Ferill 723. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1334  —  723. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um kynsegin fólk í fangelsum.


    Við vinnslu svarsins var óskað eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun og svarið unnið í samvinnu við stofnunina.

     1.      Hafa kynsegin einstaklingar afplánað refsingu í fangelsi á Íslandi?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun hafa kynsegin einstaklingar ekki afplánað refsingu í fangelsi á Íslandi.

     2.      Hafa verið innleiddir verkferlar um það hvernig skuli taka á móti þeim, um það í hvaða fangelsi þeir skuli fara og um fleira sem komið getur til álita með tilliti til sértækra þarfa þeirra?
    Það hafa ekki verið útbúnir sérstakir verkferlar er varða móttöku kynsegin einstaklinga í fangelsum landsins þar sem ekki hefur þótt unnt að setja eina reglu sem getur átt við um alla kynsegin einstaklinga. Hins vegar hafa verið gerðar tilteknar breytingar á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, sem varða þetta málefni og eru þær mikilvægur leiðarvísir fyrir fangelsismálayfirvöld. Með lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, voru gerðar breytingar á lögum um fullnustu refsinga. Sem dæmi má nefna breytingu sem gerð var á 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. laga um fullnustu refsinga, þar sem orðinu „kynvitund“ var bætt inn í ákvæðið sem fjallar um ákvörðun um vistunarstað. Því yrði litið til kynvitundar einstaklings þegar ákvörðun um vistunarstað er tekin. Þá var einnig gerð breyting á 2. mgr. 43. gr. laganna, sem fjallar um samneyti kynja í fangelsum landsins, þannig að í stað orðsins „gagnstæðu“ kom orðið „öðru“, svo talað er um annað kyn í staðinn fyrir gagnstætt kyn í ákvæðinu.
    Allir fangar hefja afplánun sína í fangelsinu á Hólmsheiði, óháð kyni. Í kjölfarið er tekin ákvörðun um hvar fangar eiga að vistast og við þá ákvörðun er tekið mið af kynvitund fangans, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. laga um fullnustu refsinga. Ef til þess kemur að kynsegin einstaklingur hefji afplánun fangelsisrefsingar mun Fangelsismálastofnun útbúa vistunaráætlun með hagsmuni þess einstaklings að leiðarljósi, svo sem hvar viðkomandi skuli vistaður.
    Nýverið fengu allir starfsmenn skrifstofu Fangelsismálastofnunar og starfsmenn fangelsanna fræðslu frá Samtökunum '78 þar sem fjallað var um málefni kynsegin fólks. Fangelsismálastofnun fékk leyfi til að hafa samband við Samtökin ef upp kæmu álitamál tengd afplánun kynsegin einstaklinga til að unnt sé að gæta sem best að hagsmunum þeirra í afplánun.