Ferill 46. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 46  —  46. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um öruggt farsímasamband á þjóðvegum.


Flm.: Jakob Frímann Magnússon, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Tómas A. Tómasson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson.


    Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að tryggja örugga farnetsþjónustu á þjóðvegum landsins. Við endurnýjun og úthlutun tíðniréttinda verði leitast við að ná samkomulagi við fjarskiptafyrirtæki um uppbyggingu, rekstur og viðhald á fjarskiptainnviðum sem tryggi öruggt farsímasamband á þjóðvegum. Ráðherra upplýsi Alþingi um framgang mála á haustþingi 2023.

Greinargerð.

    Tillaga þessi byggist á frumvarpi sem lagt var fram á 152. löggjafarþingi (43. mál) en náði ekki fram að ganga.
    Ísland er af náttúrunnar hendi erfitt yfirferðar. Jöklar, ár, fjöll og sandar mynda áskoranir sem erfitt er að sigrast á. Aðeins er hálf öld síðan lokið var við gerð hringvegarins. Þá minnir náttúran reglulega á sig með veðurofsa, jarðhræringum og eldsumbrotum með þeim afleiðingum að brýr fljóta í þúsund molum á haf út.
    Nauðsynlegt er að tengja landið með traustum samskiptaleiðum. Það er ekki nóg að byggja upp vegakerfi heldur þarf líka að tryggja fjarskipti á vegum landsins. Það ógnar mjög öryggi vegfarenda þegar ekki er hægt að treysta á fjarskiptasamband. Undanfarna áratugi hafa fjarskipti batnað mjög á landsbyggðinni, en þrátt fyrir það finnast víða gloppur. Tæknin er til staðar til að stoppa upp í götin en því miður hafa bæði stjórnvöld og fjarskiptafyrirtæki dregið lappirnar í þessum efnum.
    Í frumvarpi því sem tillaga þessi byggist á voru lagðar til breytingar á eldri lögum um fjarskipti til að tryggja farsímasamband á þjóðvegum. Með gildistöku nýrra laga um fjarskipti er loks búið að tryggja stjórnvöldum þær lagaheimildir sem þarf til verksins. Nú stendur aðeins eftir framkvæmdin sjálf. Því er lagt til að ráðherra setji það verkefni í forgang að tryggja öruggt farsímasamband á þjóðvegum landsins. Það er afar mikilvægt að þessi áform nái fram að ganga enda um að ræða öryggisatriði sem þolir ekki frekari bið. Í umsögn Dalabyggðar um áðurnefnt frumvarp, sem barst á síðasta löggjafarþingi, kom einmitt fram skýrt dæmi um þann vanda sem nú ríkir, en þar sagði:
    „Þegar þessi umsögn er skrifuð gengur óveður yfir landið með tilheyrandi útköllum viðbragðsaðila. Því miður varð í sveitarfélaginu útkall vegna ökutækis sem var fast á stað þar sem farsímasamband var ekkert. Það vildi til happs að annar vegfarandi kom að og gat leitað í samband til að kalla eftir aðstoð. Endurspegla atvik sem þetta vel þá nauðsyn að tryggja farsímasamband á öllum vegum.“
    Stjórnvöld hafa tólin til verksins og nú ber að láta til skarar skríða. Því er lagt til að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að tryggja örugga farnetsþjónustu á þjóðvegum landsins. Það má gera með því að semja við fjarskiptafyrirtæki um frekari uppbyggingu á fjarskiptainnviðum, viðhald og rekstur þeirra, gegn úthlutunum tíðniréttinda.
    Von flutningsmanna þessarar tillögu er að hægt verði að tryggja fjarskiptaöryggi á þjóðvegum landsins í náinni framtíð.