Ferill 647. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1017  —  647. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2022.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með rúmlega 460 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki.
    Innrás Rússlands í Úkraínu var í brennidepli í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og var fjallað um hana á öllum fundum. EFTA-ríkin fordæmdu innrásina harðlega, tóku þátt í þvingunaraðgerðum ESB gagnvart Rússlandi, tóku á móti þúsundum flóttamanna og veittu öfluga mannúðar- og neyðaraðstoð. Í apríl fundaði framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA með Vsjevolod Tsjentsov, sendiherra Úkraínu gagnvart ESB. Hann lagði áherslu á að ef Rússar kæmust upp með að knésetja Úkraínu væri einungis tímaspursmál hvenær þrýst yrði á landamæri annarra Austur-Evrópuríkja. Sendiherrann hvatti til harðari þvingunaraðgerða, m.a. til þess að allar rússneskar fjármálastofnanir yrðu útilokaðar frá SWIFT-kerfinu, og til aukins stuðnings við Úkraínu. Þá lagði sendiherrann áherslu á að stríðsglæpir Rússa yrðu rannsakaðir til hlítar með aðstoð Vesturlanda og að hinir ábyrgu svöruðu til saka fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólnum. Loks hvatti hann til þess að ríki Evrópu opnuðu markaði sína í auknum mæli fyrir úkraínskum vörum og hvatti til afnáms tolla og viðskiptahindrana. Í maí ávarpaði Vadym Halajtsjúk, varaformaður Evrópunefndar úkraínska þingsins, fund þingmannanefndar EES. Halajtsjúk lagði í máli sínu áherslu á að Úkraínumenn berðust ekki einungis fyrir land sitt heldur samevrópsk gildi og menningu gegn rússneskri útþenslustefnu sem Georgía hefði orðið fyrir árið 2008 og Úkraína allt frá innlimun Krímskaga árið 2014. Stjórnvöld í Úkraínu biðluðu til Vesturlanda um aukinn fjárstuðning og betri og öflugri vopn til þess að geta unnið stríðið svo að fleiri Austur-Evrópuríki sem landamæri ættu að Rússlandi þyrftu ekki að verjast innrásum. Jafnframt væru Vesturlönd hvött til að herða þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi, m.a. með skilyrðislausu banni á allan innflutning á olíu og gasi. Á síðari fundum þingmannanefndar EFTA var rætt um möguleika á uppfærslu á fríverslunarsamningi EFTA og Úkraínu til þess að greiða fyrir innflutningi á úkraínskum vörum. Þess skal getið að Ísland afnam einhliða alla tolla af úkraínskum vörum í eitt ár í júní 2022.
    Þá voru orkumál í Evrópu ítrekað til umfjöllunar á vettvangi þingmannanefnda EFTA og EES en stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á orkuframboð, orkuverð og orkuöryggi í álfunni. Farið var yfir svokallaða „RePowerEU“-áætlun um að leita nýrra orkugjafa og orkubirgja svo að Evrópa verði ekki háð kaupum á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Þannig væri jafnframt komið í veg fyrir að Rússland gæti notað orku sem vopn til þess að sundra einingu Evrópuríkja þegar kæmi að stuðningi við Úkraínu. Áhersla var lögð á nauðsyn þess að vinna hraðar að orkuskiptum í græna orkugjafa. Slík skipti væru ekki einungis umhverfisvæn og ynnu gegn loftslagsbreytingum heldur myndu þau einnig auka orkuöryggi. Þá var farið yfir aðgerðir Norðmanna til að auka orkuframleiðslu og útflutning til meginlands Evrópu og nána samvinnu norskra stjórnvalda við framkvæmdastjórn ESB í þessu skyni.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. Fríverslunarsamningar fela í sér lækkun tolla og aukinn fyrirsjáanleika í alþjóðaviðskiptum, t.d. með ákvæðum um upprunareglur og takmörkunum á beitingu tæknilegra viðskiptahindrana. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 29 talsins og taka til 40 ríkja. Samanlagt eru þessi fríverslunarsamstarfsríki næststærsti útflutningsmarkaður EFTA á eftir ESB með 12% hlutdeild í vöruútflutningi EFTA. EFTA á nú í fríverslunarviðræðum við Indland, Malasíu, Moldóvu, Kósovó og Víetnam. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna slíka samninga og afla stuðnings við gerð þeirra. Farið var í slíka heimsókn til Taílands í september 2022 þar sem sendinefnd EFTA-þingmanna átti fundi með þingnefndum, ráðherrum, stofnunum og hagsmunaaðilum um aukið efnahagslegt samstarf í ljósi þess að fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Taílands hófust að nýju eftir hlé í júní.
    Af öðrum málum sem voru á dagskrá þingmannanefnda EFTA og EES má að lokum nefna málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, viðskiptastefnu ESB, stöðu EES-samstarfsins, samband Sviss og ESB, loftslagsmál, netöryggismál, öryggi fjarskiptakerfa og samevrópskan heilbrigðisgagnagrunn.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA, þingmannanefnd EES og sameiginlega þingmannanefnd Íslands og ESB.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja fundi sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Ísland á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum á ári og tvisvar fundar hún með ráðherraráði EFTA og utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, auk þess sem hún fjallar um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er nefndin hluti af stofnanakerfi samningsins. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem eiga aðild að EES (EFTA-hluta sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA- og EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB.
    Sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins var komið á fót í október 2010 og er hún skipuð níu þingmönnum frá Evrópuþinginu og níu alþingismönnum. Af hálfu Alþingis sitja fimm nefndarmenn úr Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES og fjórir nefndarmenn úr utanríkismálanefnd í hinni sameiginlegu þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.
    Þegar sameiginlega þingmannanefndin var stofnuð í tengslum við aðildarviðræður Íslands og ESB leysti hún af hólmi tvíhliða fundi Alþingis og Evrópuþingsins sem haldnir höfðu verið árlega frá árinu 1987. Á fundi nefndarinnar 9. febrúar 2016 var gerð breyting á starfsreglum hennar og vísun í aðildarferlið tekin út. Eftir breytinguna er skilgreint hlutverk nefndarinnar að fjalla um samskipti Íslands og ESB á breiðum grunni.
    Sameiginlega þingmannanefndin kom saman tvisvar á ári framan af, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg. Í kjölfar þess að aðildarviðræðum við ESB var hætt var fundum nefndarinnar fækkað í einn á ári líkt og tíðkaðist fyrir tíma aðildarumsóknar. Sameiginlega þingmannanefndin tekur fyrir einstök málefni sem varða samskipti Íslands og Evrópusambandsins og getur hún sent frá sér tilmæli þeim viðvíkjandi. Tilmæli verða aðeins samþykkt með því að meiri hluti fulltrúa jafnt Evrópuþingsins sem Alþingis veiti þeim stuðning. Tilmælum sameiginlegu þingmannanefndarinnar er beint til Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands. Alla jafna sitja fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Á vettvangi nefndarinnar gefst alþingismönnum því kostur á að eiga formbundnar og milliliðalausar viðræður við Evrópuþingmenn auk fulltrúa framkvæmdastjórnar og ráðs ESB. Nefndin er því mikilvægur vettvangur fyrir alþingismenn til að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Í byrjun árs 2022 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES: Ingibjörg Isaksen, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Viðreisnar, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingflokki Pírata, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og Diljá Mist Einarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Birgir Þórarinsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Gísli Rafn Ólafsson, þingflokki Pírata, Jódís Skúladóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sigmar Guðmundsson, þingflokki Viðreisnar, og Stefán Vagn Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Sú breyting var gerð hinn 18. október að Gísli Rafn Ólafsson, þingflokki Pírata, tók sæti aðalmanns en Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, sama þingflokki, sæti varamanns. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.
    Ingibjörg Isaksen, formaður Íslandsdeildar, gegndi formennsku í bæði þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES á árinu 2022 og stjórnaði öllum fundum þeirra.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA, þingmannanefndar EES og sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB á árinu 2022.
    Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES auk sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð.

