Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1287  —  326. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (gjaldmiðlaáhætta og upplýsingagjöf til sjóðfélaga).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur, Tinnu Finnbogadóttur og Ólaf Heiðar Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Þóri Gunnarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Sigrúnu Hauksdóttur frá Arion banka hf., Hilmar Harðarson, Ólaf Sigurðsson, Þóreyju S. Þórðardóttur og Árna Hrafn Gunnarsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Stein Friðriksson, Gunnar Ingólfsson, Sigurð G. Hafstað og Jónas Þór Brynjarsson frá Seðlabanka Íslands.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Arion banka hf., Landssamtökum lífeyrissjóða og Seðlabanka Íslands, auk minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Frumvarpið var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi (þskj. 807, 568. mál) en kom ekki til afgreiðslu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða sem snúa að gjaldeyrisáhættu og breytingar á reglum um upplýsingaskyldu til sjóðfélaga.

Umfjöllun nefndarinnar.
Upplýsingagjöf til sjóðfélaga.
    Í 2. og 3. mgr. 18. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, er kveðið á um skyldu lífeyrissjóða til þess að senda sjóðfélaga tilteknar upplýsingar, m.a. um áunninn lífeyrisrétt, rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins, breytingar á samþykktum og yfirlit yfir iðgjaldagreiðslur. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að við þá skyldu bætist tiltekin upplýsingagjöf til nýrra sjóðfélaga. Að auki er kveðið á um það nýmæli að heimilt sé að birta yfirlit og upplýsingar samkvæmt framangreindu rafrænt á vefsvæði þar sem rafrænnar auðkenningar er krafist. Þó skuli sjóðfélagi sem eftir því óskar fá gögn og upplýsingar á pappírsformi sér að kostnaðarlausu.
    Við umfjöllun nefndarinnar var vel tekið í þau áform að leggja aukna áherslu á rafræna upplýsingagjöf lífeyrissjóðanna. Í umsögnum komu þó fram ábendingar þess efnis að mikið af þeim upplýsingum sem lífeyrissjóðum yrði skylt að birta nýjum sjóðfélögum væri almenns eðlis og ekki sérstök ástæða til að hafa þær upplýsingar aðgengilegar einungis á vefsvæði sem þarfnist rafrænnar auðkenningar. Auk þess sem bent var á að ekki væri ljóst hvort undir hugtakið „vefsvæði“ gætu flokkast aðrar rafrænar lausnir en vefsíða sjóðanna, t.d. smáforrit á síma. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingu sem nánar er gerð grein fyrir í umfjöllun um breytingartillögur meiri hlutans.
    Þá kom fram að eðlilegt væri að heimila lífeyrissjóðum gjaldtöku fyrir afhendingu upplýsinga á pappírsformi að einhverjum tíma liðnum. Í minnisblaði ráðuneytisins er bent á að sjóðfélagar væru misvel settir með að nýta sér stafræna tækni. Þar sem um mikilvæg réttindi væri að ræða og nauðsynlegt að allir hefðu greiðan aðgang að þeim væri ekki tilefni til slíkra breytinga. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið.

Innleiðingartími heimildar til aukinna fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum (2. mgr. 4. gr.).
    Í 2.-5. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem snúa að gjaldeyrisáhættu og heimildum til kaupa á afleiðum. Í 4. gr. er lögð til sú breyting að lágmark eigna lífeyrissjóðs í innlendum gjaldmiðli lækki úr 50% í 35%. Gert er ráð fyrir að breytingin taki gildi í þrepum og komi að fullu til framkvæmda 1. janúar 2036.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið þess efnis að eðlilegt kynni að vera að innleiðing ákvæðisins færi fram á skemmri tíma. Var bent á að rýmkunin yrði í reynd einungis nýtt af nokkrum lífeyrissjóðum og að mikilvægt væri að auka hlutdeild erlendra eigna í eignasafni þeirra vegna áhættudreifingar í ljósi smæðar hagkerfisins.
    Líkt og rakið er í minnisblaði ráðuneytisins komu sömu athugasemdir fram fyrir framlagningu frumvarpsins á 152. löggjafarþingi og hefur að nokkru leyti verið brugðist við þeim. Þannig hefur árleg hækkun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða í erlendum gjaldmiðlum verið rýmkuð úr 1% í 1,5% fyrstu fjögur ár tímabilsins. Við bætist rýmkun á heimildum sjóðanna í ljósi 5. gr. frumvarpsins sem felur í sér að breytingar á gengi og verðhækkanir á erlendum mörkuðum hafi ekki þau áhrif að lífeyrissjóðum beri að grípa til ráðstafana til þess að koma gjaldeyrisáhættunni í það horf að hún sé innan lögbundinna viðmiða. Með vísan til þess og nánari umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins telur meiri hlutinn ekki forsendur til þess að ganga lengra í innleiðingu ákvæðisins en lagt er til.
    Ástæða er til þess að benda á að 2. mgr. 4. gr. er í reynd markaður ákveðinn gildistími og mun áhrifa ákvæðisins í framkvæmd ekki gæta eftir 1. janúar 2036. Við framlagningu frumvarpsins á 152. löggjafarþingi var lagt til að ákvæðinu yrði skipað meðal annarra ákvæða til bráðabirgða í lögunum. Þótt ákvæðið sé í eðli sínu bráðabirgðaákvæði verður að telja sjónarmið um skýrleika laga mæla með þeirri leið sem er farin í frumvarpinu að þessu sinni, þ.e. að reglan, þótt gildistími hennar sé afmarkaður, komi fram í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins.

