Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1312  —  322. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um val á söluaðila raforku til þrautavara.


    Með úrskurðum úrskurðanefndar raforkumála í málum nr. 5/2021 og 9/2021 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að ákvæði reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar, nr. 1150/2019, þar sem mælt var fyrir um val Orkustofnunar á söluaðila til þrautavara, ætti sér ekki fullnægjandi stoð í raforkulögum, nr. 65/2003. Við því var brugðist með breytingu á reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar með reglugerð nr. 599/2022. Þá er unnið að frekari endurskoðun á fyrirkomulagi vegna söluaðilaskipta raforku.
    Með reglugerð nr. 599/2022 var gerð breyting á reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar. Breytingin felur í sér að sé notandi ekki með gildan raforkusölusamning eða virka neysluveitu skuli dreifiveita setja viðkomandi í viðskipti við það sölufyrirtæki sem síðast var skráð á viðkomandi neysluveitu. Samtímis skal dreifiveita senda notanda skriflega viðvörun um stöðvun raforkuafhendingar. Hafi notandi ekki gert samning við söluaðila að 30 dögum liðnum frá viðvörun er dreifiveitu skylt að stöðva raforkuafhendingu til viðkomandi notanda. Þannig kveður reglugerðin ekki lengur á um val Orkustofnunar á söluaðila til þrautavara og verður að meta svörin hér á eftir með tilliti til þess.

     1.      Hve margir almennir notendur rafmagns voru settir í viðskipti við söluaðila raforku til þrautavara, sbr. 5. mgr. 7. gr. stofnreglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019 frá því að reglugerðin tók gildi 18. desember 2019 og þar til reglugerð nr. 599/2022 um breytingu á reglugerð nr. 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar tók gildi 24. maí 2022? Óskað er sundurliðunar eftir mánuðum.
    Orkustofnun gaf út leiðbeiningar um val á sölufyrirtæki raforku til þrautavara í maí 2020. Í kjölfarið hóf Netorka, fyrir hönd dreifiveitna, að setja almenna notendur í viðskipti við sölufyrirtæki raforku til þrautavara og var það gert fram á þetta ár. Á tímabilinu júní 2020 til mars 2022 höfðu rúmlega 20.000 almennir notendur verið settir í sjálfgefinn söluaðilaskipti til sölufyrirtækis raforku til þrautavara til að tryggja að ekki yrði rof á afhendingu raforku við skipti aðila á viðkomandi neysluveitu.
Einstaklingar Fyrirtæki Alls
2020
Júní 873 196 1.069
Júlí 833 176 1.009
Ágúst 883 167 1.050
September 1.136 194 1.330
Október 1.030 240 1.270
Nóvember 877 206 1.083
Desember 760 192 952
2021
Janúar 588 166 754
Febrúar 622 187 809
Mars 708 173 881
Apríl 639 143 782
Maí 724 152 876
Júní 752 192 944
Júlí 742 155 897
Ágúst 681 135 816
September 735 159 894
Október 706 135 841
Nóvember 749 151 900
Desember 704 199 903
2022
Janúar 569 162 731
Febrúar 505 119 624
Mars 562 151 713
Apríl 426 140 566
Alls 16.804 3.890 20.694

     2.      Hver er markaðshlutdeild fyrirtækisins sem var valið söluaðili til þrautavara á smásölumarkaði raforku og hvernig þróaðist markaðshlutdeild þess á tímabilinu 2018 til 2022?
    Upplýsingar um markaðshlutdeild eru ekki tiltækar. Rúmlega 206.000 neysluveitur voru í landinu árið 2021 en til sölufyrirtækis raforku til þrautavara voru fluttar rúmlega 26.000 veitur á tímabilinu júní 2020 til mars 2022. Það þýðir að sölufyrirtæki raforku hefur fengið um 13% af neysluveitum í viðskipti í gegnum þrautavaraleiðina en vitað er að fyrirtækið hefur ekki haldið þeim öllum í viðskiptum til lengri tíma.

     3.      Hvers vegna ákvað ráðherra, með reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019, að einu fyrirtæki skyldi veitt staða söluaðila raforku til þrautavara án þess að kveðið væri skýrt á um ábyrgð og skyldur fyrirtækisins gagnvart neytendum?
    Samkvæmt reglugerðinni var því fyrirtæki sem bauð lægst verð hverju sinni veitt staða söluaðila raforku til þrautavara. Gjaldskrá fyrirtækja er breytileg og er því í ljósi þess breytilegt hvaða fyrirtæki er með lægst verðtilboð á markaði. Söluaðili til þrautavara var því tímabundin staða sem var breytileg eftir því hvernig samkeppni á markaði þróaðist. Með þessari aðferð var mögulega hvati fyrir fyrirtæki til að lækka verð til að hljóta stöðu söluaðila til þrautavara. Í 4. gr. reglugerðarinnar er fjallað um skyldur sölufyrirtækja og þ.m.t. sölufyrirtækja sem gegna stöðu söluaðila til þrautavara. 6. tölul. 2. mgr. greinarinnar fjallaði um skyldu sölufyrirtækis til að afhenda raforku til þrautavara.