Fundur þingmannanefndar EFTA í Brussel 8.–9. febrúar 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Fundurinn var helgaður viðskiptamálum og var m.a. fjallað um starfsemi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, viðskiptastefnu ESB og fríverslunarsamninga EFTA. (Sjá fylgiskjal I.)

Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Brussel 27. apríl 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sótti fundina Ingibjörg Isaksen, formaður, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Í Brussel fór fram fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES. Auk þess áttu EFTA-þingmenn fundi með forystufólki þriggja fastanefnda Evrópuþingsins. Stríðið í Úkraínu, afleiðingar þess og viðbrögð Vesturlanda voru í brennidepli á öllum fundum. (Sjá fylgiskjal II.)

Fundur þingmannanefndar EES í Ósló 23.–25. maí 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Á fundinum var einkum fjallað um stríðið í Úkraínu, stöðu EES-samstarfsins, loftslagsmál og tillögur um samevrópskan heilbrigðisgagnagrunn. (Sjá fylgiskjal III.)

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Borgarnesi 20. júní 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Ingibjörg er formaður þingmannanefndar EFTA á árinu 2022 og stjórnaði fundunum. Á fundinum var einkum fjallað um stríðið í Úkraínu og stöðu fríverslunarstarfs EFTA. (Sjá fylgiskjal IV.)

Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Bangkok 5.–9. september 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Ingibjörg Isaksen, formaður, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Markmið heimsóknar þingmannanefndar EFTA til Bangkok var að eiga viðræður við þingmenn, ráðherra, stofnanir og hagsmunaaðila í Taílandi um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf í ljósi þess að fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Taílands hófust að nýju í júní 2022. (Sjá fylgiskjal V.)

Fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB í Reykjavík 21. september 2022.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Ingibjörg Isaksen, varaformaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Logi Einarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur og Stígs Stefánssonar, ritara. Á fundinum var einkum fjallað um samskipti Íslands og ESB, orkumál og loftslagsbreytingar og stríðið í Úkraínu. (Sjá fylgiskjal VI.)

Fundur þingmannanefndar EES í Strassborg 19.–20. október 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Á fundinum var einkum fjallað um stríðið í Úkraínu, stöðu EES-samstarfsins, orkumál, netöryggismál og öryggi fjarskiptakerfa. (Sjá fylgiskjal VII.)

Fundir þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Brussel 22.–23. nóvember 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson auk Stígs Stefánssonar, ritara. Þingmannanefnd EFTA átti fund með fulltrúa ráðherraráðs EFTA um fríverslunarmál og fund með utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES um EES-samstarfið, viðbrögð við stríðinu í Úkraínu o.fl. (Sjá fylgiskjal VIII.)


5. Ályktanir árið 2022.
Ályktun þingmannanefndar EES:
     .      Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2021, samþykkt á fundi þingmannanefndar EES í Ósló 25. maí 2022.

Alþingi, 30. janúar 2023.

Ingibjörg Isaksen,
form.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,
varaform.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Diljá Mist Einarsdóttir. Gísli Rafn Ólafsson.


Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN
af fundi þingmannanefndar EFTA í Brussel 8.–9. febrúar 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Ingibjörg er formaður þingmannanefndar EFTA á árinu 2022 og stjórnaði fundinum.
    Fyrir fund þingmannanefndar EFTA átti Íslandsdeildin kynningarfundi, annars vegar með skrifstofu EFTA um stöðu EES-mála og hins vegar sendiráði Íslands í Brussel þar sem sendiherra og fulltrúar fagráðuneyta fóru ítarlega yfir íslenska hagsmunagæslu í Evrópusamstarfi.
    Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum helgað fyrsta fund hvers starfsárs alþjóðlegum viðskiptamálum. Nefndin hefur á þeim fundum beint sjónum sínum í fyrsta lagi að þróun alþjóðaviðskipta og starfi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), í öðru lagi að þróun viðskiptastefnu ESB og loks að gerð fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við svokölluð þriðju ríki utan ESB.
    Í umfjöllun um WTO var fjallað um árangursleysi hinnar svokölluðu Doha-samningalotu sem hófst árið 2001 og aðrar áskoranir stofnunarinnar. Áskoranir WTO felast m.a. í ólíkum áherslum aðildarríkjanna og því að erfiðara er að semja um regluverk alþjóðlegra viðskipta en einfaldar lækkanir tolla sem einkum var verkefnið áður fyrr. Stöðnun í starfi WTO hefur gert það að verkum að einstök ríki og ríkjahópar hafa í auknum mæli ráðist í gerð tvíhliða og marghliða fríverslunarsamninga. Þannig hefur æ flóknara net slíkra samninga orðið til. Einnig hefur dregið úr vægi starfsemi WTO á öðrum sviðum. Þannig hafa gerðardómar til að leysa úr ágreiningi aðildarríkja, sem eru mikilvægur þáttur í starfi stofnunarinnar, verið óstarfhæfir undanfarin ár. Ástæða þess er að Bandaríkin hafa ekki viljað taka þátt í að tilnefna nýja dómara í gerðardóm nema lagst verði í umfangsmiklar umbætur á starfi WTO. Þá hefur viðskiptaágreiningur á milli Bandaríkjanna og Kína haft neikvæð áhrif á störf stofnunarinnar.
    EFTA fylgist grannt með viðskiptastefnu ESB og fríverslunarsamningagerð á vegum sambandsins. Þegar ESB semur um betri viðskiptakjör á erlendum mörkuðum en EFTA-ríkin njóta skerðist samkeppnisstaða fyrirtækja í EFTA-ríkjunum á viðkomandi mörkuðum gagnvart fyrirtækjum innan ESB. Því leggur EFTA áherslu á að tryggja nýja samninga eða uppfærslu eldri samninga eftir því sem ESB útvíkkar og dýpkar fríverslunarsamninga sína. Í umfjöllun um viðskiptastefnu ESB kom m.a. fram að sambandið stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum á því sviði. Aukin pólitísk andstaða er við tvíhliða og marghliða fríverslunarsamninga sem kemur m.a. fram í því að erfitt er að tryggja fullgildingu þeirra. Fríverslunarsamningar við Kanada (CETA) og Mercosur-löndin eru dæmi um slíkt. Þá eru tollar ESB orðnir svo lágir að lækkun þeirra og aukin fríverslun er ekki lengur sá aflvaki hagvaxtar sem áður var. Engar viðræður eru heldur í gangi við stærstu viðskiptaríki ESB, Bandaríkin og Kína. Loks hafa ólík sjónarmið innan ESB um að hvaða marki beri að tengja fríverslunarsamninga við mannréttindi og umhverfismál hindrað samningagerð. Fram kom að ESB hefur í auknum mæli beitt einhliða aðgerðum í viðskiptastefnu sinni og er fyrirhugað landamæraaðlögunarkerfi fyrir kolefni dæmi um slíkt. Með kerfinu er ætlunin að leggja kolefnislosunargjald á vörur sem fluttar eru til Evrópu ef slík gjöld eru ekki lögð á í framleiðsluríkinu. Slíku gjaldi er ætlað að koma í veg fyrir undirboð á kostnað umhverfisins og tryggja jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja innan ESB sem greiða kostnað vegna kolefnislosunar við framleiðslu sína. Enn fremur er gjaldið hugsað sem hvati til framleiðsluríkja utan ESB til að koma á eigin kolefnisgjaldi og hvetja til umhverfisvænni framleiðslu. Þá treystir ESB að einhverju leyti á svokölluð „Brussel-áhrif“ í viðskiptastefnu sinni sem felast í því að vegna stærðar hins evrópska markaðar taki önnur ríki upp framleiðslustaðla og reglur frá ESB.
    Loks var farið yfir stöðu fríverslunarsamninga og yfirstandandi viðræðna EFTA við svokölluð þriðju ríki utan ESB. Samtökin hafa verið í fararbroddi í gerð slíkra samninga og eru þeir nú 29 talsins og taka til 40 ríkja. Samningarnir taka til um 10% af útflutningsviðskiptum EFTA-ríkjanna. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna þá og afla stuðnings við gerð þeirra. EFTA á í fríverslunarviðræðum við fimm aðila, Indland, Malasíu, Víetnam, Moldóvu og Mercosur, sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæs og Úrúgvæs. Enn fremur er vonast til að hægt verði að hefja viðræður á ný við Taíland eftir hlé. Þá hefur EFTA undirritað samstarfsyfirlýsingar við sex ríki en slíkar yfirlýsingar eru oft undanfari fríverslunarviðræðna.
    Farið var yfir markmið EFTA-ríkjanna í fríverslunarviðræðum sem eru einkum fimmþætt: Í fyrsta lagi að auka frelsi í viðskiptum með iðnaðarvörur og sjávarafurðir; í öðru lagi að vernda viðkvæma geira í landbúnaði; í þriðja lagi að tryggja vernd hugverkaréttinda; í fjórða lagi að greiða fyrir fjárfestingu og þjónustuviðskiptum; og loks aukin áhersla á sjálfbærni í fríverslun. Áhersla á vernd í landbúnaði, hugverkaréttindi og sjálfbæra þróun hefur í vissum tilvikum verið hindrun í fríverslun EFTA. Stór og mikilvæg viðskiptaríki eins og Bandaríkin, Ástralía og Nýja-Sjáland gera ríkar kröfur til frjálsra viðskipta með landbúnaðarafurðir í fríverslunarsamningum sínum og því hefur ekki verið grundvöllur fyrir fríverslunarviðræðum milli þeirra og EFTA. Þá hafa ákvæði um sjálfbærni og vinnuvernd, sem tekin hafa verið upp í fríverslunarsamningum EFTA frá árinu 2010, ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá viðsemjendum. Ákvæðin voru endurskoðuð árið 2019 og taka nú til umhverfismála, vinnuverndar, efnahagsþróunar og jafnréttis.


Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN
af fundum framkvæmdastjórnar þingmannanefndar
EFTA í Brussel 27. apríl 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sótti fundina Ingibjörg Isaksen, formaður, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Í Brussel fór fram fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES. Auk þess áttu EFTA-þingmenn fundi með forystufólki þriggja fastanefnda Evrópuþingsins. Stríðið í Úkraínu, afleiðingar þess og viðbrögð Vesturlanda voru í brennidepli á öllum fundum. Ingibjörg er formaður þingmannanefndar EFTA á árinu 2022 og stjórnaði fundunum.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var fjallað um áhrif þvingunaraðgerða ESB gagnvart Rússlandi á innri markaðinn og EES. Gestur fundarins var Outi Slotboom frá stjórnardeild framkvæmdastjórnar ESB um innri markaðinn, iðnað og nýsköpun. Í máli hennar og umfjöllun sem á eftir fylgdi var m.a. farið yfir tölfræði vöruviðskipta á milli ESB og Rússlands. Á liðnum árum hafa um 1,7% útflutnings ESB farið til Rússlands en um 3% innflutnings til Evrópu hafa komið þaðan. Frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst 24. febrúar 2022 hefur útflutningur til Rússlands minnkað um helming en innflutningur hefur nánast staðið í stað. Auk minnkandi útflutnings hafa áhrif stríðsins á hagkerfi Evrópu einkum verið á orkufrekan iðnað í formi verðhækkana á orku, á flugsamgöngur vegna lokunar loftrýmis Rússlands og á landbúnað vegna skorts á áburði og árstíðabundnu vinnuafli. Stríðið hefur mismikil áhrif á ríki Evrópu og geira innan þeirra. Almennt hafa ríkin á austurjaðri ESB verið í meiri efnahagstengslum við Rússland og Úkraínu en ríkin vestar í álfunni. Írland og Lúxemborg eru þó dæmi um ríki sem hafa haft náin tengsl við Rússland á sviði fjármálamarkaða.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var einnig farið yfir minnisblað frá skrifstofu EFTA um hvernig bæta mætti umfjöllun þingmannanefndarinnar um EES-mál, bæði í samstarfi við Evrópuþingið og með auknu samráði við utanríkisráðherra EFTA-ríkjanna innan EES.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES var annars vegar fjallað um málefni Úkraínu og hins vegar um áskoranir í starfi nefndarinnar. Gestur á fundinum var Vsjevolod Tsjentsov, sendiherra Úkraínu gagnvart ESB. Hann lagði áherslu á að Úkraínumenn hefðu varist innrás Rússa frækilega í meira en tvo mánuði þvert á spár um að landið félli á þremur eða fjórum dögum. Þær væntingar skýrðu e.t.v. hæg viðbrögð stuðningsríkja í fyrstu sem hefðu tekið við sér og veitt öflugan stuðning. Árásin hefði breytt öryggislandslagi Evrópu til langframa og ekki væri hægt að hverfa aftur til því sem næst óbreyttra samskipta við Rússland á meðan núverandi stjórnvöld sætu við völd. Tsjentsov varaði við sjónarmiðum þess efnis að hætt yrði að senda Úkraínu vopn með þeim rökum að þá yrði landið að gefast upp og friður kæmist á. Ef Rússar kæmust upp með að knésetja Úkraínu væri einungis tímaspursmál hvenær þrýst yrði á landamæri annarra Austur-Evrópuríkja. Sendiherrann hvatti til harðari þvingunaraðgerða, m.a. til þess að allar rússneskar fjármálastofnanir yrðu útilokaðar frá SWIFT-kerfinu, og til aukins stuðnings við Úkraínu. Vísaði hann til 1,2 milljarða evra framlags ESB til ríkissjóðs Úkraínu en því fé væri varið til að greiða laun hermanna, heilbrigðisstarfsmanna, kennara og annars starfsfólks sem héldi samfélaginu gangandi við afar erfiðar aðstæður. Þótt hagkerfi Úkraínu væri nánast í molum hefði verið unnt að halda hinni mikilvægu matvælaframleiðslu áfram og fyrirtæki létu íbúum mat í té án greiðslu. Það gengi ekki til lengdar og matvælaiðnaðinn mætti styrkja með því að veita ívilnanir fyrir úkraínskan matvælainnflutning á Evrópumarkað. Þá væri mikilvægt að aðild að ESB stæði Úkraínu til boða enda væri slíkt viðurkenning á því að Úkraína hefði sem evrópskt lýðræðisríki rétt á að ganga í ESB kysi það svo. Þá hvatti sendiherrann til þess að stuðningsríki létu Úkraínu öflugri vopn í té til að gera þeim kleift að vinna stríðið. Loks lagði sendiherrann áherslu á að stríðsglæpir Rússa yrðu rannsakaðir til hlítar með aðstoð Vesturlanda og að hinir ábyrgu svöruðu til saka fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólnum.
    Að lokinni umfjöllun um Úkraínu fjallaði framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES um áskoranir í starfi sínu, einkum dræma þátttöku Evrópuþingmanna í starfi þingmannanefndar EES. Ýmsar tillögur voru ræddar til úrbóta, m.a. tímasetning funda nefndarinnar og möguleiki á að halda þá oftar samhliða þingfundaviku Evrópuþingsins í Strassborg.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA átti síðar um daginn þrjá fundi í Evrópuþinginu með forystufólki þriggja fastanefnda þingsins. Á fyrsta fundi, með Witold Waszczykowski, varaformanni utanríkismálanefndar Evrópuþingsins, var fjallað um nýjustu þróun í samskiptum við Rússland. Waszczykowski gagnrýndi tal um að innrás Rússa í Úkraínu hefði komið Vesturlöndum í opna skjöldu, Austur-Evrópubúar hefðu varað við þeirri ógn sem stafaði af Rússlandi árum saman en því miður fyrir daufum eyrum. Viðbrögð ESB væru ekki snögg og fumlaus eins og sæist best á því að unnið væri að sjötta pakka þvingunaraðgerða. Loka yrði fyrir gasinnflutning frá Rússlandi til Evrópu ef efnahagsaðgerðirnar ættu raunverulega að bíta enda fjármögnuðu gaskaup Evrópu árásarstríð Rússa. Rússnesk stjórnvöld gætu ekki sætt sig við að á landsvæði fyrrverandi Sovétríkjanna væri slavneskt samfélag sem skipulagt væri með öðrum pólitískum og efnahagslegum hætti en Rússland.
    Næst var fundað með Norbert Lins, formanni landbúnaðar- og byggðaþróunarnefndar Evrópuþingsins. Á fundinum kom m.a. fram að matvælaöryggi er orðið forgangsmál í Evrópu að nýju í kjölfar stríðsins í Úkraínu. Stríðið hefur minnkað framboð matvæla og valdið miklum verðhækkunum á þeim. ESB hefur brugðist við með átaki til að auka landbúnaðarframleiðslu í álfunni, m.a. með því að gera fimm milljónir hektara ónotaðs lands aðgengilega bændum til ræktunar. Þá hefur neyðarbirgðum í fyrsta skipti verið veitt út á markaðinn til að jafna framboð og tempra verðhækkanir. Aðildarríkjum hefur enn fremur verið heimilað að niðurgreiða áburð til bænda. Óljóst er hversu mikið matvælaframleiðsla Úkraínu dregst saman vegna innrásar Rússa og er talað um 15–20% í því sambandi. Stærra vandamál er þó takmörkuð flutningsgeta til þess að koma matvælum sem framleidd eru á erlenda markaði. Fyrirséð er að framboð á hveiti og maís mun minnka talsvert á heimsmarkaði vegna minni útflutnings frá Úkraínu og það mun hafa mikil áhrif á nærsvæðum eins og Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.
    Að lokum var fundað með Christophe Grudler, nefndarmanni í iðnaðar-, rannsókna- og orkunefnd Evrópuþingsins. Á fundinum var m.a. fjallað um leiðir til að draga úr kaupum ESB-ríkja á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi og flýta orkuskiptum í græna orkugjafa.


Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN
af fundi þingmannanefndar EES í Ósló 23.–25. maí 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Ingibjörg er formaður þingmannanefndar EFTA á árinu 2022 og stjórnaði fundinum ásamt Christophe Grudler, formanni sendinefndar Evrópuþingsins.
    Fyrst var fjallað um áhrif innrásar Rússlands í Úkraínu en EFTA-ríkin hafa fordæmt innrásina harðlega og krafist þess að Rússland dragi herlið sitt tafarlaust til baka frá landinu. Vadym Halajtsjúk, varaformaður Evrópunefndar úkraínska þingsins, og Eivind Vad Petersson, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs, voru gestir fundarins. Halajtsjúk lagði í máli sínu áherslu á að Úkraínumenn berðust ekki einungis fyrir land sitt heldur samevrópsk gildi og menningu gegn rússneskri útþenslustefnu sem Georgía hefði orðið fyrir árið 2008 og Úkraína allt frá innlimun Krímskaga árið 2014. Stjórnvöld í Úkraínu biðluðu til Vesturlanda um betri og öflugri vopn til þess að geta unnið stríðið svo að fleiri Austur-Evrópuríki sem landamæri ættu að Rússlandi þyrftu ekki að verjast innrásum. Jafnframt biður Úkraína Vesturlönd um að herða þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi, m.a. með skilyrðislausu banni á allan innflutning á olíu og gasi. Eyðilegging stríðsins er gríðarleg en talið er að um 50% innviða Úkraínu séu ónýt. Enduruppbygging mun kosta hundruð milljarða evra og vilji er til að endurbyggja hagkerfið í takt við evrópska staðla og búa þannig í haginn fyrir aðild Úkraínu að ESB. Petersson fór yfir stuðning norskra stjórnvalda við Úkraínu sem felst í þátttöku í þvingunaraðgerðum ESB, móttöku flóttafólks, mannúðaraðstoð og beinum fjárframlögum til úkraínska ríkisins. Þá var farið yfir aðgerðir Norðmanna til að auka olíu- og gasframleiðslu og flutningsgetu til Evrópu til að koma til móts við ríki sem hafa minnkað eða hætt gaskaupum frá Rússlandi.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögu í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Frummælendur voru Mariana Duque, fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Nicolas von Lingen, fyrir hönd formennsku ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, Pascal Schafhauser, fyrir hönd formennsku EFTA í sameiginlegu EES-nefndinni og EES-ráðinu, og Arne Røksund, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í erindum þeirra og umræðum sem á eftir fylgdu var m.a. fjallað um virkni og árangur EES-samstarfsins við erfiðar aðstæður í heimsfaraldri kórónuveiru. Vel hefði gengið að tryggja upptöku nauðsynlegra ESB-gerða í EES-samninginn. Þá stæðu fyrir dyrum viðræður um nýtt sjö ára tímabil Uppbyggingarsjóðs EFTA sem fjármagnaður er af Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Markmið sjóðsins er að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA-ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. Sjóðurinn stuðlar að umbótum og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa lakar í efnahagslegu tilliti. Enn fremur var farið yfir samstarf um viðbrögð við innrás Rússlands í Úkraínu og þátttöku EFTA-ríkjanna innan EES í þvingunaraðgerðum ESB. Loks var farið yfir þá stofnanalegu breytingu hjá ESB að málefni EES-samningsins hafa verið flutt frá utanríkisþjónustu ESB til framkvæmdastjórnarinnar.
    Þá var fjallað um tillögur framkvæmdastjórnar ESB í loftslagsmálum, hinn svokallaða „Fit for 55“-pakka. Honum er ætlað að styðja við markmið sambandsins um 55% nettósamdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við árið 1990. Jafnframt leggur pakkinn grunn að markmiði ESB um kolefnishlutleysi árið 2050. Í umfjöllun á fundinum var sjónum beint annars vegar að fyrirhuguðu landamæraaðlögunarkerfi ESB fyrir kolefni (e. Carbon Border Adjustment Mechanism, CBAM) og hins vegar tillögu um að flokka kjarnorku og gas sem hreina orkugjafa við tiltekin skilyrði. Frummælendur voru Erlend Grimstad, aðstoðarfjármálaráðherra Noregs, Evrópuþingmennirnir Karin Karlsbro og Christophe Grudler, og Jostein Røynesdal, sérfræðingur í stefnumótun í orkumálum. Í máli þeirra og umfjöllun sem á eftir fylgdi kom m.a. fram að með landamæraaðlögunarkerfi ESB fyrir kolefni væri ætlunin að leggja kolefnislosunargjald á vörur sem fluttar eru til Evrópu ef slík gjöld eru ekki lögð á í framleiðsluríkinu. Slíku gjaldi er ætlað að koma í veg fyrir undirboð á kostnað umhverfisins og tryggja jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja innan ESB sem greiða kostnað vegna kolefnislosunar við framleiðslu sína. Enn fremur er gjaldið hugsað sem hvati til framleiðsluríkja utan ESB til að koma á eigin kolefnisgjaldi og hvetja til umhverfisvænni framleiðslu. Fram kom að í yfirstandandi vinnu Evrópuþingsins með tillögu að landamæraaðlögunarkerfi væri einkum horft til þess að slíkt kerfi mundi samræmast reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Mikilvægt væri að kerfið tryggði minni losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu en ekki einungis flutning losunar í aðra lögsögu ef Evrópa herti staðla sína. Hvað varðar tillögu um að flokka kjarnorku og gas sem hreina orkugjafa við tiltekin skilyrði kom fram að hún er afar umdeild á Evrópuþinginu.
    Loks var fjallað um tillögu framkvæmdastjórnar ESB um samevrópskan heilbrigðisgagnagrunn (e. European Health Data Space). Martin Dorazil frá framkvæmdastjórninni kynnti tillöguna. Í máli hennar og umfjöllun sem á eftir fylgdi kom m.a. fram að heimsfaraldur kórónuveiru hefði flýtt fyrir stafrænni þróun innan heilbrigðisgeirans í Evrópu og dregið fram mikilvægi þess að heilbrigðisupplýsingar gætu flætt óhindrað yfir landamæri. Markmið með tillögunni um samevrópskan heilbrigðisgagnagrunn eru m.a. að gera einstaklingum kleift að stjórna og nota eigin heilsufarsgögn með öruggum hætti óháð staðsetningu og auðvelda heilbrigðisstarfsfólki aðgang að nauðsynlegum upplýsingum hverju sinni. Þá mun gagnagrunnurinn stuðla að einum innri markaði fyrir stafræna heilbrigðisþjónustu aðildarríkja þar sem gögn eru framsett með samræmdum og samhæfðum hætti. Loks mun slíkur gagnagrunnur styðja við rannsóknir, nýsköpun, stefnumörkun og eftirlit með aðgangi að ópersónugreinanlegum heilsufarsgögnum.


