Ferill 369. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 862  —  369. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur um greiðslur til fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.


     1.      Hversu mikið hafa ríki og sveitarfélög greitt fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu sem rekin eru í hagnaðarskyni fyrir þjónustu sína, sundurliðað eftir fyrirtækjum og árum á tímabilinu 2012–2022?
    Síðar í fyrirspurn þingmanns er óskað eftir upplýsingum um arðgreiðslur og af þeim sökum er svar þetta afmarkað við þau félagaform sem ber að birta ársreikninga, þ.e. hlutafélög og einkahlutafélög. Í meðfylgjandi fylgiskjali er að finna yfirlit yfir fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem eru rekin í atvinnuskyni og greiðslur til þeirra á tímabilinu 2012–2022. Umrædd fyrirtæki eru öll með samning við Sjúkratryggingar Íslands um kaup á heilbrigðisþjónustu. Í yfirlitinu er hins vegar ekki að finna þjónustuveitendur sem reka fyrirtæki sín sem sameignarfélag (sf.) eða samlagsfélag (slf.) en þar undir falla m.a. fyrirtæki lækna, sjúkraþjálfara, tannlækna og talmeinafræðinga. Fjöldi þeirra fyrirtækja skiptir hundruðum. Sjúkratryggingar Íslands greiða greiðslur til umræddra fyrirtækja fyrir veitingu heilbrigðisþjónustu, ýmist á grundvelli samnings eða á grundvelli reglugerðar og gjaldskrár vegna yfirstandandi samningsleysis.
    Heilbrigðisráðuneytið er ekki með upplýsingar um greiðslur sveitarfélaga til umræddra aðila, enda búa undirstofnanir ráðuneytisins ekki yfir slíkum upplýsingum. Sveitarfélög falla undir málefnasvið innviðaráðuneytisins.

     2.      Hversu háar arðgreiðslur hafa fyrrgreind fyrirtæki greitt sér á framangreindu tímabili, sundurliðað eftir fyrirtækjum og árum?
    Í töflunni að neðan koma fram upplýsingar um arðgreiðslur fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Er taflan sundurliðuð eftir rekstrarári, fjölda fyrirtækja sem greiddu arð og heildarfjárhæð greidds arðs á rekstrarárinu. Skatturinn er bundinn trúnaði um upplýsingar sem koma fram í skattframtölum rekstraraðila og því getur ráðuneytið ekki orðið við beiðni um upplýsingar um arðgreiðslur einstakra fyrirtækja.

Rekstrarár

Fjöldi sem greiddi arð

Greiddur arður (kr.)

2012 22 236.777.023
2013 23 327.329.027
2014 23 237.115.911
2015 23 416.950.513
2016 25 492.800.000
2017 27 378.749.999
2018 33 462.900.000
2019 33 1.450.849.029
2020 29 1.306.000.000
2021 24 349.000.000

    Þess ber að geta að í samningum um rekstur einkarekinna heilsugæslustöðva er lagt bann við arðgreiðslum. Slíkt bann er ekki að finna í öðrum samningum um veitingu heilbrigðisþjónustu.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að takmarka arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu?
    Mikilvægt er að sjúkratryggðum sé tryggð heilbrigðisþjónusta sem er bæði rekstrar- og þjóðhagslega hagkvæm og af eins miklum gæðum og hægt er á hverjum tíma.
    Eins og vikið er að hér að framan er að finna arðgreiðslubann í einni tegund samninga sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert. Að semja um slíkt byggist á vilja samningsaðila til að gangast undir slík skilyrði.
    Jafnframt er rétt að benda á að Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir ýmsa heilbrigðisþjónustu þar sem samningar eru ekki fyrirliggjandi, þ.e. greiða skv. gjaldskrá og reglugerð, og í þeim tilvikum hefur ríkið ekki heimild til að takmarka arðgreiðslur.

Fylgiskjal I:
www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0862-f_I.pdf