     4.      Fór fram mat á samkeppnisáhrifum fyrirkomulagsins áður en reglurnar voru settar? Taldi ráðuneytið það samrýmast sjónarmiðum um jafnræði og virka samkeppni að flytja þúsundir viðskiptavina á ári til eins fyrirtækis á samkeppnismarkaði að neytendum forspurðum og veita fyrirtækinu þannig forgjöf umfram aðra aðila á markaði?
    Markmið með reglugerðarbreytingunni var að efla neytendavernd og samkeppni á raforkumarkaði með því að koma í veg fyrir að sölufyrirtæki sem hefðu tengsl við dreifiveitu væru sjálfkrafa sett í viðskipti þegar viðskiptavinur nýtti sér ekki rétt sinn til að velja sér sölufyrirtæki. Ljóst er að það hefur tekist þar sem ótengd og ný fyrirtæki á raforkumarkaði hlutu stöðu söluaðila til þrautavara og viðskipti vegna þeirra. Samkeppni er meira mælanleg á markaði en áður.
    Markmið ráðuneytisins hafa ávallt verið skýr og þau snúast um að gæta hagsmuna neytenda og efla samkeppni á smásölumarkaði. Rík áhersla hefur verið lögð á þátt dreifiveitna í því að upplýsa neytendur um að velja sér raforkusala. Jafnframt hefur verið hugað að hag og öryggi neytenda með því að grípa þá sem ekki sinntu kallinu um að velja raforkusalann, en skilja þá ekki eftir rafmagnslausa, heldur úthluta þeim söluaðila til þrautavara til að brúa bilið. Neytandi á markaði var aldrei færður að honum forspurðum, heldur einungis þegar neytandinn, eftir margar ítrekanir, sinnti ekki eða svaraði ekki beiðninni um val á söluaðila. Sjónarmið um jafnræði og virka samkeppni voru höfð að leiðarljósi með því að hvetja til lægra raforkuverðs þar sem sá sem bauð lægst verð á markaði hlaut stöðu söluaðila til þrautavara. Öll fyrirtæki á raforkumarkaði höfðu því tækifæri til að öðlast stöðuna ef þau byðu lægsta raforkuverð.

     5.      Hvernig samrýmdust reglurnar um val á söluaðila raforku til þrautavara lagaáskilnaðarreglum stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar?
    Með úrskurðum úrskurðarnefndar raforkumála í málum nr. 5/2021 og 9/2021 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að ákvæði 5. mgr. 7. gr. reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar, nr. 1150/2019, þar sem mælt er fyrir um val Orkustofnunar á söluaðila til þrautavara, ætti sér ekki fullnægjandi stoð í raforkulögum nr. 65/2003.
    Með reglugerð nr. 599/2022 var gerð breyting á reglugerðinni sem felur í sér að sé notandi ekki með gildan raforkusölusamning eða virka neysluveitu skuli dreifiveita setja viðkomandi í viðskipti við það sölufyrirtæki sem síðast var skráð á viðkomandi neysluveitu. Samtímis skal dreifiveita senda notanda skriflega viðvörun um stöðvun raforkuafhendingar í samræmi við 3. mgr. 11. gr. Hafi notandi ekki gert samning við söluaðila að 30 dögum liðnum frá viðvörun er dreifiveitu skylt að stöðva raforkuafhendingu til viðkomandi notanda. Þannig kveður reglugerðin ekki lengur á um val Orkustofnunar á söluaðila til þrautavara.

     6.      Hvers vegna voru ekki gerðar ríkari kröfur til söluaðila raforku til þrautavara, svo sem um að hann seldi öllum viðskiptavinum sínum raforku á tilteknu verði eða verðbili meðan hann teldist söluaðili til þrautavara eða að smásöluverð til þrautavaraviðskiptavina fylgdi breytingum á heildsölukjörum á tímabilinu?
    Samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar var sölufyrirtæki valið eftir leiðbeinandi reglum sem Orkustofnun setur og taka þær m.a. mið af lægsta meðalverði til ákveðins tíma, samkvæmt nánari útfærslu Orkustofnunar. Orkustofnun var með þessar leiðbeinandi reglur í mótun á tímabilinu til að bæta úr vanköntum sem komu í ljós við framkvæmd þrautavaraviðskiptanna.

     7.      Hver hafa viðbrögð stjórnvalda verið við kvörtunum vegna vals á söluaðila raforku til þrautavara og vegna viðskiptahátta fyrirtækisins og við úrskurðum úrskurðarnefndar raforkumála í málum nr. 1/2020 og 3/2020?
    Með úrskurðum úrskurðarnefndar raforkumála í málum nr. 1/2020 og 3/2020 felldi úrskurðarnefndin brott ákvarðanir Orkustofnunar um val á söluaðila til þrautavara sökum annmarka á málsmeðferð. Með úrskurðum úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 5/2021 og 9/2021 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að ákvæði reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar, nr. 1150/2019, þar sem mælt var fyrir um val Orkustofnunar á söluaðila til þrautavara, ætti sér ekki fullnægjandi stoð í raforkulögum, nr. 65/2003. Við því var brugðist með breytingu á reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar með reglugerð nr. 599/2022. Þá er unnið að frekari endurskoðun á fyrirkomulagi vegna söluaðilaskipta raforku.