Ferill 672. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1247  —  672. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu.


     1.      Hyggst ráðherra auka aðgengi fólks að sálfræðiþjónustu óháð efnahag með því að niðurgreiða slíka heilbrigðisþjónustu, sbr. heimild þar um í lögum um sjúkratryggingar?
    Í 1. mgr. 21. gr. a laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, er kveðið á um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegrar sálfræðimeðferðar og annarrar gagnreyndrar samtalsmeðferðar heilbrigðisstarfsmanna sem samið hafi verið um skv. IV. kafla laganna. Segir í 2. mgr. ákvæðisins að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar þar sem m.a. sé heimilt að kveða á um nánari skilyrði og takmörkun greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við sálfræðimeðferð.
    Ákvæðið kom inn í lög um sjúkratryggingar með lögum nr. 93/2020 og öðlaðist gildi 1. janúar 2021. Í athugasemdum í frumvarpi til laga nr. 93/2020 kemur fram að markmiðið með frumvarpinu hafi verið að almenn sálfræðiþjónusta og önnur klínísk viðtalsúrræði falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga og þannig veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta. Er vísað til þess að vaxandi fjöldi fólks greinist með geðraskanir eða önnur andleg veikindi en aðgengi að úrræðum og þjónustu fyrir þennan hóp sé takmarkaður og kostnaður oft töluverður.
    Að því er varðar aðgang að niðurgreiddri sálfræðiþjónustu bendir ráðherra á að þegar hefur verið gripið til aðgerða til að auka aðgang að þjónustunni með rammasamningi milli Sjúkratrygginga og sálfræðinga, sem fengið hafa samþykkt stofnunarinnar til að starfa samkvæmt samningnum, um sálfræðiþjónustu. Samningurinn tók gildi þann 17. október sl. og geta sálfræðingar, sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í samningnum, gerst aðilar að honum. Samningurinn tekur til sálfræðiþjónustu við börn og unglinga til 18 ára aldurs, annars vegar með kvíðaröskun eða þunglyndi af einhverjum toga (vægt og meðal-) og hins vegar með alvarlegar geð-, hegðunar- og þroskaraskanir, auk þjónustu við fullorðna með kvíðaröskun eða þunglyndi (vægt og meðal-). Forsenda fyrir meðferð er að fyrir liggi tilvísun ýmist frá heilsugæslustöð eða frá þverfaglegu greiningarteymi heilbrigðisstarfsmanna sem starfar á vegum aðila sem er með samning við Sjúkratryggingar um tilvísanir.
    Með samningnum hefur ráðherra aukið möguleika fólks á að sækja sér sálfræðiþjónustu sem greidd er af Sjúkratryggingum. Má jafnframt benda á að á fjárlögum 2022 voru framlög til samninga Sjúkratrygginga um sálfræðiþjónustu aukin um 150 millj. kr. og voru þá 250 millj. kr. sérgreind framlög á fjárlögum til að semja um sálfræðiþjónustu. Er fyrrgreindur rammasamningur skref í þá átt að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu óháð efnahag.

     2.      Ef ekki, hvers vegna nýtir ráðherra ekki þá lagaheimild sem Alþingi hefur veitt til þess að niðurgreiða sálfræðiþjónustu?
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar hefur verið samið um greiðsluþátttöku vegna sálfræðiþjónustu sem fellur undir umræddan rammasamning, veittrar af þeim sálfræðingum sem eru aðilar að samningnum.

     3.      Telur ráðherra það samræmast hugmyndafræði um jafnt aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag þegar staðan er sú að fjölmargir þurfa að neita sér um þessa heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar?
    Það er viðvarandi verkefni ráðherra að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag í samræmi við markmið laga um sjúkratryggingar. Fyrrgreindur rammasamningur um greiðsluþátttöku vegna sálfræðiþjónustu og aukið fjármagn í málaflokkinn er skref í þá átt að auka aðgengi fólks að sálfræðiþjónustu sem greidd er af Sjúkratryggingum. Umfangsmeiri greiðsluþátttaka er háð frekari fjárframlögum en í ljósi þess um hve mikilvæga þjónustu er að ræða standa vonir til þess að unnt verði að auka greiðsluþátttöku og þar með aðgengi fólks að þjónustunni.
    Einnig er vert að taka fram að geðheilbrigðisþjónustan hefur almennt verið efld undanfarin ár með auknu fjármagni. Þverfagleg geðheilbrigðisþjónusta í heilsugæslu um land allt hefur meðal annars verið styrkt til muna. Almenn geðheilbrigðisteymi innan heilsugæslunnar hafa verið styrkt á landsvísu og sálfræðingum í teymunum verið fjölgað. Sérstök geðheilsuteymi hafa einnig verið stofnuð fyrir fanga, fjölskyldur, taugaþroskaraskanir og ADHD-greiningar fullorðinna. Geðheilsumiðstöð barna var síðan stofnuð í apríl 2022. Gegna sálfræðingar mikilvægum hlutverkum í öllum þessum þverfaglegu teymum.
    Að lokum var stefna í geðheilbrigðismálum samþykkt á síðasta þingi og verður metnaðarfull aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum lögð fyrir þingið á næstu vikum þar sem áhersla er lögð á veitingu árangursríkrar og tímanlegar heilbrigðisþjónustu á viðeigandi stað innan heilbrigðiskerfisins.