Ferill 681. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1403  —  681. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun á umsókn sinni og bíða flutnings.


     1.      Hversu margir einstaklingar, sem hafa fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, bíða flutnings úr landi? Óskað er eftir sundurliðun með tilliti til þess hvort umsækjendur eru börn eða fullorðnir, eftir ríki sem til stendur að flytja viðkomandi til, ástæðu þess að flutningur hefur ekki farið fram og fjölda mánaða sem liðnir eru frá því að lokaákvörðun um synjun um vernd var birt.
    Hinn 1. júní 2022 voru 169 einstaklingar sem biðu frávísunar eða brottvísunar, þar af 22 börn. Af þessum 169 hafa 147 fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, þar af 20 börn. Hér á eftir er listi yfir þau ríki sem til stendur að flytja umrædda 147 einstaklinga til. Vegna persónuverndarsjónarmiða eru ekki veittar nákvæmari tölur þegar fimm eða færri einstaklingar bíða flutnings til ákveðins ríkis.

Móttökuríki Fjöldi
Grikkland 36
Nígería 26
Írak 12
Ungverjaland 12
Pakistan 6
Gínea 6
Ítalía 6
Albanía 5
Alsír 5
Aserbaísjan 5
Austurríki 5
Bosnía og Hersegóvína 5
Egyptaland 5
Eþíópía 5
Fílabeinsströndin 5
Frakkland 5
Gambía 5
Gana 5
Georgía 5
Hvíta-Rússland 5
Kólumbía 5
Líbanon 5
Makedónía 5
Marokkó 5
Pólland 5
Rússland 5
Serbía 5
Síle 5
Súdan 5
Tékkland 5
Túnis 5
Venesúela 5
147

    Hér á eftir er tafla yfir fjölda mánaða sem liðnir eru frá því að lokaákvörðun um synjun um alþjóðlega vernd var birt.

Tímalengd Fjöldi
Skemur en 6 mánuðir 17
6–12 mánuðir 59
13–18 mánuðir 32
19–24 mánuðir 16
2–3 ár 14
3–4 ár 8
Meira en 4 ár 1
147

    Áréttað er að grunnforsenda þess að ekki tekst að flytja einstakling úr landi er skortur á samvinnu af hálfu viðkomandi, enda geta allir einstaklingar sem fengið hafa synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, að undanskildum málum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, farið sjálfviljugir af landi brott. Við sjálfviljuga heimför eiga þeir rétt á margvíslegri aðstoð, svo sem greiðslu fargjalds, auk þess sem sumir þeirra geta sótt um að fá enduraðlögunarstyrki greidda í samræmi við reglugerð nr. 961/2018 um enduraðlögunarstyrk og ferðastyrk til umsækjenda um alþjóðlega vernd. Slíkir styrkir eiga að stuðla að árangursríkri enduraðlögun einstaklingsins í heimaríki og styðja viðkomandi við að koma þar undir sig fótunum á nýjan leik. Enduraðlögunarstyrkur getur t.d. nýst í húsaleigu, nám, atvinnu eða önnur verkefni í samstarfi við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (International Organization for Migration) eða önnur sambærileg samtök. Samkvæmt reglugerðinni geta enduraðlögunarstyrkir numið allt að 3.000 evrum til hvers einstaklings (um 410 þús. kr.).
    Í þeim tilvikum þegar einstaklingur í þessari stöðu neitar að fara sjálfviljugur af landi brott geta þó komið upp aðstæður sem tefja flutning viðkomandi í fylgd lögreglu. Má hér m.a. nefna skilyrði sem ríki setja vegna Covid-19, erfiðleika við að fá útgefin ferðaskilríki fyrir þvingaða flutninga eða vegna þess að ríki hafa beðið um tímabundna stöðvun flutninga í fylgd vegna álags í kjölfar stríðsátakanna í Úkraínu. Ítrekað er þó að umræddir einstaklingar geta farið sjálfviljugir til þessara ríkja.

     2.      Hversu margir þessara einstaklinga hafa fengið útgefið bráðabirgðadvalarleyfi á grundvelli 77. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016?
    Hinn 1. júní sl. höfðu tíu af umræddum 147 einstaklingum fengið útgefið bráðabirgðadvalarleyfi en sex fengið synjun á umsókn um slíkt leyfi.

     3.      Er einhver vinna hafin í ráðuneytinu við að finna varanlega lausn fyrir einstaklinga sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd en ekki er unnt að flytja úr landi, svo sem vegna skilyrða móttökuríkis um að flutningur sé ekki gegn vilja viðkomandi?
    Engin sérstök vinna er í gangi í ráðuneytinu við að finna „varanlega lausn“ fyrir einstaklinga sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd en ekki er unnt að flytja úr landi.
    Í þessu samhengi áréttar ráðuneytið að samkvæmt lögum um útlendinga er það á ábyrgð Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála að meta hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi rétt á vernd hér á landi, og þannig áframhaldandi dvöl, eða hvort vísa eigi honum úr landi. Við rannsókn þeirra er litið til frásagnar umsækjanda, gagna sem hann leggur fram og til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í uppruna- eða viðtökuríki hans, t.d. skýrslur og gögn alþjóðlegra samtaka, frjálsra félagasamtaka og annarra ríkja. Öll mál þeirra útlendinga sem stendur til að frávísa hafa því verið skoðuð og metin á einstaklingsbundnum grundvelli með tilliti til sérstakra aðstæðna hvers og eins. Í þeirri málsmeðferð hafa allir umsækjendur notið þjónustu löglærðs talsmanns á báðum stjórnsýslustigum. Þá hafa sumir þeirra jafnframt fengið úrlausn sinna mála hjá dómstólum.
    Frá endanlegri niðurstöðu í málum þessara einstaklinga hefur legið fyrir að þeir eiga að yfirgefa landið. Þá hefur þeim staðið til boða að fara sjálfviljugir úr landi og, eins og að framan greinir, með aðstoð stjórnvalda en hafa neitað slíku samstarfi. Að þessu virtu telur ráðuneytið ekki forsvaranlegt að einstaklingar í þessari stöðu hljóti „varanlega lausn“ að ákveðnum tíma liðnum.