Ferill 659. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1230  —  659. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um áhrif veiðarfæra.

     1.      Hvaða rannsóknir hafa farið fram á umhverfisáhrifum botndreginna veiðarfæra í sjó við Ísland? Hvar og hvenær fóru rannsóknirnar fram?
    Leitað var til Hafrannsóknastofnunar sem lagði fram eftirfarandi svör við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Hér á eftir má finna samantekt yfir þær rannsóknir sem hafa farið fram á áhrifum botndreginna veiðarfæra við Ísland auk greina sem tengjast málinu. Flestar rannsóknirnar hafa verið birtar í skýrslum eða vísindaritum og fylgir þá hlekkur til frekari glöggvunar á viðkomandi rannsókn. Hafrannsóknastofnun bendir á að fjöldi rannsókna hefur verið gerður á þessu sviði erlendis og að oft má heimfæra þær niðurstöður. Lengi hefur verið áhugi á áhrifum dragnótar og fyrsta samantektin er frá 1934. Nokkuð ítarlegar athuganir á áhrifum dragnótar á lífríki á botni fóru fram í Skagafirði 2008.
          Árni Friðriksson 1934. Nokkrar athugasemdir við togstreituna um dragnótina. Ægir 27: 114–117. 1
          Guðni Þorsteinsson 1990. Athugun á atferli fisks við dragnótaveiðar. Sjávarfréttir 18 (1): 52–61.
          Hrafnkell Eiríksson 2008. Dragnót og dragnótaveiðar við Ísland. Hafrannsóknastofnunin. Fjölrit 140. 2
          Guðrún G. Þórarinsdóttir, Haraldur A. Einarsson, Steinunn H. Ólafsdóttir og Stefán Á. Ragnarsson. 2010. Áhrif dragnótaveiða á lífríki botns í innanverðum Skagafirði. Hafrannsóknir 151. 3

    Á botnvörpu hafa einnig verið gerðar nokkrar íslenskar greiningar eða samantektir. Greiningar byggja flestar á rannsóknum sem fóru fram í Faxaflóa í kringum aldamótin 2000. Nýlega hafa verið stundaðar rannsóknir á togförum og tengslum þeirra við rask á botni í tengslum stofnmælingar á humri með myndavélum. Þessar rannsóknir fóru fram við sunnanvert landið.
          Stefán Áki Ragnarsson og Sigmar A. Steingrímsson 2001. Áhrif veiða með botnvörpu á botndýr. Morgunblaðið, Úr verinu, 6. september 2001. 4
          Stefán Áki Ragnarsson og Sigmar A. Steingrímsson 2003. Spatial distribution of otter trawl effort in Icelandic waters: Comparison of measures of effort and implications for benthic community effects of trawling activities. ICES Journal of Marine Science 60: 1200–121. 5
          Stefán Áki Ragnarsson og Mats Lindegarth 2009. Testing hypotheses about temporary and persistent effects of otter trawling on infauna: changes in diversity rather than abundance. Marine Ecology Progress Series 385: 51–64. 6
          Stefanie Haase, Haraldur Arnar Einarsson, Jónas P. Jónasson og Julian M. Burgos. 2018. Use of Underwater TV-survey to monitor trawl marks on Nephrops grounds. Haf- og vatnarannsóknir 24. 7
          ICES. 2023. Trawl mark data investigations in FU 1 (Iceland). In: Working Group on Nephrops Surveys (WGNEPS; outputs from 2022). (Bíður birtingar).

    Þá fóru fram rannsóknir á áhrifum vatnsþrýstiplógs á botn og botndýrasamfélög í Þistilfirði yfir fimm ára tímabil (2003–2008).
          Stefán Á Ragnarsson, Guðrún G. Þórarinsdóttir og Karl Gunnarsson. 2015. Short and long-term effects of hydraulic dredging on benthic communities and ocean quahog (Arctica islandica) populations. Marine Environmental Research 109: 113–123. 8

