Ferill 914. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1889  —  914. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigfús Inga Sigfússon, Einar Eðvald Einarsson, Álfhildi Leifsdóttur og Jóhönnu Ey Harðardóttur frá Sveitarfélaginu Skagafirði, Auði Önnu Magnúsdóttur frá Landvernd, Aðalstein Sigurgeirsson og Pál Sigurðsson frá Skógræktinni, Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vigdísi Häsler, Sverri Fal Björnsson og Unnstein Snorra Snorrason frá Bændasamtökum Íslands, Kára Gautason, Ásu Þórhildi Þórðardóttur, Elísabetu Önnu Jónsdóttur, Bryndísi Eiríksdóttur og Björn Helga Barkarson frá matvælaráðuneyti, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Margréti Gísladóttur frá Samtökum fyrirtækja í landbúnaði, Bjarna Ragnar Brynjólfsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Valborgu Hilmarsdóttur frá Húnaþingi vestra.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Dalabyggð, Djúpavogshreppi, Félagi atvinnurekenda, Húnaþingi vestra, Landvernd, Múlaþingi, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Samtökum fyrirtækja í landbúnaði, Skógræktinni og Sveitarfélaginu Skagafirði. Enn fremur barst nefndinni kynning frá Bændasamtökum Íslands.

Meginefni tillögunnar.
    Eins og heiti þingsályktunartillögunnar gefur til kynna felst í henni stefnumörkun í landbúnaðarmálum til ársins 2040. Enda þótt margvísleg löggjöf hafi verið sett um landbúnað og málefni tengd landbúnaði á undanförnum árum og áratugum hefur Alþingi ekki áður sett langtímastefnumörkun um þessa grein þar sem lýst er þeim meginmarkmiðum sem stefnt skuli að í íslenskum landbúnaði og sem móti löggjöf um greinina. Að því leyti til markar þessi þingsályktunartillaga tímamót. Haustið 2021 lagði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram heildstæða landbúnaðarstefnu undir heitinu Ræktum Ísland sem var afrakstur samvinnuverkefnis stjórnvalda, bænda, neytenda og fulltrúa atvinnulífsins sem stóð yfir í um þrjú ár. Fyrirliggjandi þingsályktunartillaga sækir margt í þetta stefnuskjal sem og búvörulög og búvörusamninga fyrri ára.
    Meðal mikilvægra markmiða í tillögunni má nefna sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda, landnýtingu sem taki mið af ástandi og getu vistkerfa og verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni, framleiðslu heilnæmra afurða og fæðuöryggi. Er þá aðeins fátt eitt talið af því sem fjallað er um í þingsályktunartillögunni og snýr að náttúru Íslands, íslensku samfélagi og þýðingu landbúnaðar fyrir íslenskt samfélag.

Umfjöllun nefndarinnar.
Tengsl landbúnaðar við aðra landnýtingu og sjálfbærni.
    Nefndin hefur fjallað um tengsl landbúnaðar við aðra landnýtingu, svo sem skógrækt, og jafnframt var vikið að mikilvægi skipulagsmála og skipulagsvalds fyrir sambúð þeirra atvinnugreina sem nýta landgæði og einnig fyrir náttúruvernd. Sjálfbærni íslensks landbúnaðar kom til umræðu sem og vistvernd og rætt var um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar og vinna gegn óheillaþróun í loftslagsmálum almennt.
    Fyrir nefndinni kom fram að landbúnaður hefur ótvíræða þýðingu fyrir sjálfbærni íslensks samfélags þar sem landbúnaðargreinarnar nýta innlendar auðlindir í verulegum mæli til að framleiða neysluvarning sem landsmenn geta ekki verið án eða vilja nota í mataræði sínu. Meiri hlutinn áréttar að það er ávallt keppikefli að íslenskar landbúnaðarafurðir standist ítrustu kröfur um heilnæmi, að framleiðsla þeirra sé næg og framleiðsluhættir svo tryggir að fæðuöryggi verði aldrei í uppnámi. Jafnframt telur meiri hlutinn mikilvægt að þess sé gætt að allt dýrahald sem fram fer í atvinnuskyni lúti kröfum um velferð og aðbúnað dýra og markmiðum um haldbæra landnýtingu.
    Meiri hlutinn tekur undir að tryggja þurfi að stuðningur hins opinbera við innlenda landbúnaðarframleiðslu styrki og fjölgi stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Þá þurfa áherslur í styrkjakerfi landbúnaðar að styðja við fjölbreytta framleiðslu landbúnaðarafurða og auka þarf áherslu á jarðrækt og aðra landnýtingu, skógrækt, endurheimt vistkerfa, náttúruvernd og landvörslu á grunni efnahagslegrar, félagslegrar og umhverfislegrar sjálfbærni. Möguleikar bænda á að varðveita, vinna að endurheimt landgæða og að vörslu lands geta tryggt verðmæt almannagæði. Þá eru miklir möguleikar til framleiðslu fjölbreyttari landbúnaðarafurða, til að mynda nytjajurta með eflingu kornræktar. Fjölbreyttari landbúnaður og landbúnaðarframleiðsla má ekki verða á kostnað og getu til framleiðslu á mjólk, kjöti, grænmeti og annarri matvöru. Fjölbreyttari landbúnaður krefst öflugs stuðnings, a.m.k. í upphafi, eins og nú er gert ráð fyrir í kornrækt. Að því þarf að huga þegar ætlunin er að auka fjölbreytni eða breyta áherslum.
    Meiri hlutinn telur að huga þurfi sérstaklega að því að auðvelda kynslóðaskipti og nýliðun við ráðstöfun opinbers fjár eða við aðrar aðgerðir til að efla stoðir landbúnaðar.
    Mikilvægt er að viðskiptakerfi með heimildir til bindingar kolefnis miði að því að tryggja bændum réttlátan hlut af framlagi þeirra, með þeim aðferðum sem bú þeirra kunna að ráða yfir. Hraða þarf vinnu vegna reiknaðrar losunar frá búfjárhaldi og ræktunarlandi. Mikilvægt er að tryggja réttlát umskipti í tengslum við loftslagsmál þannig að fjárhagslegri afkomu bænda sé ekki raskað vegna aukinna krafna í loftslagsmálum. Meiri hlutinn telur að horfa þurfi til hvata sem verðlauni árangur í loftslagsmálum fremur en íþyngjandi krafna.
    Meiri hlutinn tekur undir með umsagnaraðilum að búvöruframleiðsla hefur yfirleitt langan framleiðsluferil og því er nauðsynlegt að allar breytingar taki mið af langtímamarkmiðum og á þeim hraða að landbúnaður hafi möguleika á eðlilegri aðlögun að breyttum áherslum. Að sama skapi þarf stuðningur við landbúnað að skapa stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi. Einnig tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem matvælaráðherra hefur haft uppi í tengslum við endurskoðun búvörusamninga, sem er að gera ekki grundvallarbreytingar á samningunum.

Val á neysluvöru.
    Meiri hlutinn fjallaði um að möguleikar neytenda á að velja neysluvöru á sínum forsendum og hafa með því í senn áhrif á eigin neyslu og framleiðslu landbúnaðarafurða eru afar mikilvægir. Neytendur gera kröfu um áreiðanlegar upplýsingar, m.a. um uppruna, framleiðsluaðferðir og innihald landbúnaðarvarnings sem á markaði er, og þurfa bæði framleiðslu- og úrvinnslugreinar í landbúnaði að mæta þessum kröfum skilyrðislaust. Neytendur kjósa einnig fjölbreytni í vöruframboði og landbúnaður á Íslandi verður að vera fær um að svara þeim kröfum eins og aðstæður framast leyfa. Meiri hlutinn telur að opinber stuðningur við landbúnað eigi að markast af þessum sjónarmiðum og öðrum sem lúta að því að tryggja eðlileg tengsl framleiðenda og neytenda á frjálsum markaði.

Tengsl landbúnaðar og byggðaþróunar.
    Tengsl landbúnaðar og byggðaþróunar komu til umræðu á vettvangi nefndarinnar. Landbúnaður er kjölfestuatvinnugrein í ýmsum byggðum Íslands. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að mikilvægt sé að þróa aðra starfsemi samhliða landbúnaðinum sem geti styrkt búsetu í sveitum og einnig menntunarleiðir með sama markmið í huga.

Gerð áætlana og mikilvægi tillögu.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir því að gerðar verði og birtar áætlanir til fimm ára í senn. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að þarna hefði mátt kveða fastar að orði um framkvæmdaáform og fjármagn sem þessar áætlanir ættu að byggjast á. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að hafa framangreint í huga við gerð áætlana.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að Alþingi marki stefnu í landbúnaðarmálum til langs tíma sem byggist á náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiðum, hafi sjálfbærni að markmiði og sé til þess fallin að landbúnaður dafni og þjóni hagsmunum íslensks samfélags sem allra best í samtíð og framtíð. Meiri hlutinn álítur að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga stuðli að þessu.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að þingsályktunartillaga þessi verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:


     1.      Á eftir orðunum „Stuðlað verði“ í lið 6.1 komi: með markvissum hætti.
     2.      Liður 10.1 orðist svo: Stuðningur hins opinbera styrki og fjölgi stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun.
     3.      Liður 10.2 orðist svo: Áherslur í styrkjakerfi landbúnaðar styðji við fjölbreyttari framleiðslu landbúnaðarafurða og aukin áhersla verði lögð á jarðrækt og aðra landnýtingu, skógrækt, endurheimt vistkerfa, náttúruvernd og landvörslu á grunni efnahagslegrar, félagslegrar og umhverfislegrar sjálfbærni.
     4.      Í stað orðsins „framleiðslu“ í lið 10.4. komi: matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar.

    Berglind Ósk Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 30. maí 2023.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Friðjón R. Friðjónsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Teitur Björn Einarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.