Fylgiskjal IV.


FRÁSÖGN
af fundi þingmannanefndar og ráðherra
EFTA í Borgarnesi 20. júní 2022.


    Hefðbundinn sumarfundur þingmannanefndar, ráðgjafarnefndar og ráðherra EFTA fór fram í Borgarnesi auk þess sem þingmannanefndin hélt fund með ráðgjafarnefnd EFTA og eiginlegan nefndarfund. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Ingibjörg er formaður þingmannanefndar EFTA á árinu 2022 og stjórnaði fundunum.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var tekin ákvörðun um að auka gagnsæi í störfum nefndarinnar með því að birta gögn hennar í auknum mæli á vef EFTA. Áður voru dagskrár funda og þátttakendalistar birtir en í framtíðinni bætast við fundargerðir, ályktanir, bréfaskriftir til ráðherraráðsins o.fl. nema sérstök ákvörðun liggi fyrir um að trúnaður ríki um gögn.
    Í Borgarnesi var sérstök athöfn þar sem fríverslunarviðræður EFTA við Taíland voru formlega hafnar að nýju eftir hlé. Viðræðurnar hófust upphaflega árið 2005 en hlé var gert á þeim þegar herforingjastjórn rændi völdum í Taílandi ári síðar. Frá því að lýðræði var endurvakið með kosningum árið 2019 hefur verið unnið að því að hefja viðræður að nýju. Á fundi þingmannanefndar EFTA var farið yfir stöðu viðskipta EFTA við Taíland sem námu um 2,8 milljörðum evra árið 2021. Þar af námu viðskipti Íslands og Taílands um 43 milljónum evra eða tæplega 6 milljörðum kr. Taíland hefur ekki hafið fríverslunarviðræður við ESB að nýju og þykir það gefa EFTA forskot í viðræðum sínum. Af hálfu EFTA er horft til þess að gera víðtækan fríverslunarsamning sem nái yfir alla meginflokka viðskipta. Miklir hagsmunir eru í veði þar sem Taíland er lykilhagkerfi innan ASEAN, Sambands Suðaustur-Asíuríkja, og gegnir mikilvægu hlutverki í aðfangakeðjum sem EFTA-ríkin reiða sig á, t.d. á sviði úrsmíða, raftækja og mælingartækja. Þá er Taíland stór innflytjandi sjávarafurða frá bæði Noregi og Íslandi. Mögulegar áskoranir í viðræðum við Taíland gætu orðið krafa um markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur innan EFTA-ríkjanna og mál á sviði hugverkaréttar og vinnuverndar. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA mun í september 2022 heimsækja Taíland og eiga viðræður við þarlend stjórnvöld, þingnefndir, stofnanir og hagsmunaaðila um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf við EFTA.
    Í Borgarnesi var einnig athöfn þar sem fríverslunarviðræðum EFTA við Kósovó var formlega ýtt úr vör. Þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA áttu í kjölfarið fund með Rozetu Hajdari, viðskiptaráðherra Kósovó. Kósovó er eina ríkið á Balkanskaga sem EFTA hefur ekki gert fríverslunarsamning við og er því eðlileg viðbót við fríverslunarnet samtakanna. Ráðherrann fór yfir umbótastarf í Kósovó og nútímavæðingu hagkerfisins og batt vonir við aukin viðskipti og samstarf við EFTA á næstu árum.
    Þá áttu þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA fund með Sergiu Gaibu, efnahagsráðherra Moldóvu, en fríverslunarviðræður EFTA og Moldóvu hófust árið 2021. Fram kom að stríðið í Úkraínu hefði haft mikil áhrif á efnahag Moldóvu. Þar kæmi bæði til mikill straumur flóttamanna og það að mikil viðskipti voru á milli ríkjanna áður en innrás Rússlands hófst. Því væri Moldóva að leita nýrra markaða og tækifæra og bæði sérstaklega um það að í Evrópu yrði í auknum mæli opnað fyrir innflutning á landbúnaðarvörum frá landinu.
    Á fundi ráðherra EFTA með þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd samtakanna, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir stjórnaði, var einkum fjallað um málefni Úkraínu og stöðu fríverslunarstarfs EFTA. Í umræðu um stríðið í Úkraínu og afleiðingar þess var m.a. fjallað um stuðning EFTA-ríkjanna við Úkraínu í formi móttöku flóttamanna, fjárframlaga og mannúðaraðstoðar auk þátttöku í þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi. Þá hefur Noregur stutt Úkraínu með vopnasendingum og lagt til orkuöryggis í Evrópu með því að auka olíuframleiðslu sína. Þá var rætt um beiðni úkraínskra stjórnvalda til Evrópuríkja um að fella niður alla tolla af innflutningi frá Úkraínu. ESB og Bretland hafa þegar brugðist við og afnumið tolla. Þá samþykkti Alþingi í júní að fella niður alla tolla á vörur frá landinu í tólf mánuði sem þýðir í reynd að tollar eru afnumdir á landbúnaðarvörur til viðbótar við afnám tolla á iðnaðarvörur og sjávarfang sem þegar hafði verið gert með fríverslunarsamningi EFTA og Úkraínu frá árinu 2012. Fram kom á fundinum að norsk og svissnesk stjórnvöld hafa beiðni Úkraínumanna til skoðunar. Þá verður skoðað hvort uppfæra beri fríverslunarsamning EFTA og Úkraínu. Einnig var fjallað um áhrif stríðsins á innri markað EES, m.a. truflun á aðfangakeðjum og aukningu verðbólgu sem kæmi ofan í efnahagslegar áskoranir af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Loks var farið yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA en með gildistöku fríverslunarsamnings við Indónesíu árið 2021 nær fríverslunarnet EFTA nú til fjörutíu ríkja eða ríkjasvæða. Jákvæð skref voru stigin í átt að frekari útvíkkun netsins þegar nýjum fríverslunarviðræðum við Taíland og Kósovó var ýtt úr vör í Borgarnesi eins og fyrr kom fram. Auk þessara ríkja á EFTA í viðræðum við Indland, Malasíu, Víetnam, Moldóvu og Mercosur, sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæs og Úrúgvæs.


Fylgiskjal V.


FRÁSÖGN
af fundum framkvæmdastjórnar þingmannanefndar
EFTA í Bangkok 5.–9. september 2022.