     2.      Telur ráðherra að efla megi rannsóknir á áhrifum botndrægra veiðarfæra í íslenskri fiskveiðilögsögu, bæði innan og utan 12 mílna landhelginnar, með tilliti til sjálfbærra veiða, umhverfisáhrifa, samfélagsáhrifa og efnahagsáhrifa? Ef já, með hvaða hætti telur ráðherra best að gera það?
    Æskilegt er að efla ýmsar rannsóknir er lúta að umhverfi og náttúru hafsins og þeirri auðlind er hafið hýsir. Hluti af því er að efla rannsóknir á veiðarfærum og nýtingaraðferðum. Auknar rannsóknir á umhverfi og á aðferðum til nýtingar eykur getu okkar til að hámarka verðmætasköpun, auka hagkvæmni greinarinnar og tryggja sjálfbæra nýtingu.
    Rannsóknir á botndrægum veiðarfærum í íslenskri fiskveiðilögsögu, innan og utan 12 mílna landhelgi, þar sem litið er til áhrifa á umhverfi, samfélag og efnahag, er viðfangsefni sem kanna þarf með víðtækri nálgun þvert á fræðasvið. Slík heildarúttekt hefur ekki farið fram hérlendis.
    Leiðir til að efla slíkar rannsóknir eru margvíslegar, en það sem snýr að verkefnum matvælaráðuneytisins og undirstofnunum þess, væri m.a. að efla rannsóknir Hafrannsóknastofnunar.
    Matvælaráðuneytið setti á fót verkefnið Auðlindin okkar í byrjun árs 2022, en markmið þess er að marka stefnu um sjávarútveg á breiðum grunni í víðtæku samráði. Meðal viðfangsefna fjögurra starfshópa er að fjalla um og greina stöðu, áskoranir og tækifæri er varða fiskveiðistjórnun, rannsóknir, vísindi og fleiri þætti, með tilliti til sjálfbærni, umhverfisáhrifa, samfélags- og efnahagsáhrifa.

     3.      Hvaða áhrif hafa alþjóðlegar skuldbindingar Íslands frá COP15-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Montréal árið 2022, um friðun allt að 30% hafsvæða heims, á nýtingu sjávarauðlindarinnar með tilliti til ólíkra veiðarfæra? Telur ráðherra þörf á frekari rannsóknum á áhrifum veiðarfæra til undirbyggja slíkar ákvarðanir?
    Fimmtánda aðildarríkjaþing Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni var haldið í Montreal í Kanada dagana 7.–19. desember 2022. Þinginu lauk með samkomulagi um nýjan ramma um stefnu og aðgerðaáætlun um líffræðilega fjölbreytni til ársins 2030 (Global biodiversity framework). Stefnan felur m.a. í sér markmið um að komið verði á vel tengdu neti verndarsvæða á 30% lands og hafsvæða fyrir árið 2030. Samkomulagið kveður á um að við skilgreiningu verndarsvæða þurfi verndarmarkmið að vera skýr og stýring svæðisins eftir því. Ekki er kveðið á um að tilgreind verndarsvæði útiloki allar nytjar innan þeirra marka. Hins vegar er, í umfjöllun um 30% svæðavernd (Target 3 í CBD/COP/DEC/15/4), gert ráð fyrir að svæði geti flokkast með aðra virka svæðisvernd (e. other effective area based conservation measures; OECMs) þar sem sjálfbær nýting er í samræmi við sett verndarmarkmið.
    Það fer því eftir markmiði verndunarinnar og verndarþörf viðkomandi svæðis og/eða lífríkis hvort nytjar og ólík veiðarfæri geti samrýmst verndarráðstöfunum. Ávallt ber þó að tryggja að nytjarnar séu sjálfbærar innan marka slíks svæðis. Æskilegt er að auka rannsóknir bæði á lífríkinu á hafsvæðum við Ísland og áhrifum veiðarfæra á ólíkt vistkerfi.

1     timarit.is/page/4857735#page/n11/mode/2up
2     www.hafogvatn.is/static/research/files/fjolrit-140.pdf
3     www.hafogvatn.is/static/research/files/fjolrit-151.pdf
4     www.mbl.is/greinasafn/grein/624465/
5     academic.oup.com/icesjms/article/60/6/1200/652072
6     www.int-res.com/articles/meps2009/385/m385p051.pdf
7     www.hafogvatn.is/static/research/files/1527087852-hv2018-24.pdf
8     www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0141113615000707?via%3Dihub