Ferill 669. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1427  —  669. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um brot gegn áfengislögum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hyggst ráðherra bregðast við því að áfengi sé selt innan lands í vefverslunum einkaaðila þrátt fyrir einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til smásölu áfengis, sbr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011? Ef svo er, hvernig?

    Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 6/2022 heyra annars vegar áfengislög, nr. 75/1998, undir dómsmálaráðuneytið og hins vegar lög um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, og málefni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þá heyra jafnframt málefni áfengis- og vímuvarna undir heilbrigðisráðuneytið.
    Lög um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, hafa ákveðna samsvörun við áfengislög, nr. 75/1998. Í 2. mgr. 4. laga um verslun með áfengi og tóbak er kveðið á um að ÁTVR skuli haga starfsemi sinni í samræmi við áfengislög, tóbaksvarnalög og stefnu stjórnvalda hverju sinni. Í 1. mgr. 10. gr. áfengislaga er kveðið á um það að ÁTVR hafi einkaleyfi til smásölu áfengis. Einkaleyfi til smásölu er síðan áréttað í 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak með vísan í áfengislögin. Ef breyta ætti því fyrirkomulagi sem í dag gildir um smásölu áfengis þyrfti það fyrst og fremst að eiga sér stoð í breytingu á áfengislögum. Önnur lög þyrftu þá jafnframt að vera uppfærð því til samræmis, þar á meðal lög um verslun með áfengi og tóbak.
    Viðbrögð við álitamálum varðandi einkaleyfi ÁTVR eða lögfesting á heimild til reksturs innlendra vefverslana með áfengi í smásölu er því á forræði dómsmálaráðuneytisins.