    Markmið heimsóknar þingmannanefndar EFTA til Bangkok var að eiga viðræður við þingmenn, ráðherra, stofnanir og hagsmunaaðila í Taílandi um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf í ljósi þess að fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Taílands voru hafnar að nýju í júní 2022. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA áttu sæti í sendinefndinni Ingibjörg Isaksen og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir auk Stígs Stefánssonar, ritara. Ingibjörg gegnir formennsku í þingmannanefnd EFTA á árinu 2022 og fór því fyrir sendinefndinni á öllum fundum í Bangkok.
    Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum og hafa samtök ríkja og einstök lönd í auknum mæli beint sjónum sínum að gerð tvíhliða eða marghliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 29 talsins og taka til 40 ríkja. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga við EFTA.
    Heimsókn þingmannanefndar EFTA til Taílands var sem fyrr segir liður í að auka skilning á og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamnings ríkjanna. Í Bangkok átti sendinefndin fundi í taílenska þinginu með Chuan Leekpai, forseta neðri deildar, Pornpetch Wichitcholchai, forseta efri deildar, og fleiri þingmönnum. Þá átti sendinefndin fundi með Sinit Lertkrai, aðstoðarráðherra viðskiptaráðuneytis, og Thani Thongphakdi, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytis. Loks fundaði sendinefndin með aðilum vinnumarkaðarins, fulltrúum fyrirtækja frá EFTA-ríkjunum í Taílandi og sendiherrum ESB og Bretlands í landinu.
    Ingibjörg Isaksen flutti framsögu á öllum fundum. Á fundum í þinginu og með ráðuneytum lagði hún áherslu á sterkan vilja EFTA til að auka efnahagslega samvinnu við Taíland með fríverslunarsamningi. Eftir að heimsfaraldur og stríð í Úkraínu hefðu truflað aðfangakeðjur og viðskipti ríkja væri mikilvægt að greiða fyrir viðskiptum. EFTA-ríkin og Taíland ættu það sameiginlegt að vera opin hagkerfi og eiga í miklum alþjóðlegum viðskiptum og væru þau því í góðri stöðu til þess að gera víðtækan fríverslunarsamning sín á milli. Undanfarin tuttugu ár hefðu viðskipti ríkjanna aukist um 30% og svigrúm væri til aukningar. Fyrirtæki frá EFTA-ríkjunum væru í hópi stærstu erlendu fjárfesta í Taílandi. Fríverslunarsamningur EFTA og Taílands mundi opna ný tækifæri til aukinna viðskipta báðum aðilum til hagsbóta.
    Á fundunum gafst fulltrúum EFTA-ríkjanna einnig kostur á að taka upp tvíhliða áherslur. Íslensku fulltrúarnir lögðu áherslu á að Taílendingar búsettir hérlendis væru mikilvægur hópur sem hefði auðgað íslenskt samfélag og menningu. Íslensk fyrirtæki væru þegar starfandi í Taílandi á sviði tækjaframleiðslu fyrir matvælaiðnað, hugbúnaðar og fragtflutninga. Sóknarfæri væri að finna á þeim sviðum svo og í sjávarútvegi, endurnýjanlegri orku og jarðvarma. Þá stæði fyrir dyrum að stofna taílenskt-íslenskt viðskiptaráð í Taílandi sem án efa mundi efla viðskipti ríkjanna.
    Viðmælendur sendinefndar EFTA á fundum í Bangkok voru jákvæðir gagnvart aukinni efnahagssamvinnu við EFTA. Þeir voru vel upplýstir um viðræðuferlið og lýstu yfir bjartsýni um að það mætti leiða til lykta með fríverslunarsamningi innan tveggja ára. Fríverslunarsamningur við EFTA yrði fyrsti samningur af því tagi milli Taílands og Evrópuríkja en fyrir hefur landið gert fríverslunarsamninga við fjórtán ríki. Aukin fríverslun væri í takt við áherslur stjórnvalda á umbætur og nútímavæðingu taílensks hagkerfis.


Fylgiskjal VI.


FRÁSÖGN
af 14. fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og
Evrópusambandsins sem haldinn var
í Hörpu 21. september 2022.


    Fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins fór fram í Hörpu 21. september 2022. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Ingibjörg Isaksen, varaformaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Logi Einarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur og Stígs Stefánssonar, ritara. Fyrir hönd Evrópuþingsins sátu fundinn þingmennirnir Christel Schaldemose og Liudas Mazylis.
    Fundinum stýrðu Bjarni Jónsson og Christel Schaldemose. Helstu dagskrármál voru samskipti Íslands og ESB, orkumál og loftslagsbreytingar og stríðið í Úkraínu. Í upphafsávarpi sínu minntist Bjarni á að tvíhliða samskipti Alþingis og Evrópuþingsins næðu til ársins 1987 og hefðu því staðið yfir í 35 ár. Á þessum vettvangi hefði verið fjallað um mörg mikilvæg málefni sem endurspegluðu það sem efst væri á baugi hverju sinni. Þá væri ánægjulegt að eiga aftur í samskiptum augliti til auglitis eftir heimsfaraldur. Schaldemose sagði mikilvægt að Evrópuþingið og Alþingi ættu í góðum og nánum samskiptum. Þá tók hún undir orð Bjarna um að jákvætt væri að aftur væri mögulegt að sækja fundi í eigin persónu. Náin samvinna Íslands og ESB næði út fyrir samvinnu á sviði innri markaðarins og EES-samningsins. Ísland væri til að mynda þátttakandi í Schengen-samstarfinu og stofnunum ESB. Þá hefðu hin nánu samskipti sýnt sig og sannað í heimsfaraldrinum.
    Í umræðu um samskipti Íslands og ESB hélt Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis, framsöguræðu. Hann sagði ráðuneytið eiga í nánum samskiptum við sendiráð ESB á Íslandi og ítrekaði mikilvægi góðrar samvinnu Íslands og ESB. Hann fór yfir þátttöku Íslands í þvingunaraðgerðum ESB gagnvart Rússlandi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu og framlög Íslands til Úkraínu. Hann sagði EES-samninginn vera Íslandi mikilvægan en að nauðsynlegt væri að ESB tæki tillit til sérstakra aðstæðna Íslands á vissum sviðum. Þetta ætti sérstaklega við á sviði sjávarútvegs, landbúnaðarvara og flugmála. Mikilvægt væri að finna lausnir sem báðir aðilar gætu fellt sig við. Ondrej Benesík, formaður Evrópunefndar neðri deildar tékkneska þingsins, kom fram fyrir hönd tékknesku formennskunnar í ráði ESB. Hann sagði Ísland mikilvægan þátttakanda í Evrópusamvinnu og sagði þátttöku Íslands í þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi mikilvæga. Uppbyggingarsjóður EES væri mikilvægur ríkjum ESB og samningaviðræður um næstu framlög væru hafin. Þá hefði Ísland á alþjóðavettvangi mikið til málanna að leggja eins og sýndi sig með Hringborði norðurslóða. Hann gerði greinarmun á viðskiptafélaga (e. partner) og bandamanni (e. ally) og sagði að hinir fyrrnefndu hefðu sameiginlega hagsmuni en hinir síðarnefndu sameiginleg gildi. Ísland og ESB deildu sameiginlegum gildum og ESB liti á Ísland sem mikilvægan bandamann. Í framsöguræðu sinni beindi Schaldemose orðum sínum til Martins og sagðist sammála því að mikilvægt væri að Ísland og ESB einsettu sér að finna sameiginlegar lausnir sem báðir aðilar gætu sætt sig við. Bjarni sagði EES-samninginn hafa komið Íslandi vel og væri grundvöllur samskipta Íslands og ESB. Aðgengi Íslands að innri markaðnum hefði haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og efnahag. Þá væri Ísland boðið og búið að deila sérþekkingu sinni með ESB, til dæmis í orkumálum.
    Í umræðu um orkumál hélt Marta Rut Karlsdóttir, sviðsstjóri hjá Orkustofnun framsöguræðu. Hún fjallaði um þróun orkumála og mikilvægi orkuöryggis. Staðan í Evrópu hefði sýnt fram á mikilvægi greiðs aðgengis að orku, bæði fyrir almenning og fyrirtæki. Því væri aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum sífellt mikilvægara. Ísland væri í fararbroddi þegar kæmi að nýtingu endurnýjanlegrar orku þar sem 85% af orkuþörf landsins kæmi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Marta sagði orkubyltinguna hafa gerst hratt á Íslandi en það hefði verið heljarmikið átak sem hefði skilað sínu. Ísland væri tilbúið að deila reynslu sinni og þekkingu og hún væri sannfærð um að með sameiginlegu átaki gætu önnur lönd fylgt í fótspor Íslands. David Smoljak, formaður Evrópunefndar efri deildar tékkneska þingsins, kom fram fyrir hönd tékknesku formennskunnar í ráði ESB. Hann fór yfir áherslur tékknesku formennskunnar í orkumálum og sagði að innrás Rússlands í Úkraínu hefði haft gríðarleg áhrif á orkuöryggi í Evrópu. Staðan væri mjög erfið en ESB hefði strax tekið orkumálin föstum tökum og lagt enn meiri áherslu á að ESB yrði sjálfbært um orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Í því ljósi væri gagnlegt að læra af Íslandi. Í framsöguræðu sinni sagði Ingibjörg að orkuöryggi væri einn af grundvallarþáttum þjóðaröryggis Íslands. Ísland væri aðili að Parísarsamkomulaginu og stefndi jafnframt að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Ingibjörg sagði mikilvægt að hlúa vel að nýsköpunariðnaðinum sem byggi oft yfir skapandi lausnum á vandanum. Eitt slíkra dæma væri Carbfix-verkefnið. Í framsöguræðu sinni fór Schaldemose yfir helstu áherslur ESB í orkumálum og vísaði til þess að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefði sett orkumál á oddinn innan sambandsins. Staðan væri vissulega slæm þegar vetur væri á næsta leiti. Því væri mikilvægt að læra hvert af öðru og flýta fyrir grænum orkuskiptum.
    Loks var fjallað um stríðið í Úkraínu. Í framsöguræðu sinni lagði Schaldemose áherslu á mikilvægi samstöðu Evrópuþjóða. Evrópuþingið væri einhuga í samstöðu sinni með Úkraínu líkt og hefði komið í ljós þegar Úkraína og Moldóva hlutu stöðu umsóknarríkis að ESB. Mikilvægt væri að berjast fyrir gildum Evrópu og þar skiptu þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi miklu máli. Í framsöguræðu sinni sagði Þorgerður Katrín að Rússar hefðu með innrásinni í Úkraínu minnt okkur harkalega á hvað við tækjum mörgu sem gefnu og um leið hversu mikilvægt það væri að sýna samstöðu og samhug hvert með öðru. Hún sagði Ísland sýna fulla samstöðu með bandamönnum sínum í stuðningi við Úkraínu og að Ísland hefði að fullu stutt og innleitt þvingunaraðgerðir ESB gegn Rússlandi. Beinn stuðningur Íslands við Úkraínu væri að mestu í formi mannúðar- og fjárhagsaðstoðar auk þess sem tekið hefði verið á móti Úkraínubúum á flótta. Þorgerður vísaði til nýlegra frétta af stríðsglæpum sem átt hefðu sér stað í Úkraínu og sagði að ekki mætti líta fram hjá þeim. Ábyrgð okkar allra væri að hjálpa Úkraínu að vinna stríðið.


