Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 31  —  31. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um tilfærslu dýraeftirlits frá Matvælastofnun til sjálfstæðs dýravelferðarsviðs.


Flm.: Valgerður Árnadóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að undirbúa tilfærslu eftirlits með velferð dýra frá Matvælastofnun til sjálfstæðs dýravelferðarsviðs. Samhliða verði hugað að eftirfarandi aðgerðum til að tryggja dýravelferð:
     a.      Embætti yfirdýralæknis verði eflt þannig að það geti unnið sjálfstætt að eftirliti, fræðslu, gagnaöflun og faglegri stjórnsýslu varðandi dýravelferð.
     b.      Stjórnsýsla dýravelferðar verði óháð stjórnsýslu matvælaöryggis.
     c.      Valdheimildir til að sinna velferð dýra og til að grípa inn í þar sem er brýn nauðsyn verði auknar.
     d.      Úrræði til að bjarga dýrum úr slæmum aðstæðum verði tryggð með fjármagni til að halda úti dýraathvörfum með aðkomu hlutaðeigandi sveitarfélaga.
    Matvælaráðherra hafi í framangreindu skyni samráð við helstu hagsmunasamtök og fagaðila í greininni og leggi eigi síðar en á 154. löggjafarþingi fyrir Alþingi lagafrumvörp til að stuðla að nauðsynlegum breytingum á sviði dýravelferðar í samræmi við ályktun þessa.

Greinargerð.

    Undanfarið hafa komið upp mörg dæmi sem sýna að ekki er hugað nægilega að velferð dýra sem haldin eru eða veidd hér á landi. Þar má einna helst nefna erfið mál sem hafa komið upp við blóðmerahald og hvalveiðar þar sem gögn sýna að dýrin hafa þjáðst að óþörfu. Það er ljóst að eftirliti er verulega ábótavant og valdheimildir til að grípa inn í ekki nægjanlega sterkar. Eftirlit og úrskurðarvald eru á sömu hendi í málaflokknum sem dregur úr nauðsynlegu aðhaldi.
    Þá fara hagsmunir í matvælamálum og dýravernd ekki alltaf saman og skapast hættulegt ójafnvægi þegar annar málaflokkurinn er látinn vega þyngra en hinn. Með tillögu þessari er lagt til að eftirlit með velferð dýra verði fært til sjálfstæðs dýravelferðarsviðs sem getur sinnt yfirumsjón og samræmingu á meðan Matvælastofnun eða annar aðili sér um eftirlit og gagnasöfnun. Nauðsynlegt er að stórefla hlut dýraverndar í stjórnsýslunni. Jafnframt þarf að auka valdheimildir stjórnsýsluaðila til að taka á erfiðum dýravanrækslumálum án tafar. Rétt er við undirbúning tilfærslu dýraeftirlits að athuga hvort færa þurfi embætti yfirdýralæknis að fullu til annars ráðuneytis í þessu skyni og tryggja að embættinu sé skylt og kleift að sinna öllum dýravelferðarmálum jafnt, hvort sem um er að ræða villt dýr, húsdýr eða gæludýr.