Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 1288  —  581. mál.
Undirskriftir.

Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um hungursneyðina í Úkraínu (Holodomor).

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Hjartardóttur, Bylgju Árnadóttur, Helen Ingu Stankiewicz von Ernst, Jóhann Þorvarðarson og Ragnar Þorvarðarson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi lýsi því yfir að hungursneyðin í Úkraínu sem stóð yfir frá 1932 til 1933 hafi verið hópmorð.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hungursneyðin í Úkraínu var af völdum alræðisstjórnar Stalíns og dró milljónir Úkraínumanna til dauða. Farið er yfir skilgreiningu á hópmorði sem er sérstakur glæpur að alþjóðalögum, verknaðir framdir í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúflokki sem slíkum. Til slíkra verknaða teljast morð á einstaklingum úr viðkomandi hópi, veiting alvarlegra líkamlegra eða andlegra áverka, vísvitandi skerðing á lífsskilyrðum hópsins sem miðar að útrýmingu hans í heild eða að hluta, vísvitandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir barnsfæðingar í hópnum eða flutningur barna með valdi úr hópnum til annars hóps.
    Nefndin leggur áherslu á að með samþykkt tillögunnar svari Alþingi ákalli Úkraínu um að ríki heimsins lýsi því yfir að Holodomor hafi verið hópmorð, en fjölmörg ríki hafa brugðist við ákallinu. Nefndin tekur undir það mat flutningsmanna tillögunnar að mikilvægt sé að senda skýr skilaboð um þessa hörmulegu atburði í mannkynssögunni og vekja á þeim athygli til að koma í veg fyrir að þeir endurtaki sig. Slík skilaboð um voðaverk fyrri tíma geta styrkt viðleitni alþjóðasamfélagsins til að tryggja framgang og vernd grundvallarmannréttinda og frelsis um allan heim.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Anna Kolbrún Árnadóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Diljá Mist og Þorgerður Katrín rita undir álit þetta í samræmi við 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsti sig samþykkan álitinu.


Alþingi, 10. mars 2023.

Bjarni Jónsson,
form.
Diljá Mist Einarsdóttir,
frsm.
Birgir Þórarinsson.
Jakob Frímann Magnússon. Logi Einarsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.