Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 103  —  103. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (fjárhagsupplýsingar um einstaklinga).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    15. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

    Bann við miðlun upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga.

    Vinnsla upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, þ.m.t. vanskilaskráning og gerð lánshæfismats, í því skyni að miðla þeim til annarra, er bönnuð.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 150. og 152. löggjafarþingi (60. mál) og er nú lagt fram lítillega breytt til einföldunar með hliðsjón af ábendingum í umsögnum Persónuverndar.
    Aðgangur að lánsfjármagni er grunnforsenda þess að fólk geti komið sér úr klóm fátæktarinnar. Ef fólk nær að losna út af leigumarkaðnum og komast í eigin fasteign fær það loks ráðrúm til að ná upp eignarmyndun. Í stað þess að greiða leigu greiðir fólk afborganir af lánum, sem í mörgum tilfellum eru jafnvel lægri en leigugreiðslur fyrir sambærilegt húsnæði. Það eiga þó ekki allir jafn greiðan aðgang að lánsfjármagni.
    Neytendur þurfa að standast lánshæfis- og greiðslumat áður en lánastofnanir veita þeim lán. Greiðslumatið fer þannig fram að lagt er mat á reglulegar tekjur og fyrirhuguð útgjöld lántakanda og áætlað hver greiðslugeta hans er. Lánshæfismatið er m.a. byggt á viðskiptasögu aðila á milli eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust.
    Sífellt berast fréttir af fólki sem getur ekki fengið lán frá lánastofnunum vegna niðurstöðu lánshæfismats. Margir fá synjun um fyrirgreiðslu þrátt fyrir góða greiðslugetu og án þess að lán séu í vanskilum. Fólk fær gjarnan þá skýringu að vegna þess að þriðji aðili hafi gefið því of lága einkunn geti lánastofnunin ekki veitt því lán. Slík einkunnagjöf er svokallað persónusnið. 1 Með því er átt við sjálfvirka vinnslu persónuupplýsinga sem felst í því að nota þær til að meta ákveðna þætti er varða hagi einstaklings, einkum að greina eða spá fyrir um þætti er varða greiðslustöðu hans. Slík persónusnið eiga ekki að leiða til sjálfvirkrar ákvarðanatöku. Því mega lánastofnanir ekki hafna lánveitingu án þess að taka tillit til annarra atriða. Engu að síður hafa slík persónusnið mikið vægi við mat á lánshæfi einstaklings.
    Dæmi eru um að fólk fái lága einkunn í persónusniði vegna þess að það hafi á einhverju tímabili verið á vanskilaskrá. 2 Slíkt er lagt til grundvallar þrátt fyrir ábendingar Neytendasamtakanna um fjölda tilvika þar sem vanskil hafi verið skráð á einstaklinga vegna smálána sem kunni að vera ólögmæt. 3 Gjarnan er það svo að eina vernd neytenda gagnvart lánveitendum er að halda eftir greiðslu telji þeir lánin ólögmæt. Þeir eiga þá á hættu að það hafi áhrif á lánstraust þeirra til frambúðar. Það hefur jafnframt sýnt sig að eitt helsta vopnið í höndum smálánafyrirtækja er að hóta neytendum um vanskilaskráningu greiði þeir ekki umdeildar kröfur. 4 Slíkt er með öllu ótækt. Enn fremur getur það haft neikvæð áhrif á persónusnið ef viðkomandi hefur gengið í gegnum greiðsluaðlögun. 5 Þá eru jafnvel dæmi um að það hafi áhrif á persónusnið hversu oft viðkomandi hefur verið flett upp í vanskilaskrá. 6 Persónuvernd hefur þó úrskurðað að óheimilt sé að ljá því vægi við gerð persónusniðs.
    Það er með öllu ótækt að neytendur geti ekki fengið lán vegna þess að þeir hafi á einhverju tímabili verið með lán í vanskilum. Á því geta verið ýmsar skýringar. Hér má nefna að í efnahagshruninu haustið 2008 hækkuðu skuldir heimilanna verulega. Það hafði þó ekki áhrif á greiðslugetu fólks í mörgum tilvikum. Eflaust lentu þá margir á vanskilaskrá án þess að reglulegar tekjur þeirra hefðu skerst. Í kjölfarið kom í ljós að stór hluti lánanna, gengistryggð lán, voru ólögmæt. Þá tók Alþingi þá ákvörðun að leiðrétta skuldir heimilanna nokkrum árum síðar. Íslendingar ættu því að þekkja það þjóða best að vanskil eru ekki endilega einstaklingnum að kenna. Þau ættu því ekki að elta fólk til grafar löngu eftir afskráningu.
    Vinnsla á fjárhagsupplýsingum einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra fellur undir lög um persónuvernd. Í 15. gr. þeirra er fjallað um heimild til slíkrar vinnslu en þar segir að hún sé starfsleyfisskyld. Lagt er til að slík vinnsla verði bönnuð. Þannig verður girt fyrir að þriðji aðili geti haft úrslitaáhrif á möguleika neytenda til að taka lán.
    Aðeins eitt fyrirtæki hefur í dag leyfi til slíkrar vinnslu, Creditinfo Lánstraust hf. Verði frumvarp þetta að lögum mun fyrirtækið þurfa að láta af þeirri starfsemi sinni sem snýr að vinnslu fjárhagsupplýsinga um einstaklinga í því skyni að miðla upplýsingum til annarra. Fyrirtækið gæti því ekki lengur miðlað upplýsingum úr vanskilaskrá eða eigin lánshæfismati.
    Eftir sem áður munu lánastofnanir þurfa að uppfylla kröfur laga um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats. Neytendur geta þá treyst því að lánveitandi sjálfur leggi mat á lánshæfi þeirra í stað þess að byggt sé á gögnum frá þriðja aðila.
    Það er von flutningsmanna að í kjölfarið muni fækka þeim tilfellum þar sem neytendum er vísað á dyr vegna niðurstöðu lánshæfismats sem byggist á upplýsingum sem gefa ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu þeirra.

1     Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2020010592.
2     Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2020010592, máli nr. 2020010678.
3     Viðskiptablaðið, 24. júní 2020. „Virkar sem svipa á lántakendur.“
4     Neytendasamtökin. „Áskorun til Almennrar innheimtu ehf.“
5     Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 1524/2014.
6     Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2020010592.