Ferill 736. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1418  —  736. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

     1.      Hvers vegna eru úrskurðir úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki ekki bindandi eins og t.d. úrskurðir kærunefndar húsamála í húsaleigumálum og hvers vegna kallast þeir þá úrskurðir en ekki álit?
    Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og aðra veitendur fjármálaþjónustu er viðurkenndur úrskurðaraðili samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019. Hvorki lögin né reglugerð nr. 900/2019, um viðurkenningu frjálsra úrskurðaraðila á sviði neytendamála, gera kröfu um að úrlausnir úrskurðaraðila séu bindandi eða að úrlausnir beri tiltekið heiti. Það er á forræði þeirra aðila sem stofna til úrskurðaraðilans með samningi að ákveða hver réttaráhrif og heiti úrlausna séu að því tilskildu að úrskurðaraðilinn uppfylli skilyrði laganna og reglna settra samkvæmt þeim.
    Samkvæmt 11. gr. samþykkta úrskurðarnefndarinnar skuldbindur seljandi sig til að fylgja úrskurðum nefndarinnar og greiða hugsanlegar fjárkröfur, hafi úrskurður nefndarinnar kveðið á um greiðsluskyldu, innan fjögurra vikna frá úrskurðardegi. Úrskurður takmarkar þó ekki rétt aðila til að leita beint til dómstóla. Hafi úrskurður nefndarinnar veruleg útgjöld í för með sér fyrir viðkomandi seljanda eða fordæmisgildi er seljanda heimilt að tilkynna nefndinni og viðkomandi viðskiptamanni að seljandi sætti sig ekki við úrskurðinn og muni ekki fara eftir úrskurðarorði nema að undangengnum dómi. Komi til þess skal seljandi tilkynna um þá afstöðu innan fjögurra vikna frá úrskurðardegi.

     2.      Fellur úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki undir stjórnsýslulög?
    Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og aðra veitendur fjármálaþjónustu er ekki stjórnvald og fellur ekki undir stjórnsýslulög, nr. 37/1993.

     3.      Á hvaða forsendum er skipað í úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki?
    Í 8. gr. reglugerðar nr. 900/2019 segir að úrskurðaraðili skuli skipaður formanni og nefndarmönnum sem tilnefndir eru af þeim aðilum sem stofnað hafa úrskurðaraðila með samningi. Varamenn nefndarinnar skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Hlutfall nefndarmanna sem tilnefndir eru af samtökum á sviði atvinnulífs og samtaka neytenda skal vera jafnt. Formaður úrskurðaraðila skal hafa lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla og búa yfir nauðsynlegri þekkingu og færni á sviði lausnar deilumála neytenda, innan eða utan dómstóla. Nefndarmenn úrskurðaraðila skulu búa yfir nauðsynlegri þekkingu og færni á sviði lausnar deilumála neytenda, innan eða utan dómstóla, sem og almennri þekkingu á lögum. Í 12. gr. reglugerðarinnar segir jafnframt að nefndarmenn, starfsmenn og kunnáttumenn úrskurðaraðila skuli vera skipaðir til minnst þriggja ára í senn og ekki skuli vera hægt að víkja þeim úr starfi án gildrar ástæðu, ekki fá nein fyrirmæli frá málsaðilum eða fulltrúum þeirra og fá laun á þann hátt að það tengist ekki niðurstöðu málsmeðferðarinnar.
     4.      Telur ráðherra koma til greina að endurskoða fyrirkomulag úrskurðaraðila um ágreining viðskiptavina við fjármálafyrirtæki og aðrar lánastofnanir í því skyni að veita neytendum úrræði til að leita bindandi úrlausnar utan dómstóla?
    Með lögum um breytingu á ýmsum lögum er varða úrskurðaraðila á sviði neytendamála (einföldun úrskurðarnefnda), nr. 19/2021, voru lagaákvæði um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki (lögbundna nefndin) afnumin og þar með skylduaðild fjármálafyrirtækja að þeirri nefnd. Fól breytingin í sér að í stað þeirrar nefndar gætu neytendur leitað til þess úrskurðaraðila sem væri bær til að taka ágreining neytenda til meðferðar samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019. Menningar- og viðskiptaráðherra hefur viðurkennt úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og aðra veitendur fjármálaþjónustu (frjálsa viðurkennda nefndin) samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019.
    Fjármála- og efnahagsráðherra fer með mál er varða fjármálamarkað, lagaumgjörð og eftirlit, þ.m.t. fjármálafyrirtæki. Fjármála- og efnahagsráðherra færi því með endurskoðun á fyrirkomulagi úrskurðaraðila um ágreining viðskiptavina við fjármálafyrirtæki og aðrar lánastofnanir. Eftir atvikum væri unnt að kveða á um slíkan úrskurðaraðila með lögum. Lög um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, gera enda ráð fyrir að lögbundnum úrskurðaraðilum sé ekki skylt að sækja um viðurkenningu ráðherra, sbr. 9. gr. laganna.