Ferill 617. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1263  —  617. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.


     1.      Hvert geta starfsmenn háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis leitað sem telja sig verða fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti og áreitni eða annars konar ofbeldi?
    Ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands hafa sett sér sameiginlega stefnu, forvarna- og viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins vegna svonefndra EKKO-mála (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og ofbeldi), útg. 16. júní 2022. Stefnunni er ætlað að tryggja að úrræði séu til staðar sem stuðla að forvörnum og verkferlum í samræmi við ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015. Í viðbragðsáætlun stefnunnar segir m.a. að ef starfsmaður hafi orðið fyrir, verið vitni að, eða hafi rökstuddan grun um að tilvik tengt EKKO hafi átt sér stað skuli hann upplýsa sinn næsta yfirmann eða mannauðsstjóra ráðuneytis (eða annan ábyrgðaraðila málaflokksins innan ráðuneytisins). Þá skuli ráðuneytin upplýsa á sínum innri vefjum hafi þau gert samstarfssamning við fagaðila starfsfólki ráðuneytis til aðstoðar og ráðgjafar í EKKO-málum. Aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga eða fagaðila getur einnig verið í formi viðtalsmeðferðar hjá sálfræðingi vegna álags í starfi, ráðgjöf eða önnur aðkoma að máli.
    Ef fyrir liggur formleg kvörtun af hálfu starfsmanns um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi er fylgt verklagsreglum um meðferð slíkra mála þar sem fram fer frumathugun í ráðuneyti á því hvort tilkynning falli undir skilgreiningar b–e-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Áður en slík athugun fer fram þarf að liggja fyrir samþykki tilkynnanda fyrir málsmeðferð sem felur m.a. í sér að meintum geranda er veittur andmælaréttur um fram komnar ávirðingar. Ef frumathugun ráðuneytis leiðir til þess að líkur eru taldar á að háttsemi falli undir b–e-lið 3. gr. reglugerðarinnar er næsta skref að leita til óháðra sérfræðinga eða fagaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins sem sérhæfðir rannsakendur slíkra mála og þeim falið að rannsaka ávirðingar með viðtölum við málsaðila og vitni. Markmið slíkrar rannsóknar er að skilað verði áliti um hvort málsatvik uppfylli skilgreind viðmið b–e-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 eða hvort um annars konar vanda sé að ræða, svo sem samskiptavanda á vinnustað. Lagðar eru fram tillögur að úrbótum í framhaldinu fyrir málsaðila sem og annað starfsfólk á vinnustaðnum.
    Í EKKO-stefnu Stjórnarráðsins og sameiginlegri forvarna- og viðbragðsáætlun vegna svonefndra EKKO-mála er ekki fjallað sérstaklega um þær aðstæður þegar meintur gerandi, sem beitt hefur neikvæðri eða ótilhlýðilegri hegðun, er æðsti yfirmaður ráðuneytis, ráðherra eða ráðuneytisstjóri.
    Í samningum sem ráðuneyti hafa gert við fagaðila um sálrænan stuðning við starfsmenn vegna EKKO-mála er að jafnaði boðið upp á slíka þjónustu með nafnleynd og bera reikningar ekki með sér um hvaða starfsmann er að ræða.

     2.      Hefur ráðuneytið gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn sl. 5 ár? Ef svo er, hvert var tilefni slíks samnings/samninga og hver var kostnaður af honum/þeim? Svör óskast sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, sem tók til starfa 1. febrúar 2022, hefur ekki gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn. Það hefur þó ekki staðið í vegi fyrir því að starfsmönnum standi til boða slík þjónusta og nema útgjöld vegna þessa nú 42.000 kr. Reikningar fyrir þjónustuna bera ekki með sér hvernig þau útgjöld skiptast niður á málefnasvið eða skrifstofur í ráðuneytinu. Eldri gögn eru í ráðuneytum sem áður fóru með málaflokkana.

     3.      Hver er útlagður kostnaður ráðuneytisins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. 5 ár? Svar óskast sundurliðað eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Sjá svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Hvað varðar útgjöld vegna slíkrar þjónustu í þeim ráðuneytum sem fóru áður með málefnasvið ráðuneytisins þá liggja slíkar upplýsingar ekki fyrir í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.