Ferill 702. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1309  —  702. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur um ungmennaráð.


     1.      Í hversu mörgum sveitarfélögum er starfandi ungmennaráð í samræmi við 11. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007?
    Samkvæmt upplýsingum mennta- og barnamálaráðuneytis voru starfrækt ungmennaráð í 47 af 72 sveitarfélögum árið 2020. Þess ber að geta að starfsemi einhverra þeirra lá þó tímabundið niðri á því tímabili sem upplýsingunum var safnað.

     2.      Hversu mörg þeirra sveitarfélaga greiða fulltrúum í ungmennaráðum laun fyrir setu í ráðunum?
    Ekki er lögð sérstök skylda á sveitarfélög að greiða þóknun fyrir setu í ungmennaráðum sveitarfélaga samkvæmt æskulýðslögum, nr. 70/2007, en ráðuneytinu er kunnugt um að einhver sveitarfélög hafi tekið upp slíkt fyrirkomulag á grundvelli ákvörðunar sveitarstjórnar. Upplýsingar um fjölda þeirra liggja ekki fyrir. Tekið verður til sérstakrar skoðunar hvort ástæða sé til að fjalla um greiðslur til fulltrúa í ungmennaráðum við fyrirhugaða endurskoðun æskulýðslaga, nr. 70/2007, sem nánar er fjallað um í svari við 3. lið fyrirspurnarinnar.

     3.      Hyggst ráðherra styrkja stöðu ungmennaráða um allt land, og ef svo er, hvernig?
    Já, ráðherra hyggst styrkja stöðu ungmennaráða um land allt og styrkja þannig rétt barna til þátttöku í samræmi við ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, með ýmsum hætti.
    Vinna er hafin við endurskoðun æskulýðslaga, nr. 70/2007. Þar stendur til að lögfesta ungmennaráð sveitarfélaga og skýra nánar hlutverk þeirra, ábyrgð og umboð í samræmi við stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna til 2030 og þingsályktun nr. 28/151, um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Einnig er hafin vinna við að þróa rafrænan þátttökuvettvang sem verður aðgengilegur börnum og ungu fólki á Íslandi og mun þjónusta ungmennaráð, ráðgjafarhópa og ungmennasamtök. Þar verður hægt að sækja stafræna fræðslu um réttindi barna, samfélagsleg málefni, álitamál tengd börnum, taka þátt í samráði og tengjast barnvænni samráðsgátt. Börn og ungmennaráð geta einnig komið ábendingum sínum á framfæri við stjórnvöld í gegnum samráðsvettvanginn og þannig eflt áhrif ungmennaráða og barna um allt land.