Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1914, 153. löggjafarþing 541. mál: Seðlabanki Íslands (fjármálaeftirlitsnefnd).
Lög nr. 49 13. júní 2023.

Lög um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019 (fjármálaeftirlitsnefnd).


1. gr.

     3. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum eru teknar af Seðlabanka Íslands eða fjármálaeftirlitsnefnd, sbr. 15. gr.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
  1. 1. og 2. mgr. orðast svo:
  2.      Fjármálaeftirlitsnefnd setur stefnu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða og skal veita umsögn um stefnumarkandi áherslur í fjármálaeftirliti. Varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits undirbýr tillögu að stefnumörkun við framkvæmd fjármálaeftirlits og hefur umsjón með innleiðingu hennar að lokinni umfjöllun í nefndinni. Þá tekur nefndin ákvarðanir um eftirfarandi:
    1. afturköllun starfsleyfis og skráningar vegna alvarlegra eða ítrekaðra brota,
    2. álagningu stjórnvaldssekta,
    3. samkomulag um sátt þegar um fordæmisgefandi mál er að ræða,
    4. kæru til lögreglu vegna meintra brota gegn þeim lögum sem Fjármálaeftirlitinu er falið að hafa eftirlit með,
    5. beitingu dagsekta til að knýja á um úrbætur,
    6. beitingu févítis,
    7. frávikningu stjórnarmanns og framkvæmdastjóra þegar hæfisskilyrði eru ekki uppfyllt vegna brotlegrar háttsemi,
    8. aðrar ákvarðanir en getið er um í a–g-lið sem teljast sérstaklega þýðingarmiklar eða hafa veruleg áhrif.

         Seðlabankinn tekur aðrar ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu í stjórnvaldsfyrirmælum eða lögum. Seðlabankinn skal, að teknu tilliti til lögbundinna tímafresta, gefa fjármálaeftirlitsnefnd tækifæri til að koma að ábendingum og athugasemdum áður en teknar eru ákvarðanir í eftirfarandi málum:
    1. ákvörðunum sem varða könnunar- og matsferli fjármálafyrirtækja sem teljast kerfislega mikilvæg,
    2. veitingu eða synjun starfsleyfis til eftirlitsskyldra aðila,
    3. afgreiðslu á tilkynningum um virka eignarhluti eftirlitsskyldra aðila,
    4. höfðun dómsmáls, áfrýjun eða kæru á niðurstöðu dómsmáls til æðri dómstóls í málefnum fjármálaeftirlits.

  3. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
  4.      Í fjármálaeftirlitsnefnd sitja seðlabankastjóri, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og þrír sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaðar skipaðir af ráðherra sem fer með málefni fjármálaeftirlits. Skipunartími þeirra þriggja sérfræðinga sem ráðherra skipar er frá þremur til fimm ára og skal þess að jafnaði gætt að skipun sérfræðinganna þriggja ljúki ekki á sama tíma. Samsetning fjármálaeftirlitsnefndar skal vera þannig að nefndin búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að vinna þau verkefni sem nefndinni eru falin. Sami einstaklingur getur setið í fjármálaeftirlitsnefnd í að hámarki tíu ár. Seðlabankastjóri er formaður fjármálaeftirlitsnefndar og er varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits staðgengill hans.


3. gr.

     1. og 2. málsl. 2. mgr. 16. gr. laganna orðast svo: Fjármálaeftirlitsnefnd skal halda fundi eins oft og þörf er á, að jafnaði ekki sjaldnar en sex sinnum á ári. Fjármálaeftirlitsnefnd heldur fundi ef formaður ákveður eða þrír nefndarmenn krefjast þess.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2023.