Ferill 616. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1428  —  616. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um aðgerðir í kjölfar snjóflóða á Flateyri.

     1.      Hefur tillögu aðgerðahóps sem skipaður var í kjölfar snjóflóða á Flateyri árið 2020 um að koma á fót byggðaþróunarverkefni í sjávarútvegi í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem þá var, Ísafjarðarbæ og Byggðastofnun verið hrint í framkvæmd? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir því?
    Því sértæka verkefni sem skilgreint var í tillögum aðgerðahópsins hefur ekki verið hrint í framkvæmd sem slíku. Hins vegar er í gildi samkomulag Byggðastofnunar og útgerðar- og fiskvinnsluaðila um aukna byggðafestu á Flateyri á grundvelli 10. gr. a í lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Samkomulagið gildir fyrir fiskveiðiárin 2018/2019–2023/2024 og leggur Byggðastofnun árlega til 400 þorskígildistonn en bolfiskurinn er unninn í vinnslu Íslandssögu á Suðureyri. Samningsaðilar skuldbinda sig á móti til að koma upp veiðum og vinnslu á sæbjúgum og krossfiski og vinnslu afurða úr roði og hryggjum, ásamt sauðfjárhornum, bæði til manneldis og sem gæludýrafóður. Gert er ráð fyrir að um 20 störf skapist eða verði viðhaldið á Flateyri með þessari starfsemi. Með samkomulaginu er því verið að feta sig inn á þá braut sem talað er um í tillögu aðgerðahópsins, að beita sértækri úthlutun aflamarks til að styðja við nýsköpun og atvinnuþróun í öðrum greinum en hefðbundnum sjávarútvegi. Samkvæmt upplýsingum frá samningsaðilum eru nú 25,5 störf við veiðar og vinnslu á Flateyri ásamt því að verkefnið hefur viðhaldið fimm störfum við fiskvinnslu á Suðureyri. Verkefnið stendur því beint að baki rúmlega 30 störfum á atvinnusvæðinu, auk þess að styðja við afleidd störf í ýmiss konar þjónustu.
    Rétt er að taka fram að tillögur sem nefnd þáverandi sjávarútvegsráðherra um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda sem ríkið fer með náðu ekki fram að ganga á Alþingi á síðasta þingi ( sjá þingskjal 625 — 418. mál) 1 en þar var m.a. gert ráð fyrir að taka frá aflaheimildir sem hægt væri að nýta til að bregðast við sérstökum aðstæðum.

     2.      Hefur tillögu aðgerðahópsins um að stofnaður verði sérstakur lánaflokkur á hagstæðum kjörum til framkvæmda og viðhalds á atvinnuhúsnæði í byggðarlögum sem glíma við afleiðingar náttúruhamfara og þar sem ætla má að markaðsbrestur hamli uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og fjármögnun þess verið hrint í framkvæmd? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir því?
    Byggðastofnun bjó til lánaflokk vegna sjávarútvegs í viðkvæmum byggðum sumarið 2020 og var þá ekki síst horft til staða á borð við Flateyri í kjölfar náttúruhamfara. Auk þess fellur Flateyri með almennum hætti að lánastarfsemi Byggðastofnunar. Hefur stofnunin horft með sérstaklega jákvæðum augum á lánsbeiðnir þaðan í kjölfar hamfaranna og hefur þannig veitt þremur fyrirtækjum frá Flateyri lánafyrirgreiðslu frá því að aðgerðaáætlun til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri var samþykkt í ríkisstjórn í apríl 2020.
    Ekki hefur verið útbúinn sérstakur lánaflokkur umfram ofangreint. Ástæðan er sú að ekki hefur fengist vilyrði um að áhættu af slíkum lánaflokki verði mætt með varasjóðsframlagi úr ríkissjóði. Byggðastofnun áætlar að til að mæta áhættu af slíkum lánaflokki þurfi 30% varasjóðsframlag. Að fenginni reynslu telur stofnunin að ekki yrði um mörg lán eða háar fjárhæðir að ræða.

     3.      Hefur tillögu aðgerðahópsins um að komið verði á fót starfshópi um íbúðarhúsnæði á Flateyri verið hrint í framkvæmd? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir því?
    Starfshópur á vegum ráðuneytis félagsmála og Ísafjarðarbæjar um íbúðarhúsnæði á Flateyri hóf störf haustið 2021. Hópurinn hefur ekki skilað af sér tillögum þar sem uppfærslu á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins er ekki lokið en hún er lykilgagn varðandi framtíðarhorfur og áætlanir á svæðinu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur verið í sambandi við sveitarfélagið hvað þetta varðar og er það mat stofnunarinnar að lítið vanti upp á svo að áætlunin geti farið fyrir bæjarstjórn til samþykktar. Starfshópurinn mun skila af sér tillögum að frekari aðgerðum þegar öll gögn liggja fyrir.
    Frá því að starfshópurinn hóf störf hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun úthlutað stofnframlögum til byggingar á 14 stúdentaíbúðum fyrir nemendur við Lýðskólann. Samkvæmt framkvæmdaráætlun umsækjanda er áætlað að íbúðirnar verði tilbúnar undir lok árs 2022. Verkefninu var áfangaskipt þar sem áætlanir eru um að byggja enn fleiri stúdentaíbúðir og losa þar með um þær íbúðir sem skólinn hefur nú til notkunar í bænum.

     4.      Hefur tillögu aðgerðahópsins um að hefja tilraunaverkefni um almenningssamgöngur milli Flateyrar og Ísafjarðar sem byggðist á aðgerð A.10 í byggðaáætlun verið hrint í framkvæmd? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir því?
    Haustið 2020 úthlutaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í fyrsta skipti styrkjum úr samkeppnissjóði til verkefna á sviði almenningssamgangna, sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024 (aðgerð A.10 Almenningssamgöngur um land allt). Þar fékk Vestfjarðastofa tvo styrki vegna verkefna sem tengjast almenningssamgöngum á Flateyri með beinum hætti. Annars vegar fékk verkefnið Efling þjónustu og atvinnusóknar á norðanverðum Vestfjörðum styrk að upphæð 10,6 millj. kr. Verkefnið gengur út á að efla almenningssamgöngur til og frá Flateyri með það að markmiði að bæta þjónustu við íbúa á Flateyri en horfa jafnframt til samlegðaráhrifa fyrir nágrannabyggðarlögin Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Hins vegar var það verkefnið Sambíllinn þar sem veittur var 3 millj. kr. styrkur til að greina möguleika þess að efla almenningssamgöngur með því að nýta þjónustu sem þegar er í boði, svo sem skólaakstur og þjónustuakstur.


1     www.althingi.is/altext/151/s/0625.html