Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1237  —  524. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Orra Páli Jóhannssyni um rammaáætlun.


     1.      Hvað líður endurmati þeirra átta virkjunarkosta í biðflokki rammaáætlunar sem í tillögu verkefnisstjórnar þriðja áfanga voru annars vegar í nýtingarflokki og hins vegar verndarflokki? Hefur endurmati þessara virkjunarkosta verið hraðað í meðförum verkefnisstjórnar rammaáætlunar?
    Verkefnisstjórn rammaáætlunar fékk átta virkjunarkosti til endurmats eftir samþykkt Alþingis á 3. áfanga rammaáætlunar í lok júní síðastliðins. Verkefnisstjórn hefur yfirfarið þau tilmæli sem sett voru fram í afgreiðslu Alþingis á þessum tilteknu virkjunarkostum og ástæður þeirra breytinga sem gerðar voru á röðun þeirra. Jafnframt hefur verkefnisstjórn átt í samskiptum við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið um sameiginlegan skilning á því að við endurmat verkefnisstjórnar verði eingöngu fjallað um þau efnisatriði sem Alþingi tilgreindi og óskaði að séu skoðuð frekar. Til þess að vinna að þessu endurmati skiptir verkefnisstjórn þessum átta virkjunarkostum í fjögur verkefni eða 1) virkjunarkostina fjóra í Héraðsvötnum, 2) Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, þar sem horft verði til áhrifa Hvammsvirkjunar, 3) um Skrokköldu og 4) um Kjalölduveitu. Undirbúningur þessara verkefna er kominn vel af stað og hefur þeirri vinnu verið hraðað eins og kostur er.

     2.      Er horft til allra framkominna virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Hvammsvirkjunar, Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar, við mat á samfélagslegum áhrifum fyrirhugaðra virkjana á nærsamfélagið?
    Já, horft verður til þess. Við framkvæmd endurmats á virkjunarkostunum Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun sem Alþingi færði úr nýtingarflokki í biðflokk, er það sérstaklega tilgreint að verkefnisstjórn hafi til hliðsjónar Hvammsvirkjun sem er í nýtingarflokki samþykktrar rammaáætlunar.

     3.      Hvað líður undirbúningi fyrir friðlýsingu svæða gagnvart orkuvinnslu í verndarflokki rammaáætlunar, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun? Svar óskast sundurliðað eftir svæðum í verndarflokki rammaáætlunar.
    Hinn 15. júní 2022 samþykkti Alþingi þingsályktun um uppfærða flokkun virkjunarkosta í rammaáætlun. Við það féll fyrri flokkun virkjunarkosta í rammaáætlun úr gildi. Meðal annars féllu úr verndar- og orkunýtingaráætlun 28 virkjunarkostir sem flokkaðir höfðu verið í biðflokk en enginn virkjunaraðili stóð að baki þeim kostum.
    Staða virkjunarkosta í verndarflokki rammaáætlunar er eftirfarandi í desember 2022:
    Vatnsafl Skjálfandafljót     R3109A     Fljótshnjúksvirkjun
    Undirbúningur ekki hafinn.
    Vatnsafl Skjálfandafljót     R3110A     Hrafnabjargavirkjun A
    Undirbúningur ekki hafinn.
    Vatnsafl Skjálfandafljót     R3110B     Hrafnabjargavirkjun B
    Undirbúningur ekki hafinn.
    Vatnsafl Skjálfandafljót     R3110C     Hrafnabjargavirkjun C
    Undirbúningur ekki hafinn.
    Vatnsafl Skaftá     R3140A     Búlandsvirkjun
    Tillaga að friðlýsingu er komin í kynningu.
    Vatnsafl Djúpá     R3114A     Djúpárvirkjun
    Vinna hófst við afmörkun verndarsvæðisins á árinu 2020. Við vinnuna varð ljóst að ómögulegt væri að skilgreina verndarsvæði Djúpár án þess að friðlýsingin næði inn fyrir svæði virkjunarkostsins R3155A Núpsárvirkjun sem var til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar og taldist því í biðflokki, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011 en þar segir: „Virkjunarkostir sem verndar- og orkunýtingaráætlun á að taka til skv. 3. mgr. 3. gr. og ekki hefur verið tekin afstaða til í gildandi verndar- og orkunýtingaráætlun skulu lúta sömu reglum og virkjunarkostir í biðflokki áætlunarinnar.“ Þar sem ekki er heimilt að friðlýsa landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti í biðflokki var vinna við friðlýsingu Djúpárvirkjunar sett á bið. Núpsárvirkjun er einn þeirra 28 kosta sem voru felldir úr rammaáætlun þegar 3. áfangi áætlunarinnar var samþykktur. Vinna við friðlýsingu Djúpárvirkjunar hefur ekki verið tekin upp að nýju.
    Vatnsafl Markarfljót     R3122A     Markarfljótsvirkjun A
    Vatnsafl Markarfljót     R3123B     Markarfljótsvirkjun B
    Þann 18. október 2018 lagði Umhverfisstofnun fram til kynningar tillögu að friðlýsingu vatnasviðs Markarfljóts: 22 Markarfljótsvirkjun A og 23 Markarfljótsvirkjun B á grundvelli flokkunar svæðisins í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar, sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013.
    Lögð var fram tillaga að auglýsingu um friðlýsingu svæðisins og kort þar sem tillaga að mörkum svæðisins var dregin upp. Frestur til að skila athugasemdum var til og með 23. janúar 2019.
    Umhverfisstofnun tók saman umsögn um fram komnar athugasemdir við tillöguna og vísað í tillögu að friðlýsingarskilmálum til ráðherra 26. júní 2019 skv. 2. mgr. 39. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.
    Vatnsafl Þjórsá – vestur     R3127B     Norðlingaölduveita, 566–567,5 m y.s.
    Undirbúningur ekki hafinn.
    Jarðvarmi Hengilssvæði     R3274A     Bitra
    Jarðvarmi Hengilssvæði     R3277A     Grændalur
    Vinna hófst við afmörkun verndarsvæðisins fyrir Bitru og Grændal á árinu 2020. Við vinnuna varð ljóst að ómögulegt væri að skilgreina verndarsvæði Bitru og Grændals (virkjunarkostirnir eru á sama landsvæði) án þess að friðlýsingin næði inn fyrir svæði virkjunarkostsins R4276B Ölfusdalur sem sendur var inn til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn 4. áfanga í lok febrúar 2020. Fyrirhugað nýtingarsvæði þess virkjunarkosts liggur að hluta til á sama svæði og virkjunarkostirnir Bitra og Grændalur. Þar sem ekki er heimilt að friðlýsa landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti í biðflokki var vinna við friðlýsingu Bitru og Grændals sett á bið.
    Einnig má benda á að skoðun umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins hefur sýnt að afmörkun svæðisins er afar flókin og að ekki sé hægt að beita sömu aðferðafræði við afmörkun þess og beitt var við afmörkun þeirra jarðvarmasvæða sem þegar hafa verið friðlýst á grundvelli rammaáætlunar.