Ferill 654. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1305  —  654. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um aðgengi íslenskra neytenda að netverslunum á EES-svæðinu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra að mögulegt sé að beita sér fyrir því að auka aðgengi íslenskra neytenda að evrópskum netverslunum á EES-svæðinu, í ljósi þeirra aðgangshindrana sem þar er oft að finna, svo sem að verslanir sendi ekki vörur sínar til Íslands? Ef svo er, hyggst ráðherra grípa til einhverra aðgerða til þess?

    Lög um ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl., nr. 128/2020, tóku gildi 12. desember 2020. Markmið laganna er að koma í veg fyrir óréttmætar takmarkanir á netumferð og aðra mismunun sem byggist á þjóðerni, búsetu eða staðfestu viðskiptavinar og að efla netviðskipti yfir landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Með lögunum er ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/302 frá 28. febrúar 2018, um ráðstafanir gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð og annarri mismunun sem byggist á því hvert þjóðerni viðskiptavinar er, hvar hann er búsettur eða hvar hann hefur staðfestu á innri markaðnum og um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 2006/2004 og (ESB) 2017/2394 og tilskipun 2009/22/EB, sem birt er í EES-viðbæti Stjórnartíðinda Evrópusambandsins nr. 26 frá 23. apríl 2020, bls. 898–912, veitt lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 311/2019 frá 13. desember 2019, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 14, bls. 72–73, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.
    Lögin kveða þannig m.a. á um að seljanda sé óheimilt að hindra aðgang viðskiptavina að netskilfleti sínum af ástæðum sem tengjast þjóðerni, búsetu eða staðfestustað viðskiptavinarins. Einnig er kveðið á um að seljanda sé óheimilt að setja ólík almenn skilyrði fyrir aðgangi að vörum eða þjónustu af ástæðum sem tengjast þjóðerni, búsetu eða staðfestustað viðskiptavina. Þá er kveðið á um að seljanda sé óheimilt að setja ólík skilyrði í ýmsum tilvikum varðandi greiðslur af ástæðum sem tengjast þjóðerni, búsetu eða staðfestustað viðskiptavinar, staðsetningu greiðslureiknings, staðfestustað greiðsluþjónustuveitandans eða útgáfustað innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Bent skal á að reglugerðin skyldar seljanda ekki til að senda vörur yfir landamæri til annars EES-ríkis. Það er undir hverjum og einum seljanda komið að ákveða til hvaða ríkja hann sendir vörur sínar. Vakin er athygli á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út leiðbeiningar um efni reglugerðarinnar sem má finna á vefsvæði framkvæmdastjórnarinnar.
    Að svo stöddu eru ekki áformaðar frekari aðgerðir til þess að sjá til þess að erlendar verslanir á EES-svæðinu sendi vörur sínar til Íslands.