Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1903  —  543. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla).

Frá 2. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Annar minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar telur það vekja furðu að nú á miðju öðru kjörtímabili sitjandi ríkisstjórnar, á sjötta þingvetri hennar, sé staðan enn sú að árleg krampakennd viðbrögð stjórnvalda sé það sem einkareknum fjölmiðlum er boðið upp á, sbr. það frumvarp sem nú er til meðferðar og er ætlað að framlengja tímabundið styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla. Enn er leitast við að fresta því að taka á vandanum í stað þess að leysa hann. Líkja má þessu frumvarpi við árlega afsökunarbeiðni stjórnvalda fyrir að takast ekki á við vandann en reyna heldur að stinga dúsu upp í einkarekna fjölmiðla sem á sama tíma eiga að viðhafa aðhald gagnvart þeim sömu stjórnvöldum.
    Ráðherra og ríkisstjórn vísa reglulega til ágætrar skýrslu frá 2018 um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla sem unnin var af nefnd undir formennsku Björgvins Guðmundssonar. Í skýrslu nefndarinnar voru settar fram sjö tillögur til að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla en svo gerist ekki neitt. Til viðbótar þeim tillögum telur 2. minni hluti nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir sem draga úr stjórnunarlegu flækjustigi og kostnaði fjölmiðla við annað en kjarnastarfsemi sína. Í því sambandi má m.a. nefna kostnað vegna umsvifa fjölmiðlanefndar sem rétt væri að leggja niður og finna verkefnum hennar, sem ekki eru óþörf, annan farveg.
    Fleiri atriði er vert að skoða, svo sem niðurfellingu tryggingagjalds að fullu eða að hluta, stöðu Ríkisútvarpsins á markaði, bæði hvað varðar auglýsingar og framleiðslu efnis, og það að jafna stöðu innlendra miðla gagnvart erlendum.
    Staða og umfang Ríkisútvarpsins verður að vera hluti af heildarendurskoðun fjölmiðlamarkaðar á Íslandi. Litlar líkur eru á raunverulega bættri stöðu einkarekinna fjölmiðla á meðan Ríkisútvarpið hefur það gríðarlega forskot sem núverandi regluverk og tekjumódel hefur tryggt stofnuninni.
    Að mati 2. minni hluta er mikilvægt að hverfa frá því fyrirkomulagi sem viðhaft hefur verið um árabil og bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla með almennum hætti, með áherslu á einföldun rekstrarumhverfis og skattalegar aðgerðir en síður með beinum greiðslum úr ríkissjóði. Á meðan ekki hefur verið farið í heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla styður 2. minni hluti þessa leið, en vonar að þetta verði í síðasta skipti sem þessi krampakenndu viðbrögð ríkisstjórnarinnar verða viðhöfð.
    Að framangreindu virtu leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 31. maí 2023.

Bergþór Ólason.