Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1348  —  500. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Inga Kristinssyni um íslensk ökuskírteini.


     1.      Í hvaða löndum er hægt að framvísa íslensku ökuskírteini sem gildri akstursheimild?
    Á grundvelli tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/126/EB um ökuskírteini gilda öll ökuskírteini sem gefin eru út í einu ríki Evrópska efnahagssvæðisins í öllum hinum ríkjum svæðisins. Á Íslandi hafa ökuskírteini sem gefin eru út í ríkjum Evrópusambandsins og í EFTA-ríkjunum því sama gildi og væru þau gefin út hér á landi. Íslensk ökuskírteini gilda með sama hætti í framangreindum ríkjum.
    Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um umferð á vegum frá 1949. Íslenskt ökuskírteini gildir sem akstursheimild í þeim 100 ríkjum sem eru aðilar að samningnum. Annaðhvort gildir þá íslenska skírteinið eitt og sér eða framvísa þarf með því alþjóðlegu ökuskírteini sem er gefið út til viðbótar íslensku skírteini. Hvert aðildarríki fyrir sig getur krafist þess að ökumenn hafi alþjóðlegt ökuskírteini meðferðis en ekki liggja fyrir öruggar upplýsingar um hvaða ríki samningsins gera þá kröfu. Það getur verið breytilegt og ríkjunum ber samkvæmt samningnum ekki að tilkynna breytingar á því. Leiki vafi á hvort íslenskt ökuskírteini sé eitt og sér fullnægjandi heimild til aksturs erlendis er því nauðsynlegt að hafa alþjóðlega ökuskírteinið jafnframt meðferðis.
    Hér á landi hafa sýslumenn og Félag íslenskra bifreiðaeigenda heimild til að gefa út alþjóðlegt ökuskírteini. Skírteinið gildir í ár frá útgáfudegi þess og tekur einungis til ökutækja sem hlutaðeigandi hefur rétt til að stjórna samkvæmt hinu íslenska ökuskírteini. Alþjóðlega ökuskírteinið veitir eitt og sér ekki rétt til að stjórna ökutæki, er eingöngu staðfesting og þýðing á íslenska ökuskírteininu.

     2.      Er hægt að framvísa rafrænu ökuskírteini sem gildum skilríkjum erlendis og þá í hvaða löndum?
    Samkvæmt reglugerð um ökuskírteini, nr. 830/2011, er ríkislögreglustjóra heimilt að gefa út stafrænt ökuskírteini til viðbótar við hefðbundið ökuskírteini. Á stafrænu ökuskírteini skulu koma fram sömu upplýsingar og á hefðbundnu ökuskírteini.
    Stafrænt ökuskírteini gefið út af ríkislögreglustjóra hefur sama gildi á Íslandi og hefðbundið ökuskírteini. Skírteinin gilda eingöngu á Íslandi. Þau gilda því ekki í öðrum ríkjum, hvorki sem ökuskírteini né skilríki.

     3.      Í hvaða löndum þurfa íslenskir ferðamenn að framvísa alþjóðlegu ökuskírteini til að sýna fram á ökuréttindi?

    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.