Ferill 746. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1340  —  746. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Halldóru K. Hauksdóttur um upplýsingaveitu handa blóðgjöfum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Er til upplýsingaveita handa blóðgjöfum um hvernig blóð þeirra var nýtt? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra koma slíkri veitu á laggirnar, sem sent gæti blóðgjöfum skilaboð um að blóð þeirra hafi verið notað?

    Í júní á liðnu ári var ráðist í átak til að fjölga blóðgjöfum og var vegna þess efnt til samráðs með fulltrúum Landspítala, Blóðbanka og heilbrigðisráðuneytisins. Í þeim hópi voru ræddar ýmsar leiðir í þessu skyni, bæði um bætt aðgengi blóðgjafa að blóðsöfnunarþjónustu, markvissa kynningu á mikilvægi blóðgjafar og aukna upplýsingagjöf þar að lútandi. Í starfi hópsins kom til tals hvort nýta mætti í auknum mæli stafrænar lausnir í heilbrigðisþjónustu, m.a. til þess að auka upplýsingagjöf til blóðgjafa og skapa tækifæri til beinna samskipta við þá, m.a. með skilaboðum eins og spurt er um hér. Nærtækt dæmi um slík skilaboð eru blóðgjafaþjónustur í Svíþjóð. Þar fær blóðgjafi skilaboð í SMS þar sem honum er þökkuð blóðgjöfin og upplýstur um að blóðið sem viðkomandi gaf hafi komið sjúklingi að notum. Þessi þjónusta er ekki fyrir hendi hér á landi enn sem komið er.
    Í kjölfar fyrirspurnar háttvirts þingmanns um upplýsingaveitu handa blóðgjöfum óskaði heilbrigðisráðuneytið upplýsinga þar að lútandi frá Landspítala. Í svari spítalans eru raktir þeir möguleikar sem þegar eru fyrir hendi til margvíslegra samskipta við viðskiptavini Blóðbankans (blóðgjafa og heilbrigðisstofnanir) sem verið er að þróa og innleiða. Þar er m.a. greint frá hugbúnaðarlausn sem spítalinn notar og gerir heilbrigðisstofnunum kleift að sjá niðurstöður rannsókna, blóðflokkana, mótefnastöðu og upplýsingar um fráteknar blóðeiningar og gefnar blóðeiningar. Búnaðurinn styður einnig við öryggi blóðnotkunar með notkun strikamerkinga sem tryggja að réttur sjúklingur fái rétt blóð. Þar með verða til upplýsingar í rauntíma um gefnar blóðeiningar. Þessi verkferill er nú notaður í u.þ.b. 90% tilvika og stefnt að því að ljúka innleiðingu á öllum spítalanum fljótlega. Að fullri innleiðingu lokinni skapast möguleiki á að koma rauntímaupplýsingum til blóðgjafa.
    Á síðari hluta þessa árs og í ársbyrjun 2024 verður ný útgáfa hugbúnaðarkerfisins PROSANG 9 innleidd hjá Blóðbankanum (einnig notað meðal blóðbanka hjá hinum Norðurlöndunum) sem býður m.a. upp á þann möguleika að miðla upplýsingum um inngefna blóðhluta til blóðgjafanna í rauntíma. Með aðkomu Heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar Landspítala (HUT) gefst möguleiki á að sníða hugbúnaðarlausn þannig að slíkar upplýsingar geti borist til blóðgjafa annaðhvort með tölvupósti, skilaboðum í farsíma eða skilaboðum í sérsniðnu appi.
    Landspítali horfir til þess að þróa enn frekar möguleika á stafrænni upplýsingamiðlun til blóðgjafa og til heilbrigðisstofnana með áherslu á skilvirkni og aukið öryggi blóðgjafa og sjúklinga með því t.d. að birta blóðgjöfum með stafrænum hætti nýjustu rannsóknarniðurstöður um t.d. blóðrauða, járnbirgðir og hve oft viðkomandi hefur gefið blóð. Enn fremur séu tækifæri í stafrænni miðlun upplýsinga milli Blóðbankans og heilsugæslunnar, t.d. í tilvikum þar sem blóðgjafi er með minnkaðar járnbirgðir eða lágan blóðrauða. Heilsugæslulæknir gæti á grundvelli slíkra upplýsinga gengið úr skugga um orsakir járnskorts, hafið viðeigandi meðferð og í framhaldi komið skilaboðum til blóðgjafans og Blóðbankans þegar markmiðum meðferðar er náð.
    Fleiri þættir eru fyrir hendi þar sem aukin notkun hugbúnaðarkerfis getur skapað aukið hagræði og auðveldað upplýsingamiðlun. Nú stendur yfir heildarmat á framtíðaruppbyggingu hugbúnaðarkerfa innan Landspítala í tengslum við nýjan Landspítala og mun sú vinna örugglega nýtast við áframhaldandi þróun, gegnsæi, öryggi og framlegð þeirrar þjónustu sem veitt er hverju sinni.