Ferill 722. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1282  —  722. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um neyðarbirgðir af lyfjum o.fl.


     1.      Hver er staðan á neyðarbirgðum í landinu af lyfjum, lækningatækjum og íhlutum til heilbrigðisþjónustu ef koma skyldi til stöðvunar á innflutningi? Til hve langs tíma myndu þær endast?
    Reglugerð nr. 817/2012, um sóttvarnaráðstafanir, kveður á um að sóttvarnalæknir skuli hafa umsjón með afhendingu, dreifingu og notkun öryggisbirgða lyfja, sem kveðið er á um í I. viðauka í fylgiskjali 1, og annars nauðsynlegs búnaðar í landinu til að bregðast við heilbrigðisógnum á borð við farsóttir eða aðra vá. Í upplýsingum frá sóttvarnalækni og Landspítala kemur fram að hjá birgjum liggja um mánaðarbirgðir þeirra lyfja sem eru skilgreindar sem vábirgðir sóttvarnalæknis og þriggja mánaða birgðir af innrennslisvökvum. Einnig eiga birgjar að halda tveggja mánaða birgðir á lyfjum sem samið hefur verið um í kjölfar opinbers innkaupaferlis. Sóttvarnalæknir heldur einnig úti lager af neyðarbirgðum hlífðarbúnaðar.

     2.      Er fyrirséð að grípa þurfi til forgangsröðunar við veitingu heilbrigðisþjónustu ef koma skyldi til stöðvunar á innflutningi framangreindra vara um einhvern tíma? Er til aðgerðaáætlun vegna þess?
    Eins og staðan er í dag er ekki fyrirséð að grípa þurfi til forgangsröðunar við veitingu heilbrigðisþjónustu vegna mögulegrar stöðvunar á innflutningi framangreindra vara. Markmiðið með því birgðahaldi vábirgða sem fjallað er um hér að framan er að fyrirbyggja að neyðarástand skapist vegna tímabundinna aðstæðna sem hindra innflutning.
    Í samræmi við lög um almannavarnir eru til viðbragðsáætlanir vegna almannavarnaástands sem og vegna heimsfaraldurs. Jafnframt setur hver og ein heilbrigðisstofnun sér viðbragðsáætlun. Þá liggur fyrir ályktun Alþingis um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu, nr. 38/150, þar sem segir m.a. að „almenn sátt ríki um að þeir sem eru í brýnustu þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma skuli ganga fyrir“ og einnig að „eftirspurn ein og sér skuli almennt ekki stýra forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu heldur mat á raunverulegri þörf sem metin er eftir alvarleika og umfangi hvers vanda.“ Að lokum skal á það bent að þegar kom að bólusetningu við COVID-19 var forgangsröðun í það takmarkaða magn af lyfjum sem var til staðar ákveðin með reglugerð sem unnin var í samræmi við viðmið alþjóðastofnana og með hliðsjón af áhættu sjúkdómsins fyrir ólíka hópa.