Ferill 703. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1280  —  703. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um kaup á ríkiseignum í gegnum Lindarhvol ehf. og gagnsæi við ráðstöfun opinberra hagsmuna.


     1.      Á hvaða forsendum tók ráðherra þá ákvörðun að birta ekki lista yfir alla kaupendur eigna (skuldabréfa, hlutabréfa, krafna og annarra eigna) í gegnum söluferli hjá Lindarhvoli, í ljósi þess að ráðherra tók sjálfstæða ákvörðun um að birta lista yfir alla kaupendur í seinni sölu á hlutabréfum í Íslandsbanka?
    Ráðherra tók enga ákvörðun um að birta ekki lista yfir kaupendur eigna sem Lindarhvoli var falin umsýsla með. Fullyrðingin sem í spurningunni felst á því ekki við rök að styðjast.
Upplýsingar um sölu allra eigna sem Lindarhvoli ehf. var falið að ráðstafa voru birtar jafnóðum á vef Lindarhvols, lindarhvolleignir.is. Þá voru upplýsingar um framgang sölu og úrvinnslu stöðugleikaeigna reglulega sendar Alþingi í samræmi við áskilnað laga nr. 24/2016. Þær greinargerðir voru jafnframt birtar á vef félagsins og á vef ráðuneytisins.
    Upplýsingar um hvaða eignir voru seldar af hálfu Lindarhvols, söluverð þeirra, hvenær sala fór fram og sölufyrirkomulag hafa þannig verið birtar opinberlega og eru þessi atriði tekin saman í meðfylgjandi töflu:

Eign Verð Tími Fyrirkomulag sölu Kaupendur
Óverðtryggð ríkisbréf í þremur flokkum 1,9 ma.kr. maí 2016 Sala á markaði í umsjá Lánamála ríkisins. Útboðsfyrirkomulag gegnum aðalmiðlara ríkisskuldabréfa sem annast einnig tilboðsgerð fyrir fjárfesta.*
Skuldabréf án ríkisábyrgða í fjórum flokkum 2,4 ma.kr. maí 2016 Sala á markaði í umsjá Lánamála ríkisins. Útboðsfyrirkomulag þar sem fjármálafyrirtæki önnuðust tilboðsgerð fyrir fjárfesta. *
Eignarhlutur í Reitum fasteignafélagi hf. 3,9 ma.kr. ágúst 2016 Skráð félag. Sala með útboði í umsjá Landsbankans. *
Eignarhlutur í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. 2,8 ma.kr. september 2016 Skráð félag. Sala með útboði í umsjá Landsbankans. *
Eignarhlutur í Símanum hf. 0,27 ma.kr. ágúst 2016 Skráð félag. Sala á almennum hlutabréfamarkaði í umsjá Landsbankans. **
Eignarhlutur í Eimskipum hf. 0,38 ma.kr. ágúst 2016 Skráð félag. Sala á almennum hlutabréfamarkaði í umsjá Landsbankans. **
Eignarhlutur í Vörukaupum ehf. 0,13 ma.kr. október 2016 Opið söluferli í umsjá Lindarhvols. Xyzeta ehf.
Kröfur á hendur Glitni Holdco ehf. 0,5 ma.kr. nóvember 2016 Opið söluferli í umsjá Lindarhvols. SC Lowy Primary Investments Ltd.
Kröfur á hendur Klakka ehf. 0,5 ma.kr. nóvember 2016 Opið söluferli í umsjá Lindarhvols. BLM fjárfestingar ehf.
Hlutafé í Lyfju hf. 4,4 ma.kr. febrúar 2018 Opið söluferli í umsjá Kviku banka SID ehf.
Samtals 17 ma.kr.
*    Ríkisskuldabréf og önnur skuldabréf seld með útboðsfyrirkomulagi á vegum Lánamála ríkisins. Einnig voru eignarhlutir í Reitum og Sjóvá seldir með tilboðsfyrirkomulagi í opnu útboði í umsjá Landsbankans. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki upplýsingar um kaupendur í þeim útboðum.
**    Með sölu á markaði eru kaupendur ekki samþykktir af seljanda. Þess í stað eru kaupendur og seljendur tengdir saman af verðbréfamiðstöð og er það fyrirkomulag til þess fallið að stuðla að eðlilegri verðlagningu. Seljandi hefur þannig ekki beina aðkomu að því hver kaupir viðkomandi eign og verðbréfamiðstöðin tryggir að skilyrði séu uppfyllt og viðskipti séu örugg. Verð ræðst af framboði og eftirspurn og er markaðsverð.

     2.      Gilda önnur sjónarmið að mati ráðherra um hagsmuni almennings af því að gagnsæi ríki um sölu á ríkiseignum hvað varðar Lindarhvol en um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka?
    Nei, sömu sjónarmið gilda að mati ráðherra óháð því hvaða eignir eiga í hlut, enda hefur af hálfu ráðherra og ráðuneytisins verið lögð áhersla á fullt gagnsæi með birtingu viðeigandi gagna og upplýsinga í öllum tilfellum þar sem lög standa því ekki í vegi.

     3.      Tekur ráðherra undir að mikilvægt sé að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna?
    Já.

     4.      Tekur ráðherra undir mikilvægi þess að stjórnvöld stefni að því að auka traust almennings til stjórnsýslunnar með því að birta upplýsingar um ráðstöfun eigna ríkisins?
    Já. Af þeim sökum verður áfram, líkt og áður fyrr, lögð áhersla á fullt gagnsæi með birtingu viðeigandi gagna og upplýsinga í öllum tilfellum þar sem lög standa því ekki í vegi.