Undanþága frá skyldu lífeyrissjóða til að gera ráðstafanir til úrbóta (5. gr.).
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ný málsgrein bætist við 37. gr. laganna sem kveður á um skyldu lífeyrissjóða til að gera ráðstafanir til úrbóta fari fjárfestingar þeirra fram úr mörkum. Nánar tiltekið er lagt til að ákvæðið eigi ekki við nema að því er varðar tilkynningarskylduna í þeim tilvikum þegar breytingar á gengi íslensku krónunnar eða verðhækkanir á erlendum eignamörkuðum leiða til þess að gjaldmiðlaáhætta lífeyrissjóða fari fram úr leyfilegum mörkum.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands er lagt til að undanþágan gildi til bráðabirgða og renni sitt skeið þegar því hámarki sem kveðið er á um í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er náð. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að tillagan byggist á tillögu Más Guðmundssonar um að rýmka heimildir til þess að gera ráðstafanir til úrbóta. Tillagan sneri að því að gera lífeyrissjóðum betur kleift að nýta heimildir laganna til fjárfestingar í öðrum myntum en íslensku krónunni sem best, en ekki ætlað að taka á tímabundnum aðstæðum meðan aðlögun að nýju hámarki ætti sér stað. Óheppilegt væri í ljósi sveiflna í gengi gjaldmiðla og óvissu um ávöxtun á erlendum mörkuðum, sem geta orðið þess valdandi að lífeyrissjóðir fari yfir lögbundið hámark, að ákvæðið gilti til bráðabirgða.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Skýrari framsetning á ákvæði um upplýsingaskyldu lífeyrissjóða (1. gr.).
    Líkt og að framan er rakið komu fram ábendingar um að ákvæði 1. gr. frumvarpsins, sem kveður á um skyldu lífeyrissjóða til þess að birta tilteknar upplýsingar með rafrænum hætti á vefsvæði sem þarfnast rafrænnar auðkenningar væri ekki skýrt um það hvort mið væri tekið af mismunandi tæknilausnum lífeyrissjóða auk þess sem óþarft kynni að vera að takmarka birtingu almennra upplýsinga á vefsvæði sem þarfnast rafrænnar auðkenningar. Í minnisblaði ráðuneytisins er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt þannig að fallið verði frá því að tilgreina að upplýsingarnar skuli birtar á vefsvæði, auk þess sem greint verði á milli almennra upplýsinga og þeirra upplýsinga sem eðlilegt er að séu einungis aðgengilegar með rafrænni auðkenningu sjóðfélaga. Meiri hlutinn tekur undir þessa tillögu og gerir hana að sinni.

Aðrar breytingar vegna laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs, nr. 55/2022.
    Við umfjöllun nefndarinnar benti ráðuneytið á að við undirbúning frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs (lágmarkstryggingavernd, tilgreind séreign o.fl.), sem varð að lögum nr. 55/2022, hefði orðalag ákvæða misfarist lítillega. Nánar tiltekið væri um að ræða þrjú atriði í 2. gr. laganna sem breytti 4. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Um er að ræða leiðréttingar sem ætlað er að tryggja virkni laganna eins og gert er ráð fyrir í greinargerð frumvarpsins (þskj. 1033, 609. mál á 152. löggjafarþingi).
    Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að fram komi í 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna að lágmarkstryggingavernd skuli nema 1,8% af iðgjaldsstofni sem greitt er af á ári miðað við 40 ára inngreiðslutíma sé tilgreint að lágmarkstryggingaverndin skuli „að meðaltali nema“ 1,8% iðgjaldastofni.
    Í öðru lagi er lagt til að vísun til 3. málsl. 1. mgr. í 2. mgr. 4. gr. laganna verði breytt í vísun til 2. málsl. 1. mgr. Um er að ræða leiðréttingu á misritun.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á orðalagi 3. mgr. 4. gr. laganna til að tryggja að lífeyrissjóðum sé heimilt að halda óbreyttu fyrirkomulagi á skiptingu iðgjalds í sameign og séreign, sem hvort tveggja í senn getur verið varið til bundinnar og frjálsrar séreignar. Að óbreyttu kemur ákvæðið í veg fyrir að lífeyrissjóðum verði áfram heimilt að ráðstafað lífeyrisiðgjaldi til svokallaðrar frjálsrar séreignar eða viðbótartryggingaverndar samkvæmt lögum nr. 129/1997.

Gildistaka.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023. Í ljósi þess að sú dagsetning er liðin leggur meiri hlutinn til að lögin öðlist þegar gildi, að undanskildum a-lið 1. gr. frumvarpsins, sem öðlist gildi 1. apríl 2023.

    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
              Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „skal nema“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: skal að meðaltali nema.
                  b.      Í stað tilvísunarinnar „1. og 3. málsl. 1. mgr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 1. og 2. málsl. 1. mgr.
                  c.      4. mgr. orðast svo:
                     Lífeyrissjóði sem ráðstafar lífeyrisiðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar og viðbótartryggingaverndar skv. 2. mgr. 3. gr. er heimilt að veita sjóðfélaga sömu lágmarkstryggingavernd og skv. 3. málsl. 2. mgr.
     2.      Efnismálsgrein b-liðar 1. gr. orðist svo:
                  Lífeyrissjóðum er heimilt að birta yfirlit og upplýsingar skv. 2. og 3. mgr. á rafrænan hátt þar sem rafrænnar auðkenningar sjóðfélaga er krafist. Við rafræna birtingu upplýsinga skv. 2. mgr. sem teljast almenns eðlis þarf þó ekki að krefjast rafrænnar auðkenningar sjóðfélaga. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsl. skal sjóðfélagi sem eftir því óskar fá gögn og upplýsingar á pappírsformi sér að kostnaðarlausu.
     3.      6. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal a-liður 2. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. apríl 2023.

    Ásthildur Lóa Þórsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Logi Einarsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir.