Ferill 928. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1856  —  928. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Hildi Sverrisdóttur um sjóði á vegum ráðuneytisins og stofnana þess.


     1.      Hvaða sjóði starfrækja ráðuneytið og stofnanir þess?
    
Vinnumálastofnun starfrækir sjóði á vegum ráðuneytisins og einnig er hjá Sjónstöðinni umsýsla á sjóði sem heitir Gefum blindum augum sjón.

     2.      Hver fer með umsýslu hvers sjóðs?
    
Sjóðir í umsýslu Vinnumálastofnunar eru Atvinnuleysistryggingasjóður, Fæðingarorlofssjóður og Ábyrgðasjóður launa.
    
Sjónstöðin starfrækir sjálf enga sjóði en hefur umsjón með sjóð sem heitir Gefum blindum augum sjón. Sjóðurinn er rekinn á eigin kennitölu og starfar samkvæmt skipulagsskrá staðfestri af sýslumanni og lögum nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Umsýsla sjóðsins er í höndum Sjónstöðvarinnar en stjórn sjóðsins fer með ákvarðanatöku um styrki.

     3.      Hvaða lög og reglur gilda um útdeilingu fjármuna úr hverjum sjóði?
    
Starfsemi framangreindra sjóða í umsýslu Vinnumálastofnunar falla undir A-hluta ríkissjóðs og sjóðirnir starfa á grundvelli sérlaga, þ.e. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, og laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.
     Samkvæmt skipulagsskrá skal höfuðstóll sjóðsins Gefum blindum augum sjón vera óskertur. Fjármunum er úthlutað í samræmi við markmið sjóðsins sem finna má í 3. gr. skipulagsskrárinnar.

     4.      Hvað kostaði að starfrækja hvern sjóð árið 2022?
     5.      Hver var kostnaðurinn við að starfrækja hvern sjóð í hlutfalli við þá fjármuni sem var úthlutað úr sjóðnum árið 2022?

    Kostnað sjóða í umsýslu Vinnumálastofnunar má sjá í eftirfarandi töflu.

Rekstrarkostnaður 2022 Útgreiðslur 2022 % af útgr. sjóða
Atvinnuleysistryggingasjóður 1.542.382.843 kr. 35.185.662.252 kr. 4%
Fæðingarorlofssjóður 159.342.686 kr. 22.541.487.903 kr. 1%
Ábyrgðasjóður launa 66.883.932 kr. 1.203.052.354 kr. 6%

    Atvinnuleysistryggingasjóður ber straum af rekstri skrifstofa, vinnumiðlun og ráðgjöf. Heildarkostnaður sjóða tekur annars mið af beinum kostnaði sem hlýst af sjóðunum.
    Kostnaður við að starfrækja sjóðinn Gefum blindum augum sjón árið 2022 var 24.800 kr. Engir fjármunir voru úthlutaðir úr sjóðnum 2022 til að tryggja að stofnfé yrði óskert eins og farið er fram á í skipulagsskrá.