétt einstaklinga gegn mismunun í þeim tilvikum sem spurt er um.