Fylgiskjal VII.


FRÁSÖGN
af fundi þingmannanefndar EES í Strassborg 19.–20. október 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Ingibjörg er formaður þingmannanefndar EFTA á árinu 2022 og stjórnaði fundinum ásamt Andreas Schwab, formanni sendinefndar Evrópuþingsins.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að halda framsöguræðu í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Frummælendur voru Kristján Andri Stefánsson, fyrir hönd formennsku EFTA í sameiginlegu EES-nefndinni og EES-ráðinu, Petr Havlík, fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, og Nicolas von Lingen, fyrir hönd formennsku ESB í sameiginlegu EES-nefndinni. Í erindum þeirra og umræðunni sem á eftir fylgdi var m.a. fjallað um virkni og árangur EES-samstarfsins við erfiðar aðstæður í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, samstarf um viðbrögð við innrásinni og þátttöku EFTA-ríkjanna innan EES í þvingunaraðgerðum ESB. Áhrif stríðsins á innri markað EES hafa m.a. verið rof í aðfangakeðjum, hækkun verðlags og orkuskortur og hafa stjórnvöld gripið til ýmiss konar mótaðgerða, t.d. með því að koma til móts við heimilin vegna hækkunar orkuverðs. Þrátt fyrir þessar áskoranir hefur rekstur EES-samningsins gengið vel og árangur náðst við að ná niður svokölluðum innleiðingarhalla sem mælir fjölda þeirra gerða ESB sem bíða upptöku í EES-samninginn. Þá kom fram að viðræður væru hafnar um nýtt styrkjatímabil uppbyggingarstyrkja EFTA en markmið þeirra er að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan EES og efla tvíhliða samstarf milli EFTA-ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja styrkja innan ESB.
    Fjallað var um þróun stríðsins í Úkraínu undir sérstökum dagskrárlið og voru pólski Evrópuþingmaðurinn Witold Waszczykowski og Diljá Mist Einarsdóttir framsögumenn. Waszczykowski gagnrýndi að viðbrögð Vesturlanda við innrás Rússlands hefðu ekki verið nógu sterk og nefndi því til stuðnings að nýbúið væri að samþykkja áttunda pakka þvingunaraðgerða gegn Rússlandi. Af því mætti álykta að fyrstu sjö pakkar þvingunaraðgerða hefðu ekki nægt til þess að stöðva stríðið. Stríðið væri ekki háð til þess að breyta landamærum Rússlands og Úkraínu heldur til að eyða úkraínsku ríki og þjóð og færa Rússland í átt að landrými og stöðu ríkisins á tíma Sovétríkjanna. Waszczykowski sagði meiri hluta Rússa styðja stríðið og varaði við því að öfl á Vesturlöndum vildu frysta átökin og færa samskipti við Rússland til fyrra horfs. Mikilvægt væri að styðja Úkraínu af þunga því að með ósigri í Úkraínu mundi stríðið færast til annarra Evrópulanda. Jafnframt væri mikilvægt að flytja hersveitir NATO til austurhluta bandalagsins til að styrkja varnir þar. Diljá Mist sagði það hafa verið alvarleg mistök að halda að friður yrði tryggður í Evrópu með viðskiptum við Rússland. Ekki hefði verið hlustað á raddir í Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og víðar í Austur-Evrópu. Þau ríki töluðu árum saman fyrir daufum eyrum þegar þau vöruðu við ógn frá Rússlandi. Mikilvægt væri að hlusta vel núna, styðja Úkraínu af fullum krafti og þrýsta á önnur ríki að gera slíkt hið sama. Öll EFTA-ríkin hefðu veitt mannúðaraðstoð til Úkraínu og tekið á móti fjölda flóttafólks. Þá hefði Noregur sent mikilvæg hergögn til Úkraínu og Ísland hefði lagt til loftflutninga með hergögnum frá öðrum ríkjum. Loks væri í skoðun að uppfæra fríverslunarsamning EFTA við Úkraínu til að greiða fyrir viðskiptum við landið.
    Þá var fjallað um stöðu orkumála innan EES en stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á orkuframboð, orkuverð og orkuöryggi í Evrópu. Framsögumenn í umræðunni voru finnski Evrópuþingmaðurinn Ville Niinistö og norski þingmaðurinn Trine Lise Sundnes. Í máli þeirra og umræðum sem á eftir fylgdu var m.a. farið yfir svokallaða „REPowerEU“-áætlun um að leita nýrra orkugjafa og orkubirgja svo að Evrópa verði ekki háð kaupum á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi og hröðun orkuskipta í græna orkugjafa. Þá var farið yfir aðgerðir Norðmanna til að auka orkuframleiðslu og útflutning til meginlands Evrópu og nána samvinnu norskra stjórnvalda við framkvæmdastjórn ESB í þessu skyni. Loks var fjallað um hvernig ákvörðun Finna frá árinu 2014 um endurnýjun og uppbyggingu kjarnorkuvera hefði litast af ógn frá Rússlandi.
    Sérstök umræða var um samstarf um netöryggi innan EES og voru ítalski Evrópuþingmaðurinn Ignazio Corrao og Gísli Rafn Ólafsson framsögumenn. Í máli þeirra og umræðum sem á eftir fylgdu var m.a. farið yfir netöryggisstefnu ESB og tillögu framkvæmdastjórnar ESB um útvíkkun reglna um netöryggi (e. Cyber Resilience Act). Tillagan felur í sér að gerðar verði netöryggiskröfur við hönnun, þróun og framleiðslu á hvers kyns nettengdum vörum til sölu á innri markaði ESB. Þá er í tillögunum kveðið á um tilkynningarskyldu framleiðenda nettengdra vara til að upplýsa um hvers kyns öryggisbresti. Tjón og kostnaður vegna netárása og netglæpa er talið hafa numið 5,5 billjónum evra á heimsvísu árið 2021. Þá fór Gísli Rafn yfir netárásir á Vesturlönd í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu en a.m.k. 130 stofnanir í 42 ríkjum hafa orðið fyrir slíkum árásum.
    Þá var fjallað um tillögu um áætlun um öryggi fjarskipta og gervihnattakerfi ESB. Markmið með uppbyggingu fjarskiptanets um gervihnetti er að styrkja viðnámsþol ESB-ríkja við áföllum og tryggja stjórnvöldum áreiðanlegt fjarskiptakerfi sem m.a. styður við eftirlitskerfi stjórnvalda, vernd mikilvægra innviða, stjórnun á neyðarstund og við landvarnir. EFTA-ríkin innan EES hafa unnið álit um verkefnið og óska eftir aðild að áætluninni á sama hátt og þau eru þátttakendur í öðrum áætlunum ESB sem snúa að innri markaðnum.
    Loks var fjallað um „European Political Community“, fund þjóðarleiðtoga ríkja Evrópu, að frátöldu Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, sem fram fór 6. október 2022 og ætlunin er að halda tvisvar á ári. Markmið hins nýja vettvangs er að skapa leiðtogum Evrópuríkja innan og utan ESB vettvang til skoðanaskipta og stuðla að samvinnu um viðbrögð við aðsteðjandi vanda á viðsjárverðum tímum þegar orkukreppa vofir yfir, verðbólga fer vaxandi, samdráttar gætir í efnahagslífinu, ójöfnuður fer vaxandi, straumur flóttafólks eykst og loftslagsbreytingar láta að sér kveða. Í umfjöllun um hinn nýja vettvang var lögð áhersla á að hann yrði ekki til þess að draga úr öðru samstarfi Evrópuríkja.


