Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 1902  —  543. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla).

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Fyrsti minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar tekur undir markmið frumvarpsins, að treysta rekstur einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Staða einkarekinna fjölmiðla hefur sjaldan verið viðkvæmari, en á þessu ári hafa fjórir fjölmiðlar hætt rekstri. Var ljóst af máli þeirra gesta sem komu fyrir nefndina að stuðningur við einkarekna fjölmiðla á undanförnum árum hafi skipt sköpum fyrir rekstur þeirra. Óþarfi er að orðlengja um mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðið en ekki síður eru fjölmiðlar mikilvægir fyrir menningu landsins og íslenska tungu sem einnig á undir högg að sækja í fjölþjóðlegu fjölmiðlaumhverfi. 1. minni hluti vill árétta að mikilvægt er að fyrirsjáanleiki ríki varðandi stuðningskerfi við fjölmiðla. Það styrkjakerfi sem nú hefur verið um skamma hríð á Íslandi hefur verið viðhaft um ára- og áratugaskeið í nágrannaríkjum okkar með góðum árangri eins og nefndarfólk í allsherjar- og menntamálanefnd varð áskynja í heimsóknum sínum til Danmerkur og Noregs í vetur. Þar eru skilyrði rekstrarstuðnings fjölbreyttari en hér hefur verið og telur 1. minni hluti ýmislegt sem þar tíðkast til eftirbreytni.

Íslensk tunga, textun og talsetning.
    Fyrsti minni hluti áréttar mikilvægi innlendrar dagskrárgerðar fyrir íslenska tungu og tekur því undir með meiri hluta nefndarinnar um að hugmyndir ráðherra þess efnis, að skylda streymisveitur til að leggja hluta áskriftartekna í innlenda dagskrárgerð, séu góður kostur. Jafnframt bendir 1. minni hluti á að hægðarleikur væri, ef vilji væri fyrir hendi, að leggja til sérstakan stuðning við þær sjónvarpsstöðvar sem texta innlent sjónvarpsefni sitt sem og talsetja það sem erlent er. Með stuðningi við textun á innlendu efni væri aðgengi að sjónvarpsefni gert greiðara fyrir heyrnarskert fólk, eldra fólk, börn og fólk af erlendum uppruna. Tekur 1. minni hluti þannig undir með ÖBÍ – réttindasamtökum. Þá væri stuðningur vegna talsetningar mikilvægur fyrir íslenska tungu.

Tekjumöguleikar fjölmiðla.
    Töluverður tími nefndarinnar fór í að ræða tekjumöguleika fjölmiðla á Íslandi. Rætt var um auglýsingatekjur og fyrirferð RÚV á þeim markaði en einnig um það hvernig innlendir fjölmiðlar sitja við annað borð en þeir erlendu þegar kemur að því hvað má auglýsa. Jafnframt var þó nokkuð rætt um hvort rétt væri að búa til einhvers konar skattaívilnun fyrir fjölmiðla, en það þarf að ígrunda vel, enda má ætla að tekjuskattsgreiðslur fjölmiðla sem reknir eru árum saman með tapi séu óverulegar. Annars staðar á Norðurlöndunum er þekkt að gerð sé sú krafa til fjölmiðla sem sækja um styrki að þeir starfræki að hluta áskriftarmiðil, hvort sem er að sjónvarps- eða prentefni, og telur 1. minni hluti vert að benda ráðherra fjölmiðlamála á þennan möguleika. 1. minni hluti tekur ekki undir tillögur meiri hluta nefndarinnar um að leggja eigi niður auglýsingadeild RÚV án þess að fyrir liggi hvernig það eigi að gerast og hvað eigi að koma í staðinn. Áralöng umræða hefur átt sér stað varðandi fyrirferð RÚV á markaði sem verður ekki afgreidd í nefndaráliti með því að leggja það til að ein einstök deild stofnunarinnar, nánar tiltekið auglýsingadeildin, verði lögð niður. Sú tillaga meiri hlutans er hvorki nægilega ígrunduð né er hún studd nokkrum gögnum eða hugmyndum um hvaða áhrif slíkt eigi að hafa á markaðinn. Hvorki liggur neitt fyrir um það hvort slíkt hafi áhrif á auglýsingamarkaðinn né liggur nokkuð fyrir um að við niðurlagningu deildar innan RÚV aukist tekjur annarra fjölmiðla.

Fyrirsjáanleiki stuðnings lykilatriði.
    Í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar segir annars vegar að mikilvægt sé að stjórnvöld haldi áfram að styðja við einkarekna fjölmiðla og hins vegar að horfið verði frá beinum styrkveitingum til fjölmiðla. 1. minni hluti bendir á að þetta sé dæmi um það hvernig þrír stjórnarflokkar virðist sigla í austur og vestur þegar kemur að viðhorfi til mikilvægis fjömiðla í lýðræðissamfélagi og hvernig megi efla þá.
    Það var rauður þráður í samtali þingmanna í heimsóknum til Danmerkur og Noregs að fyrirsjáanleiki stuðningsins væri lykilatriði. Þannig væri það ekki ákjósanlegt að fjölmiðlar þyrftu, líkt og verið hefur hér á landi, að fara bónleið til stjórnvalda á hverju ári í von um styrkveitingu. Það væri hvort tveggja í senn vont fyrir reksturinn, atvinnuöryggi fjölmiðlafólks og kæmi niður á sjálfstæði fjölmiðla sem þurfa með þessari aðferð að stóla á velvild hins pólitíska valds þegar kemur að styrkúthlutunum.
    Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að hún ætli sér að efla starfsemi einkarekinna fjölmiðla. Í framhaldinu kemur frá sama meiri hluta að horfið verði frá beinum styrkveitingum til fjölmiðla og er það í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Án þess að nokkrar aðrar hugmyndir liggi á borðinu verður 1. minni hluti að mótmæla þessari framsetningu harðlega. Það liggur ljóst fyrir að fjölmiðlamarkaðurinn er nú þegar mjög viðkvæmur hér á landi sem og um allan heim. Var það samdóma álit í umsögnum og máli gesta að mikilvægt væri að koma á fót víðtæku styrkjaumhverfi og auka fyrirsjáanleika. Með orðum meiri hlutans í nefndaráliti um niðurfellingu beinna styrkja er verið að ganga í þveröfuga átt og minnka fyrirsjáanleika til nánustu framtíðar. Þeir sem nú hyggja mögulega á að setja á laggirnar fjölmiðil kunna að bíða og sjá hvaða stjórnmálaflokkur fær að ráða för við stefnumótun fjölmiðla á næstunni. Sundurlyndi stjórnarflokkanna er þannig að búa til sjálfstætt vandamál á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
    Að framangreindu virtu styður 1. minni hluti efni frumvarpsins en hvetur jafnframt ráðherra fjölmiðlamála til að hraða vinnu við heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi fjölmiðla og leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 31. maí 2023.

Helga Vala Helgadóttir.