Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 561  —  478. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um hringtengingu vega í Skagafirði.


Flm.: Högni Elfar Gylfason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að láta Vegagerðina gera áætlun um tengingu Skagafjarðarvegar, nr. 752, við þjóðveg nr. 1 með gerð vegar og brúar yfir Héraðsvötn hjá Flatatungu í Skagafirði.

Greinargerð.


    Á 118. löggjafarþingi lagði Stefán Guðmundsson fram tillögu (272. mál) um sams konar vegtengingu og hér er lögð til, en málið náði ekki fram að ganga. Öll rök sem fram voru lögð þá eiga jafn vel við í dag. Í áratugi hefur vegtenging milli þjóðvegar nr. 1 og innanverðs Lýtingsstaðahrepps hins forna verið í umræðunni.
    Nú nýverið sameinuðust Akrahreppur og Sveitarfélagið Skagafjörður. Því er enn brýnna en áður að bæta innri tengingu sveitarfélagsins með þeirri vegtengingu sem lögð er til. Þjónusta af öllu tagi, jafnt við íbúa, fyrirtæki sem ferðamenn, myndi stórbatna ásamt því að aukið öryggi fylgir tengingunni þar sem aðeins er ein akstursleið af svæðinu á vetrum og má því lítið út af bera við núverandi aðstæður. Þá styttist til muna leiðin á Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem íbúar svæðisins sækja sérhæfða heilbrigðisþjónustu, sem áður var veitt á Heilsugæslu HSN á Sauðárkróki, svo sem fæðingarþjónustu.
    Þessi framkvæmd þarf að fara hið fyrsta í hönnunarferli svo hægt sé að fara í útboð og framkvæmdir.