Ferill 215. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
2. uppprentun.

Þingskjal 216  —  215. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.


Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason, Ásmundur Friðriksson, Diljá Mist Einarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Njáll Trausti Friðbertsson.


    Alþingi ályktar að rangt hafi verið að leggja fram tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum, sbr. 706. mál á 138. löggjafarþingi, sem samþykkt var að hluta sem þingsályktun nr. 30/138 hinn 28. september 2010. Viðkomandi ráðherrar verðskuldi afsökunarbeiðni vegna þessa.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er flutt í fjórða sinn. Hún var áður flutt á 151. löggjafarþingi (357. mál) en náði ekki fram að ganga. Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að rangt hafi verið að leggja til málshöfðun á hendur ráðherrum vegna pólitískra aðgerða eða aðgerðaleysis, sbr. tillögu til þingsályktunar á 138. löggjafarþingi (þskj. 1502, 706. mál), að ranglega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslu um tillöguna og að rangt hafi verið að samþykkja hana. Alþingi álykti enn fremur að þeir fyrrverandi ráðherrar sem upphaflega þingsályktunartillagan beindist gegn, og sá ráðherra sem loks var ákveðið að höfða mál gegn, sbr. þingsályktun nr. 30/138, verðskuldi afsökunarbeiðni frá hlutaðeigandi aðilum.
    Flutningsmenn benda á eftirfarandi:
     1.      Niðurstaða landsdóms sýnir að ekki var tilefni til ákæru.
     2.      Ekki hefur verið gætt samræmis við beitingu laga um landsdóm þar eð lögunum hefur ekki verið beitt í öðrum tilvikum er varða stjórnmálalegar ákvarðanir og aðgerðir sem stefnt hafa hagsmunum ríkisins í hættu.
     3.      Atkvæðagreiðsla um málshöfðun bar merki þess að niðurstaða um það hverja skyldi ákæra hefði annaðhvort verið tilviljanakennd eða skipulögð eftir flokkspólitískum línum. Mikilvægt er að árétta að dómsvaldi megi aldrei beita í pólitískum tilgangi.
     4.      Lýðræðislegu stjórnarfari landsins stendur ógn af því ef reynt er að fá starfandi eða fyrrverandi stjórnmálamenn dæmda til fangelsisvistar vegna pólitískra aðgerða eða aðgerðaleysis án þess að um hafi verið að ræða ásetning um brot. Ýmsar stjórnmálalegar stefnur og ákvarðanir, eða aðgerðaleysi, geta verið skaðlegar hagsmunum ríkisins án þess að ætlunin hafi verið að valda tjóni. Slíkt álitamál ber að leiða til lykta í kosningum en ekki fyrir dómstólum.