Fylgiskjal VIII.


FRÁSÖGN
af fundum þingmannanefndar og ráðherra
EFTA í Brussel 22.–23. nóvember 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Ingibjörg er formaður þingmannanefndar EFTA á árinu 2022 og stjórnaði fundunum.
    Í Brussel átti þingmannanefnd EFTA fund með fulltrúa ráðherraráðs EFTA um fríverslunarmál og fund með utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES um EES-samstarfið, viðbrögð við stríðinu í Úkraínu o.fl. Að auki hélt þingmannanefndin eigin fund auk sameiginlegs fundar með ráðgjafarnefnd EFTA.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA með formanni ráðherraráðs EFTA kynnti Kurt Jäger sendiherra áherslur Liechtensteins innan ráðherraráðsins í formennskutíð sinni á síðari árshelmingi 2022 og fyrri árshelmingi 2023. Á formennskutímanum er unnið áfram að yfirstandandi fríverslunarviðræðum við Moldóvu, Malasíu, Taíland, Indland og Kósovó. Þá á EFTA í viðræðum við Síle og Tollabandalag Suður-Afríkuríkja um uppfærslu á fríverslunarsamningum við þessa aðila auk þess sem vonast er til að viðræður um uppfærslu á fríverslunarsamningi við Mexíkó geti hafist að nýju. Enn fremur er í skoðun að uppfæra fríverslunarsamning EFTA við Úkraínu. Stjórnvöld í Kænugarði hafa óskað eftir því að EFTA-ríkin auki efnahagslegan stuðning sinn við landið með því að greiða fyrir innflutningi á úkraínskum vörum með breytingum á fríverslunarsamningi ríkjanna. Fundur með úkraínskum stjórnvöldum er áformaður í desember til að fara yfir málið. Áfram verður unnið að því að tryggja aukið gagnsæi og upplýsingagjöf til almennings um yfirstandandi fríverslunarviðræður. Af hálfu þingmanna EFTA gerði Ingibjörg Isaksen grein fyrir heimsókn sendinefndar til Taílands í september 2022 en markmið hennar var að eiga viðræður við þarlenda þingmenn, ráðherra, stofnanir og hagsmunaaðila um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf í ljósi þess að fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Taílands voru hafnar að nýju í júní það ár. Af hálfu taílenskra stjórnvalda kom fram vilji til þess að ljúka fríverslunarsamningi við EFTA innan tveggja ára.
    Á fundi með utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES var farið yfir viðbrögð við stríðinu í Úkraínu. EFTA-ríkin hafa fordæmt innrás Rússlands harðlega sem brot á alþjóðalögum og krafist þess að Rússar dragi herlið sitt tafarlaust til baka. Ríkin hafa tekið fullan þátt í þvingunaraðgerðum ESB, tekið á móti þúsundum flóttamanna og veitt mikilvæga mannúðar- og neyðaraðstoð. Þá hefur Noregur sent hergögn til Úkraínu. Þá var fjallað um væntanlegan fund með úkraínskum stjórnvöldum um mögulega uppfærslu fríverslunarsamnings EFTA og Úkraínu.
    Á fundinum með utanríkisráðherrunum var einnig fjallað um stöðu orkumála í Evrópu og aðgerðir til að tryggja orkuöryggi eftir að gas- og olíuinnflutningur frá Rússlandi snarminnkaði. Fram kom að frá innrásinni í Úkraínu hefði gasinnflutningur til Evrópuríkja frá Rússlandi fallið úr 40% í 10–15%. Fram kom að næsti vetur gæti reynst meiri áskorun í orkumálum álfunnar en yfirstandandi vetur enda hefði birgðastaða gass verið góð síðasta haust og veturinn framan af mildur. Þá var fjallað um aðgerðir Norðmanna til að auka orkuframboð til meginlandsins. Fram kom að í ljósi stefnu Noregs í loftslagsmálum kynni að virka þversagnakennt að Noregur yki framleiðslu á jarðefnaeldsneyti en það væri forgangsmál að koma á stöðugleika á gasmörkuðum. Þannig væri jafnframt komið í veg fyrir að Rússland gæti notað orku sem vopn til þess að sundra einingu Evrópuríkja þegar kæmi að stuðningi við Úkraínu. Enn fremur kom fram að aukið eftirlit væri með öryggi innviða orkuflutninga, þ.m.t. gasleiðslum og rafmagnsstrengjum í sjó. Loks var lögð áhersla á nauðsyn þess að vinna hraðar að orkuskiptum í græna orkugjafa, það væri ekki einungis umhverfisvænt og ynni gegn loftslagsbreytingum heldur yki einnig orkuöryggi.
    Á eiginlegum fundi þingmannanefndar EFTA var einnig fjallað um stöðu orkumála í Evrópu og áætlunin „RePowerEU“ kynnt. Tilgangur hennar er að Evrópa verði óháð orkuinnflutningi frá Rússlandi. Þá var fjallað um horfur í fríverslunarviðræðum við Indland sem staðið hafa yfir með hléum frá árinu 2008.
    Í tengslum við fundina í Brussel átti þingmannanefnd EFTA ásamt ráðgjafarnefnd EFTA fundi með gestum um eftirfarandi efni: stefnu ESB um að styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki í fríverslunarsamningum; stefnu ESB um viðskipti og sjálfbæra þróun; viðskiptasamband ESB og Bandaríkjanna; og tillögu ESB um bann við vörum innan EES sem framleiddar eru með nauðungarvinnu.