Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 501  —  331. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um meðferð vegna átröskunar.


     1.      Til hvaða aðgerða ætla stjórnvöld að grípa til að stytta biðlistann eftir þjónustu hjá átröskunarteymi Landspítalans?
    Átröskunarteymi geðþjónustu Landspítala fékk aukafjárveitingu haustið 2021 í þeim tilgangi að framkvæma átaksverkefni en markmið þess var að stytta biðtíma og vinna niður biðlista átröskunarteymis. Áður en styrkurinn var veittur var biðtími eftir þjónustu teymisins um 20 mánuðir og var fjöldi á biðlista um 100 einstaklingar. Með þessu fjármagni var hægt að tryggja nauðsynlega þverfaglega mönnun og þannig auka þjónustu teymisins og vinna niður biðlistann jafnt og þétt. Í október 2022 var biðtími 3–4 mánuðir og 16 einstaklingar á biðlista. Mikilvægt er að hafa í huga að inntaka fer eftir forgangi sem byggist á alvarleika sjúkdóms og eru því sumir einstaklingar teknir fyrirvaralaust í þjónustu teymisins. Leita þarf leiða til að styðja við áströskunarteymi geðþjónustu Landspítala þannig að greitt og tímabært aðgengi að meðferð á vegum teymisins haldist.

     2.      Hefur verið gerð þarfagreining á því hversu mörg legupláss þurfa að vera til staðar fyrir þá einstaklinga sem þurfa á innlögn að halda vegna átröskunar? Ef svo er, hver er áætlaður fjöldi leguplássa sem þörf er á?
    Byggt á reynslu geðþjónustu Landspítala síðastliðin ár þá er fullnægjandi að starfrækja eitt endurhæfingarlegupláss sem nýtt er fyrir einstaklinga sem eru með alvarleg einkenni átröskunar og eru tilbúnir til að hefja meðferð/endurhæfingu. Vert er að taka fram að víðtækt umbótastarf hefur verið unnið undanfarin ár með það markmið að efla og þróa meðferð geðþjónustu Landspítala fyrir fólk með átraskanir. Umbæturnar hafa meðal annars leitt til öflugs og þétts samstarfs milli átröskunarteymis og geðendurhæfingardeildar en báðar þjónustueiningar eru staðsettar á Kleppi. Samvinnan hófst í janúar 2021 og áhersla er lögð á að veita kjarnaþjónustu á dag- eða göngudeild, en ef vandi sjúklings er þess eðlis að innlögn er nauðsynlegur liður í meðferð er hún skipulögð vandlega í samráði við notanda og fer fram á geðendurhæfingardeild. Þverfaglegur hópur meðferðaraðila í átröskunarteymi vinnur meðferðaráætlun í samvinnu við þverfaglegt teymi legudeildar meðan á legu stendur. Þannig er hægt að tryggja samfellu í meðferð og stuðla að því að þjónustustig notanda sé í samræmi við þarfir á hverjum tímapunkti. Frá janúar 2021 hefur þetta skilgreinda legurými ekki verið fullnýtt alla daga ársins. Ef notandi þarf bráðainnlögn vegna átröskunar er hann lagður inn á móttökudeild geðþjónustu á Hringbraut og er þá samvinna móttökudeildar og átröskunarteymis tryggð og teymið tekur beint við meðferð notandans þegar bráðalegu lýkur.

     3.      Hversu mörg legupláss standa einstaklingum til boða sem þurfa á innlögn að halda vegna átröskunar?
    Eitt meðferðarlegupláss á geðendurhæfingardeild á Kleppi er ætlað notanda með átröskunarvanda. Einnig er bráðaþjónusta á móttökulegudeild til staðar fyrir notendur með bráðan og alvarlegan vanda.

     4.      Stendur til að efla þá þjónustu sem stendur til boða fyrir einstaklinga með átröskun?     
    Geðþjónusta Landspítala er stöðugt að leita leiða til að efla þjónustu við einstaklinga með átröskun. Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst þróunarstarf í samræmi við nýjustu vísindalegu þekkingu og reynslu erlendis. Í þróunarstarfi teymisins er lögð áhersla á fjögur meginatriði:
          Tryggja að notendur fái tækifæri til að koma sínu áliti og óskum á framfæri, t.d. í formi þjónustukannana.
          Fylgjast náið með nýjustu vísindum, árangursmeta meðferð og vinna með erlendum sérfræðingum að þróun meðferðar.
          Tryggja nýjum starfsmönnum góða þjálfun og aðgengi að símenntun. Þjálfun nýrra starfsmanna er umfangsmikil og það tekur að minnsta kosti eitt ár að ná góðri færni en mörg ár að öðlast sérþekkingu. Teymið er því viðkvæmt fyrir öllum mannabreytingum og geta slíkar breytingar haft veruleg áhrif á biðlista.
          Stöðug endurskoðun á verklagi og ferlum og innleiðing/þróun á stafrænum lausnum.