Ferill 698. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1422  —  698. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Þorgrími Sigmundssyni um deiliskipulag innan flugvallargirðingar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað er því til fyrirstöðu að Isavia, sem rekstraraðili innanlandsflugvalla, geri tillögu að breytingu á deiliskipulagi innan flugvallargirðingar og sendi Skipulagsstofnun til afgreiðslu, skipt eftir flugvöllum?

    Sveitarstjórnir annast gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Sérstakar reglur gilda um skipulagsgerð á flugvallarsvæði Keflavíkurflugvallar þar sem sérstök skipulagsnefnd, skipuð fulltrúum ráðherra og viðkomandi sveitarfélaga, fer með skipulagsvaldið, sbr. 8. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., nr. 76/2008, með síðari breytingum. Isavia fer því hvorki með skipulagsvald innan flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar né annarra flugvalla hér á landi.
    Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga getur sveitarstjórn veitt landeiganda eða framkvæmdaraðila heimild til að vinna að gerð deiliskipulags. Isavia ohf. getur því leitað eftir slíkri heimild til deiliskipulagsgerðar frá viðkomandi sveitarfélagi. Þá annast Isavia gerð deiliskipulagstillagna á Keflavíkurflugvelli, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 76/2008. Afgreiðsla slíkra tillagna er hins vegar eftir sem áður á hendi viðkomandi sveitarstjórnar eða eftir atvikum skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar samkvæmt framangreindum lögum.