Ferill 747. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1360  —  747. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Jódísi Skúladóttur um jafnræði í skráningu foreldratengsla.


     1.      Er mæðrum í samkynja hjúskap eða skráðri sambúð gert að afhenda Þjóðskrá Íslands yfirlýsingu um að barn þeirra sé getið með tæknifrjóvgun ellegar verði konan sem ól barnið ein skráð foreldri? Ef svo er, kemur til álita af hálfu ráðherra að stuðla að breytingum á þessu?
    Um skráningu foreldra barns sem getið er með tæknifrjóvgun sem fram fer samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun o.fl. gildir sérregla í 6. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Samkvæmt ákvæðinu telst kona eða maður, sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni, foreldri barns. Gildir sama um skráða sambúð í þjóðskrá.
    Faðernisreglan (pater est reglan) gildir ekki um börn sem fædd eru í hjúskap eða skráðri sambúð tveggja kvenna, þá telst eiginkona eða sambýliskona móður ekki sjálfkrafa foreldri barnsins að lögum samkvæmt almennum reglum barnalaga, nema 6. gr. barnalaga eigi við. Þetta leiðir til þess að í þeim tilvikum þegar kona, sem er í hjúskap eða í skráðri sambúð í þjóðskrá með annarri konu, eignast barn verður skráningu foreldra barnsins ekki lokið fyrr en Þjóðskrá Íslands berast upplýsingar um að 6. gr. barnalaga eigi við um getnað barnsins og þar með um skráningu foreldra barnsins eða að stofnuninni berist tilkynning um feðrun barnsins í samræmi við önnur ákvæði barnalaga.
    Þegar Þjóðskrá Íslands óskar upplýsinga um hvort barn hafi verið getið með tæknifrjóvgun, sbr. lög um tæknifrjóvgun o.fl., er einungis um að ræða upplýsingaöflun vegna skráningar foreldris barnsins. Ekki er verið að óska eftir upplýsingum um hvort samþykki hafi legið fyrir tæknifrjóvguninni sem slíkri þar sem það er ekki í verkahring Þjóðskrár Íslands að afla samþykkis maka fyrir umræddri meðferð.
    Sú staðreynd að einungis samkynhneigð pör þurfa að sýna fram á að barn hafi verið getið með tæknifrjóvgun, sem fram fór samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun o.fl., byggist þannig einungis á grundvelli þeirrar takmörkunar sem pater est reglunni er sett samkvæmt íslenskum lögum þannig að hún gildi einungis þegar foreldrar barns eru af gagnstæðu kyni.

     2.      Hefur verklagi þjóðskrár varðandi jafnræði í skráningu foreldratengsla verið breytt í samræmi við þingsályktun 21/146 um jafnræði í skráningu foreldratengsla? Ef ekki, hvað líður breytingum á verklagi?
    Verklag er ekki í samræmi við nefnda þingsályktun þar sem stofnunin er bundin við ákvæði barnalaga, þ.m.t. sérreglu 6. gr. um tæknifrjóvgun.