Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1830  —  223. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um biðtíma eftir afplánun.


     1.      Hver hefur verið biðtími einstaklinga, sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar, eftir afplánun sl. fimm ár? Óskað er eftir sundurliðun eftir brotaflokkum.
    Meðferð þessara mála er almennt þannig að eftir að óskilorðsbundinn dómur berst Fangelsismálastofnun er viðkomandi dómþoli boðaður til afplánunar með bréfi. Samhliða því er dómþolum kynntur réttur sinn til samfélagsþjónustu og þeim boðið að sækja um. Þeir sem uppfylla lögbundin skilyrði fá að hefja fullnustu með samfélagsþjónustu, en þeir sem gera það ekki þurfa að bíða eftir boðun til afplánunar í fangelsi. Í þeim tilvikum sem dómþoli tekur ekki við bréfinu er það sent til lögreglu með beiðni um að birta fyrir viðkomandi. Að framansögðu er ljóst að margt getur haft áhrif á hver biðtíminn er eftir að komast í afplánun í fangelsi.
    Fangelsismálastofnun bárust til fullnustu 2.572 óskilorðsbundnar refsingar frá upphafi árs 2018 til loka árs 2022. Fullnusta er hafin eða lokið hvað varðar 71% þessara refsinga. Aðrir hafa verið boðaðir í fangelsi en hafa ekki hafið afplánun eða eru að bíða eftir svari um fullnustu dóms með samfélagsþjónustu. Ekki hefur verið hægt að ljúka um 4% þessara mála, til dæmis vegna þess að dómur hefur fyrnst eða dómþoli hefur látist.
    Ekki liggja fyrir hjá Fangelsismálastofnun upplýsingar um sundurliðun biðtíma eftir brotaflokkum.

     2.      Hversu margir einstaklingar sem dæmdir voru til fangelsisvistar sl. tíu ár hófu aldrei afplánun vegna fyrningar refsidóms? Óskað er eftir sundurliðun eftir brotaflokkum.

2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022
Þjófnaður, auðgunarbrot, skjalafals 0 5 4 9 4 3 6 4 0 2 6
Fíkniefnabrot 0 2 6 8 3 5 7 2 5 7 6
Kynferðisbrot 0 0 0 0 0 0 0 1 2 1 0
Ofbeldisbrot 2 4 4 7 4 2 1 0 1 6 0
Annað 0 0 0 0 1 0 2 0 1 1 4
Umferðarlagabrot 6 9 20 8 16 17 19 7 12 13 10
8 20 34 32 28 27 35 14 21 30 26

     3.      Hvernig er einstaklingum sem hlotið hafa dóm til fangelsisvistar forgangsraðað á biðlista eftir afplánun?
    Hjá Fangelsismálastofnun er mikil áhersla lögð á að fullnusta refsingar áður en fyrningarfrestur rennur út. Reynt er að forgangsraða dómþolum eftir alvarleika brota og lengd refsingar og þannig er áhersla lögð á að reyna að fullnusta sem fyrst refsingar fyrir kynferðisbrot og alvarleg ofbeldisbrot. Þá óska sumir dómþolar eftir því að fá að hefja afplánun sína sem fyrst og reynir stofnunin að verða við því.

     4.      Hvernig miðar vinnu við að stytta biðtíma einstaklinga sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar?
    Eins og fram kemur hér að framan getur ýmislegt annað en boðunarlisti í fangelsi haft áhrif á biðtíma hvers og eins eftir afplánun í fangelsi. Eins og jafnframt kemur fram reynir Fangelsismálastofnun að forgangsraða ákveðnum málum en jafnframt er alltaf reynt að verða við beiðnum þeirra sem óska eftir að hefja afplánun. Þá er unnið að því að fjölga fangarýmum og liggur fyrir nú þegar að fangelsið Sogn verði stækkað um 14 pláss og hefjast framkvæmdir við það á þessu ári.